Hvarfbaugshroði

Þegar sól lækkar á lofti hressist vestanvindabeltið mjög eftir sumardoðann, heimskautaröstin lifnar öll og lægðir fóðrast betur. Kólnunin gengur hraðar fyrir sig á norðurslóðum heldur en suður í höfum - og sumarið lifir lengst yfir hafsvæðum hlýtempraða beltisins. 

Hitabelti jarðarinnar er gjarnan talið ná að hvarfbaugum - en þeir eru á 23,5 gráðum norður- og suðurbreiddar. Sól er í hvirfilpunkti yfir nyrðri hvarfbaug á sumarsólstöðum norðurhvels (21. júní) en yfir þeim syðri á sólstöðum á vetri. Á jafndægrum fer hún yfir miðbaug. 

Tempruðu beltin eru síðan sögð ná frá hvarfbaugum til heimskautsbaugs hvors hvels, þar taka heimskautasvæðin við. Oft er talað um syðri (nyrðri á suðurhveli) hluta tempraða beltisins sem sérstakt svæði, hlýtempraða beltið. Orðasafn bandaríska veðurfræðifélagsins segir það gróflega ná frá hvarfbaugum að 35 gráðum norður. 

Á þessum árstíma er hlýtempraði hluti Atlantshafsins að jafnaði sunnan heimskautarastarinnar - en hún teygir sig þangað endrum og sinnum og nær í hlýtt og rakabólgið loft sem þá gengur inn í vestanvindabeltið og getur valdið þar alla konar usla. 

Stóru tölvulíkönin virðast vera farin að ráða betur við spár á þessu svæði heldur en áður - að minnsta kosti 2 til 3 daga fram í tímann - og sýnast gera það lengra fram í tímann - ef nákvæmlega ekkert er um að vera. En að undanförnu hefur það hvað eftir annað sýnt sig að í raun og veru ræðst illa við samskipti þessa svæðis og heimskautarastarinnar. Reiknimiðstöðvar hafa sent frá sér hverja furðuspána á fætur annarri og ótrúlegt hring hefur verið frá einni spárunu til annarrar. 

Þegar þetta er skrifað, laugardagskvöldið 26. september stefnir til okkar kerfi sem ber með sér þátt úr hlýtempraða beltinu. Ritstjórinn hefur kosið að kalla svona nokkuð „hvarfbaugshroða“ - orðið aðallega valið vegna þess að það hljómar vel - frekar en að gegnheil skilgreining standi að baki. Lesendur hafi það í huga. 

Við lítum á gervihnattamynd sem fengin er af vef kanadísku veðurstofunnar nú í kvöld og sýnir svæði allt frá Íslandi í norðri suður í hitabelti. 

w-blogg270915a

Mest áberandi á myndinni eru háský heimskautarastarinnar (gulbrún) sem liggja í miklum sveig frá Íslandi langt suðvestur í haf og síðan til vesturs nærri 40. breiddargráðu. Hlýja loftið er þar sunnan við. Þar má sjá að enn er dálítið líf í hitabeltislægðinni Ídu (dökki bletturinn fyrir neðan miðja mynd) - en örvarnar benda á fleiri klakkakerfi (hroða) - fremur saklaus að sjá - en þau sýna vel hvar rakt og hlýtt loft er að finna. 

Heimskautaröstin er nú við það að teygja fingur sína suður í raka loftið og reynir að grípa það með sér til norðurs. Það má e.t.v. sjá á kortinu hér að neðan.

w-blogg270915b

Kortið gildir kl. 6 að morgni sunnudags (27. september). Örvarnar sýna vindstefnu í 300 hPa-fletinum (í um 9 km hæð) og litirnir vindhraðann (sjá kvarðann). Röstin tekur mikla dýfu til suðurs yfir Labrador og teygist suður fyrir 40. breiddarstig. Til verður orkuþrungið stefnumót. 

w-blogg270915c

Þriðja kortið sýnir sjávarmálsþrýsting og hita í 850 hPa nú á miðnætti (laugardagskvöld 26. september). Hringrás Idu er harla aumingjaleg - og á stefnumótaslóðum er aðeins aflöng og sakleysisleg lægð. Hvað gerist svo? 

Um það eru evrópureiknimiðstöðin og bandaríska veðurstofan ótrúlega ósammála - þótt þetta sé um það bil að gerast. 

Lítum fyrst á bandaríska spá sem gildir kl. 6 á þriðjudagsmorgun.

w-blogg270915d

Ekki lítur það vel út. Gríðarkröpp lægð rétt komin norður fyrir land með miklum en skammvinnum ofsa um landið austanvert - og hugsanlega víðar.

Evrópureiknimiðstöðin á sama tíma:

w-blogg270915e

Hvar er lægðin? Jú, mikill sunnanstrengur er skammt fyrir austan landið - en heimskautaröstin hefur straujað hana - hefur náð hlýja loftinu - en ekki tekist að vinda upp á það. Það er reyndar ekki auðvelt að vinda upp krappa lægð langt sunnan úr höfum - til þess þarf hjálp úr vestri - eða mjög mikla losun dulvarma. 

Eitthvað er greinilega öðru vísi í greiningum líkananna - eða í eðli þeirra - hvort er vitum við ekki. Þegar ósamkomulag sem þetta kemur upp er það oftar evrópureiknimiðstöðin sem hefur á réttu að standa - ritstjórinn hefur ákveðnar skoðanir á þessari stöðu - en hann gefur ekki út spár - ekki heldur nú. Við látum Veðurstofuna alveg um að fylgjast með þróun lægðarinnar. 

Að undanförnu hefur mikill óróleiki verið í spánum - sérstaklega þegar komið er meir en fjóra daga fram í tímann og hvað eftir annað komið í ljós að rétt er að taka þeim með varúð. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ef röstinn fer svona neðanlega nær hún þá ekki hlíra lofti. þíðir það ekki meiri óstöðugleika næstu mánuði.gétur verið að menn séu ornir svo háðir tölvum að menn géti ekki metið veðrið útum gluggan. skilst að það sé búið að leggja gömlu veðurskipunum en er það ekki svo um allan heim nú um stundir. veðrið virðist vera að snúa á veðurfræðínga. því meiri ástæða skrá niður veður til að hafa fyrir komandi veðurfræðínga skilst að dagbækur flota hennar hátignar bretadrottníngar hafi hafi nýst vel í sagnfræði feðurfræðinar

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 27.9.2015 kl. 09:55

2 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Ég geri svona líkön í huganum fyrir veðrið og það líkan sem ég er með núna segir að það muni verða ofsaveður á Þriðjudaginn á Íslandi. Hversu nákvæm þessi spá er hjá mér veit ég ekki, skoða ekki slíkt. Þó veit ég að veðrið verður ekki gott á Þriðjudaginn.

Jón Frímann Jónsson, 27.9.2015 kl. 12:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg261224ia
  • w-blogg261224d
  • w-blogg261224b
  • w-blogg261224c
  • w-blogg261224a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.12.): 194
  • Sl. sólarhring: 912
  • Sl. viku: 2576
  • Frá upphafi: 2423226

Annað

  • Innlit í dag: 185
  • Innlit sl. viku: 2333
  • Gestir í dag: 183
  • IP-tölur í dag: 182

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband