Mikil umskipti (alla vega í bili)

Nú skiptir um veðurlag frá því sem verið hefur að undanförnu - sé að marka spár reiknimiðstöðva. - Alla vega í nokkra daga. Þetta kemur einna best fram sé 500 hPa meðalhæð síðustu tíu daga borin saman við spá um hæðina þá næstu tíu.

Fyrsta kortið hér að neðan sýnir liðið ástand - samkvæmt greiningu evrópureiknimiðstövðarinnar.

w-blogg300815a

Heildregnu línurnar sýna 500 hPa hæð síðustu tíu daga, en litirnir vik hennar frá meðallagi áranna 1981 til 2010. Mikil og þrálát lægð hefur haldist sunnan við land og hefur hún með köflum beint til okkar mjög röku lofti úr suðri og austri - en í neðri lögum hefur áttin verið af austri og norðaustri. Eindregin lægðarsveigja er á jafnhæðarlínunum - almennt bendir slíkt til þess að loftið sé upphaflega upprunnið á norðurslóðum, en það hefur í þessu tilviki farið langa leið austur um Atlantshaf, hlýnað á leiðinni og dregið í sig raka - sem síðan hefur að nokkru fallið sem úrkoma um landið norðan- og austanvert. 

Blái liturinn sýnir neikvæð vik - vestur af Írlandi hafur hæðin verið um 180 metrum ofan meðallags. 

En nú eiga að verða mikil umskipti á hringrásinni - einmitt á höfuðdaginn, 29. ágúst. Sá dagur hefur um aldir verið tengdur veðurbreytingum. - Ritstjóri hungurdiska er frekar trúaður á að eitthvað sé til í því - þótt vart tengist nákvæmri dagsetningu. 

w-blogg300815b

Kortið gildir næstu tíu daga, fram til 8. september. Hér hafa orðið mikil umskipti frá fyrra korti. Vestanátt komin stað austanáttarinnar, hæðarsveigja í stað lægðarsveigju og gríðarmikil jákvæð vik í stað neikvæðra - jákvæðu vikin (meir en 250 metrar) eru þó nær landinu heldur en þau neikvæðu voru á hinu kortinu.

Verði þetta raunin verður veður næstu viku allt öðru vísi en veður þeirrar sem liðin er - og ólíkt veðri lengst af í sumar. Loftið er af suðlægum uppruna - væntanlega stöðugt og mjög hlýtt verður í háloftunum. Talsverð von er til þess að norður- og austurhluti landsins njóti þeirra hlýinda - en auðvitað ekki alveg gefið frekar en venjulega. Hafáttin vestanlands er hins vegar sjaldan hlý, jafnvel þótt hlýtt sé efra.

Þar sem loftið er stöðugt eru úrkomulíkur almennt mun minni heldur en verið hefur - á því eru þó tvær undantekningar. Annars vegar er algengt að stöðu sem þessari fylgi þrálát og jafnvel mikil úrkoma um sunnanverða Vestfirði - þar sem hlýtt og rakt loft úr suðvestri er þvingað í uppstreymi yfir fjöll. Hins vegar er það sjaldan að suðvestanátt sem þessi sé alveg hrein og laus við lægðarbylgjur. Renni slíkar hjá fylgja þeim oftast álitleg úrkomusvæði. 

Sem stendur eru einna mestar líkur á slíku á fimmtudaginn. Kortið að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar á hádegi þann dag.

w-blogg300815c

Jafnhæðarlínur eru nokkuð þéttar samfara lægðardragi sem er að fara hjá landinu - og hlýindi fyrir austan. 

En það verður gaman að fylgjast með því hvort þessi umskiptaspá rætist. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

 Fyrir okkur Reykvíkinga eru þetta umskipti til hina verra. Þýðir kannski að hlýir sólardagar eru liðnir en svo þegar aftur koma sólardagar verða þeir kaldir.

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.8.2015 kl. 02:59

2 Smámynd: S Kristján Ingimarsson

Sæll Trausti.  Takk fyrir skemmtilega pistla.  Úr því að þú minnist á höfuðdag og hjátrú sem tengist honum langar mig að spyrja hvort að það geti verið einhver tengsl milli lofthita og eldgosa.  Faðir minn hefur talað um að sumarið eftir eldgos sé oftast kalt. Skyldi þetta vera hjátrú eða er til einhver tölfræði sem getur staðfest þetta? 

S Kristján Ingimarsson, 30.8.2015 kl. 08:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 897
  • Sl. sólarhring: 1113
  • Sl. viku: 3287
  • Frá upphafi: 2426319

Annað

  • Innlit í dag: 797
  • Innlit sl. viku: 2953
  • Gestir í dag: 780
  • IP-tölur í dag: 718

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband