Að mörgu að hyggja

Óvenjuhlýtt loft verður yfir landinu um helgina - en þar sem vindur er yfirleitt hægur er ekki sjálfgefið að kalda, þunga, loftið næst jörðu yfirgefi svæðið. Jú, þar sem það getur streymt niður í móti og út á sjó kemur hlýtt loft að ofan í stað þess. Að spá um hita á einstökum stöðum er mjög erfitt. Síðdegis þegar ritstjórinn ók um Kjalarnes var -5 stiga frost á stöð Vegagerðarinnar við Móa - en við Skrauthóla var komið í +1 stigs hita og utar á nesinu mígrigndi. Þetta er alveg sérlega varasamt veðurlag því hálka getur myndast skyndilega - og verið þar sem engin virðist. 

En við skulum líta á nokkur kort og sjá hvernig vandinn birtist. Fyrst er eitt sem sýnir sjávarmálsþrýsting og mættishita í 850 hPa fletinum á sunnudagsmorgunn (22. nóvember) kl. 6. Mættishiti lofts er sá sem við myndum mæla ef við gætum dregið það óblandað niður í 1000 hPa (nærri sjávarmáli). 

w-blogg211115a

Litirnir sýna mættishitann. Þeir sem rýna í kortið munu sjá töluna 23,6 stig yfir Hornströndum. Já, ef við gætum náð loftinu í 1400 metra hæð óblönduðu niður til sjávarmáls yrði það 23,6 stiga heitt. Slíkt er auðvitað óskhyggja - og sérstaklega í hægum vindi. Við skulum líka taka eftir lægðinni kröppu suður af Grænlandi. Loftið í henni er komið langt úr suðri - kortið sýnir mættishitann 27,1 stig suður af lægðarmiðjunni. 

Vert er að fylgjast með þessari lægð - en reiknimiðstöðvar eiga ekki létt með að höndla hana - meir um það hér síðar.

Næst er það spákort harmonie-líkansins um hita í 2 m hæð á landinu á sunnudag kl.6 - sama tíma og kortið hér að ofan sýnir.

w-blogg211115b

Hér má sjá tilraun líkansins til að segja okkur hvar kalda loftið þrjóskast við. Vel hefur gengið að losna við það um landið norðvestanvert - enda er vindur þar einna mestur - 9 stiga hiti á Hornbjargsvita. En kuldinn liggur víða - frost er á bláu svæðunum og meira að segja má sjá meir en -10 stiga frost á blettum á hálendinu - en í niðurstreyminu norðan Vatnajökuls er 6 stiga hiti í Kverkfjöllum.

Förum næst upp í 100 metra hæð í líkaninu - alls staðar 100 metra yfir yfirborði landsins - hvort sem er á láglendi eða hálendi.

w-blogg211115c

Hér eru frostsvæðin miklu minni umfangs - berið t.d. saman hita kortanna í Skaftafellssýslu - þau gilda á sama tíma. Hitinn í Kverkfjöllum er 12 stig. Eins og augljóst ætti að vera er varla hægt að ætlast til þess að líkanið hafi alls staðar á réttu að standa í stöðu sem þessari - hitinn sveiflast mikið bæði lárétt og lóðrétt - blöndun er afleit í allra neðsta laginu. 

Þessi vandræði ná ekki aðeins til hitans heldur einnig til raka - kortið hér að neðan sýnir rakaspá líkansins kl. 18 á morgun, laugardag 21. nóvember. 

w-blogg211115d

Rakastigið við Faxaflóann er hátt í 100 prósent - í skýlausu veðri (megi trúa líkaninu) - skyldi verða þoka? Í 700 metra hæð (925 hPa) ríkir þurra loftið - eins og sjá má á kortinu hér að neðan.

w-blogg211115e

Skraufþurrt loft er yfir Flóanum - á Esjutindi. Neðsta lagið liggur óblandað rakt hráslagalegt - en kannski þó nægilega þurrt til að þoku sé forðað - ekki veit ritstjórinn neitt um það. 

En að lokum er gervihnattamynd sem fengin er af vef kanadísku veðurstofunnar. Myndin er frá því um miðnætti á föstudagskvöld (20. nóvember). 

w-blogg211115f

Við sjáum Atlantshaf, allt frá Íslandi í norðri og langleiðina suður að miðbaug. Skýjakerfi er á hraðri austurleið yfir Grænlandi (hlýja loftið okkar) - sunnan Grænlands er skýlítið svæði þar sem er óvenjumikil hæð - líka á leið til austurs. Þar sunnan við er mikið skýjakerfi - sannkallaður hroði - það bíður færis að skjótast á móts við heimskautaröstina um leið og hæðarhryggurinn er kominn hjá. 

Nú er spurningin hversu mikið af þessu suðræna lofti kemst norður - og ræður það afli lægðarinnar sem við sáum sunnan Grænlands á fyrsta kortinu hér að ofan - kannski lokast fyrir sunnanloftið aftur - þannig að lítið sleppur norður - ?

Það er að mörgu að hyggja um helgina. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband