Fórnarlömb troðnings

Þó svo sé að heyra að höfuðborgarbúar og nærsveitamenn séu nokkuð ánægðir með veðrið undanfarna daga er því ekki að neita að kalt er í veðri á landinu í heild. Reyndar var það svo að hiti var ofan meðallags síðustu tíu ára á aðeins einni veðurstöð í dag, á Patreksfirði. Á veðurstofutúni var hitinn -0.8 stigum undir meðallagi og -1,0 stigum undir því við Korpu. Kuldinn fyrir norðan er ískyggilegur, við Mývatn var hann -5,4 stigum undir meðallagi, meðalhiti sólarhringsins aðeins +4,1 stig og hámarkshiti dagsins 7,4 stig. 

Ástæða kuldans er kuldapollur sem hörfað hefur undan troðningshlýindum á norðurslóðum. Þetta sést vel á kortinu hér að neðan. Það er frá bandarísku veðurstofunni og sýnir spá um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina um hádegi á laugardag (11. júlí).

w-blogg100715a

Norðurskautið er ekki fjarri miðju myndar, en Ísland sést neðst á henni. Heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins - en litir þykktina. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Á heimskautaslóðum eru hlýindin þó sýnd veiði frekar en gefin - því undir liggur gjarnan þunnt lag af köldu lofti yfir ísbreiðum eða köldum sjó. 

Á landi er meiri von um hlýindi, í gær (8, júlí) mun hiti t.d. hafa farið í 20,4 stig á Norðvesturgrænlandi í byggðarkjarnanum Qaanaaq, þeim stað sem við köllum gjarnan Thule. Svo vel vildi til að danadrottning var þar í heimsókn. Vindur stóð af fjalli um tíma - en fór niður undir frostmark þegar skipti um. Tengill í frétt má finna á fjasbókarsíðunni opnu, „svækjusumar“, þar sem ritstjóri hungurdiska (og vinsamlegir hópbúar) setja stundum inn tengla á fréttir tengdar hitum og slíku í útlöndum. Ritstjórinn veit ekki hvort stigin 20,4 eru met - það kemur vonandi í ljós síðar. Spáin fyrir Thulesvæðið er hlýindaleg áfram - þykktin á kortinu er þar um 5580 metrar - það þætti okkur vænt um að fá hingað. 

En hlýindatroðningur norðurslóða ryður kalda loftinu úr heimkynnum sínum suður til okkar. Á laugardaginn er versti kuldinn þó kominn vestur fyrir land eins og sjá má á dökkgræna svæði kortsins - en mildari fölgrænn litur liggur yfir landinu. Að meðaltali eigum við þó að vera inni í þeim sandgula í júlí. Kuldinn hefur einnig hörfað til annarra átta í kringum íshafið. 

En - þótt eitthvað hlýni er samt ekki von á verulega hlýju lofti í bráð. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 318
  • Sl. sólarhring: 462
  • Sl. viku: 1634
  • Frá upphafi: 2350103

Annað

  • Innlit í dag: 285
  • Innlit sl. viku: 1488
  • Gestir í dag: 278
  • IP-tölur í dag: 268

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband