Smávegis úr fornveðurgeiranum

Fornveðurnörd gefa fréttaritinu Past Global Changes Magazine (Hnattrænar umhverfisbreytingar á liðinni tíð) alltaf gaum. Það kemur út tvisvar á ári (og er á síðari árum aðgengilegt á netinu - leitið og þér finnið). Í desemberheftinu 2015 er fjallað um eldgos og veðurfar í nokkrum stuttum fréttagreinum (vel vísað í ítarefni). 

Margt ber á góma. Almenn inngangsgrein gagnrýnir alhæfingar og bendir á fjölmarga vankanta líkana þeirra sem reyna að herma áhrif eldgosa á veðurfar - og það sem nauðsynlega þurfi að bæta áður en við getum farið að treysta þeim almennilega. Fleiri greinar benda svo rækilega á þessa vankanta með dæmisögum úr nútíð og fortíð. Í ljós sé t.d. að koma að stærðardreifing brennisteinsagna gosanna skipti verulegu máli varðandi áhrif þeirra á veðurlag og að magnið eitt í árlagi ískjarna segi því lítt um raunveruleg áhrif á heimsvísu - hvað þá staðbundið. 

Myndin sem ritstjórinn hefur valið hér er úr grein sem ber yfirskriftina „The history of volcanic eruptions since Roman times“ - Saga eldgosa frá tímum rómverja. Reynt hefur verið að stilla saman gögn frá Suðurskautslandinu og Grænlandi til að negla betur niður tímasetningu og stærð eldgosa. Bent er á að stærð margra gosanna sé í raun mjög illa ákvörðuð með brennisteinsmælingum í ískjörnum á einum stað - eða jafnvel fleiri. Risagos sem mjög hefur verið til umræðu upp á síðkastið (Samalaseldstöðin árið 1257) hafi þannig líklega verið ofmetið í stærð. 

eldgos-past-global-changes2015-23-2

Efsta línurit myndarinnar sýnir brennisteinsmagn í tveimur grænlandskjörnum - ártöl stærstu atburða merkt inn. Brennisteinshæðin seint á 20. öld er mannræn (en er farin að lækka). Meir en 100 gos hafa verið negld niður - sé strikað undir ártalið þýðir það að gosið hafi orðið í hitabeltinu. Neðsta línuritið sýnir það sama úr kjörnum frá Suðurskautslandinu. - þar gætir aðallega hitabeltisgosa. Miðlínuritið (það svarta) sýnir áætlaðan sumarhita í Evrópu - út frá trjáhringjum - sérlega köld sumur eru merkt ártölum - flest þeirra virðast tengjast eldgosum. 

Fróðleg grein er um gosið í Tambóru 1815 og meinta vöntun trjáhringja. Fyrir nördin er þar kannski markverðast að svo virðist sem að hægt sé að nota mikinn geimgeislaatburð (og C14-samsætuhámark honum samfara) sem búið er að negla niður í flestum heimshlutum á árin 774-775 sem fastan punkt. Ekki vita menn enn hvað gerðist - helst er stungið upp á geimgeislahrinu eða sérlega öflugu sólgosi (heldur óþægileg hugsun það). Einnig er í greininni fjallað um ýmsar flækjur varðandi veðurfarsleg áhrif gossins 1815, m.a. að líkanreikningar gefa til kynna mun meiri kólnun heldur en veðurvitni vitna um að hafi orðið. Hvernig má samræma þetta? 

Greinarstúfur fjallar um áhrif eldgossins mikla 536 á trjávöxt í Síberíu. Þetta gos hefur verið illa stað- og tímasett og sömuleiðis voru á sínum tíma vel þekkt vandamál varðandi árlagatalningar í Grænlandskjörnum á þessum tíma - vonandi er mönnum að takast að ná utan um þau vandamál. Kuldakast þessara ára er talið eitt hið mesta á síðustu 2000 árum á norðurhveli - þrátt fyrir að önnur brennisteinshámörk Suðurskautsíssins séu mun meiri (sjá myndina að ofan). Hvernig gat orðið svona kalt?

Í grein er komist að þeirri niðurstöðu að stór eldgos séu ógnun við fæðuöryggi heimsins. Í greininni kemur gosið (gosin) við Reykjanes milli 1220 og 1230 við sögu (hinn frægi Sandvetur með sínum nautadauða í Svignaskarði) og er talið hafa haft áhrif í Rússlandi, Austur-Asíu, Norður-Afríku og á sléttum Norður-Ameríku (trúum við því?) ásamt stóru eldgosi í Japan 1227 til 1230. 

Hinn þekkti eldgosaveðurfarsfræðingur Alan Robock varpar fram áleitnum rannsóknaspurningum til næstu ára og spyr m.a. hvort og þá hvernig Lakagígagosið 1783 hafi haft áhrif á eða valdið hitunum miklu í Evrópu þá um sumarið. 

Fjallað er um hnattræn áhrif eldgosa á vatnshringrás andrúmsloftsins - en talsverð tímabundin þornun virðist fylgja stærstu gosunum - en hér er mjög mörgum spurningum ósvarað. Grein er um áhrif agnastærðar á veðurfarsmætti eldgosa og önnur um geislunareiginleika eldgosaars. 

Í lok heftisins er í frétt greint frá stofnun vinnuhóps um hlýskeið kvartertímans - í honum eiga menn að klóra sér í höfðinu og síðan reyna að skýra hvers vegna hlýskeiðin hafa verið jafn mismunandi og raun ber vitni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

volítið skrídin dreifíng  ef rétt er. skijst reindar að þessi gos séu mestu hraungos svipuð og í holuhrauni þá hefur verið mjög misvindasamt á gosstöðunum ef þetað á að hafa dreifst svona.  

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 7.1.2016 kl. 14:42

2 identicon

Á tímum Rómverja hefur meðalhiti á jörðinni líklega verið u.þ.b. 1,5 gráðum hærri en nú skv. Moggabloggsíðu Ágústs H. Bjarnasonar.

Skýringin á því að talsverð tímabundin þornun virðist fylgja stærstu gosunum sýnist mér nokkuð augljós. Rakamettun lofts hækkar með hækkandi hita og lækkar því með lækkandi hita, sem hefur því bein áhrif á vatnshringrás andrúmsloftsins. Ef loftslag kólnar vegna eldgosa, jafnvel bara tímabundið, þá lækkar rakamettun lofts sem leiðir því til talsverðar tímabundinar þornunar. Um þetta má lesa nánar á síðu moggabloggs vinar þíns Vilhjálms Eyþórssonar en greinin heitir „Að flýta ísöldinni“.

En fyrst að menn gerast svo djarfir að skoða hitafar aftur fyrir hið heilaga mark 1870, væri þá ekki rétta viðmiðunartímabilið að skoða hitafar frá lokum síðasta jökulskeiðs núverandi ísaldar sem lauk fyrir um 11.000 árum? Þá myndi bórealskur tími teljast með en talið ar að þá hefi meðalhit á jörðinni verið um 4 gráðum hærri en nú.

Þorsteinn Styrmir Jónsson (IP-tala skráð) 7.1.2016 kl. 20:24

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Á hungurdiksum hefur ítrekað verið bent á að hlýindi á norðurhveli á fyrstu árþúsnundum nútíma eru því að þakka að sól var þá nær jörðu á sumrin en nú er - stóra og litla árstíðasveiflan féllu þá saman en voru ekki andstæðar eins og nú er. Ástæður hlýinda síðustu áratuga og aldar eru allt aðrar. Að bera þessar tvær hlýindastöður saman er því mjög villandi. Auk þess er ekki (með áherslu á orðið ekki) eingilt samband á milli hita og veðurfars í heiminum öllum - og enn síður á einstökum svæðum. Að hugsa sér hlýindi svokallaðs „bestaskeiðs“ nútíma og það veðurfarsmynstur sem þá ríkti sem eins konar mót (eða analógíu) fyrir öll önnur hlýskeið - er líka villandi. Veðurfar breytist ekki (enn með sérstakri áherslu á orðið ekki) eingilt með hita. Ritstjóri hungurdiska er uppgefinn á slíkum alhæfingum - hvort sem þær koma frá svokölluðum „efasemdarmönnum“ eða þær hrjóta af vörum æstra „hlýnunarsinna“. Hvorir tveggja eru illa upplýstir um raunveruleikann - eða í besta falli haldnir fljótfærni.  

Trausti Jónsson, 7.1.2016 kl. 21:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1043
  • Sl. sólarhring: 1118
  • Sl. viku: 3433
  • Frá upphafi: 2426465

Annað

  • Innlit í dag: 930
  • Innlit sl. viku: 3086
  • Gestir í dag: 902
  • IP-tölur í dag: 835

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband