Enn eitt sjávarhitakortið

Það er sannarlega verið að bera í bakkafullan vefheimalækinn með því að birta sjávarhitavikakort úr öðrum heimshlutum hér á hungurdiskum - en ritstjórinn lætur sig hafa það að þessu sinni (og vill ekki einu sinni loft því að gera það aldrei aftur).

w-blogg080715a

Gulir og brúnir litir sýna jákvæð vik - gríðarleg hlýindi eru í austanverðu Kyrrahafi. Þar er margfrægur El nino nærri miðbaug - einhver stríðnissvipur samt á drengnum - svo margir hafa svo oft orðið sér til svo mikillar skammar við elninospár að mikil varkárni einkennir alla nema þá reynslulausu (eða fífldjörfu). Við vesturströnd N-Ameríku eru jafnvel enn stærri vik - hlýr blettur sem þarlendir hafa kosið að kalla „The Blob“ (aldrei orðavant þar vestra). Orðabókin þýðir það sem „klessan“ (enginn stór stafur á íslenskum lager hungurdiska) - og vísar ef til vill til amerískra vísindahrollvekja sjötta áratugarins - [hér átti að koma kafli um hrun íslenskrar menningar - en yfirritstjórinn klippti hann út].

Á Atlantshafi er mynstrið allt annað. Mjög hlýtt er í norðurhöfum fyrir norðan Ísland og þaðan langt austur í Barents- og Karahöf. Vindur sem blæs þaðan er samt ekkert sérlega hlýr - frekar en venjulega - en væri enn kaldari ef sjórinn væri það. 

Suður í hafi er kalt - það er að segja kaldara en venjulega - blái liturinn byrjar við -2 stig. Strandsævi Evrópu eru mjög hlý og eins er nokkuð hlýtt undir Asóreyjahæðinni. Þar sunnan við - á staðvindasvæðinu er aftur óvenju kalt. Suðurvængur Asóreyjahæðarinnar hefur að sögn verið mun öflugri en venjulegast er - sjávarmálsþrýstingur í hæstu hæðum - það hefur styrkt staðvindana og blandast yfirborðssjór sem sífellt er að hlýna í sólinni jafnharðan kaldari sjó undir. Þetta vilja menn kenna fjarhrifum (teleconnection) elnino sem valdi niðurstreymi á þessum slóðum. Við viljum trúa því (enda er það góð uppástunga).  

Eins og venjulega finnst manni að þessi mynstur kortsins muni standa að eilífu - en svo verða breytingarnar furðuhraðar þegar að þeim kemur - eins og venjulega. 

Reiknilíkön reyna að spá - en þeim er í reynd oftast lítið að treysta - sum segja að El nino styrkist fram að áramótum - en málpípur annarra klóra sér í hausnum - og enn fleiri klóra sér yfir kyrrahafsklessunni - sem enginn virðist vita hvað verður um.

Í Atlantshafi er helst talið að mynstrið annað hvort haldi sér að mestu næstu mánuði - eða það dofni - frekar en að það fari að snúast við eða taka upp á öðrum kúnstum. Strandsjávarhlýindin eru að vísu veigalítil - og geta horfið á mjög stuttum tíma. 

Rétt er að taka fram að bláu svæðin nyrst og syðst á kortinu sýna hafís heimskautaslóða - en ekki hitavik. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

The Blob, er PDO í jákvæðum fasa, þannig að líklegt að heimshitametið frá '98 falli í ár eða á næsta með sterkum El Nino og PDO í +.

Hermundur Sigurdsson (IP-tala skráð) 8.7.2015 kl. 21:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (23.5.): 52
 • Sl. sólarhring: 96
 • Sl. viku: 1593
 • Frá upphafi: 2356050

Annað

 • Innlit í dag: 48
 • Innlit sl. viku: 1478
 • Gestir í dag: 46
 • IP-tölur í dag: 45

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband