Kuldi úr Norður-Íshafi

Það svala loft sem hefur verið að heimsækja okkur í vetur hefur aðallega verið ættað frá Kanada. Nú bregður svo við að norrænn kuldi virðist ætla að heimsækja okkur í hörpubyrjun. 

Það er reyndar oft þannig að þegar vestanáttin í háloftunum skiptir í vorgírinn - og breytist reyndar í austanátt ofan við 20 km hæð - kemur los á ört minnkandi kuldapolla í norðurhöfum og þeir taka á rás suður á bóginn - stundum til okkar - stundum til Skandinavíu eða eitthvað annað. Tímabilið frá því um 20. apríl til 20. maí er þrýstingur að meðaltali hæstur hér á landi og norðanátt algeng. 

Síðasta vika (13. til 19. apríl) hefur verið hlý - sérstaklega þó síðustu þrír dagarnir um norðaustan- og austanvert landið. Hæð hefur verið nærri Bretlandseyjum og hefur hún beint til okkar hlýju lofti. Nú á að skera á sunnanáttina - það fer að kólna strax á morgun (mánudaginn 20.) - en lægðardrag sem fer hjá á aðfaranótt miðvikudags markar upphaf kuldans. 

Kortið að neðan er sjávarmálsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 síðdegis á miðvikudag 22. apríl.

w-blogg200415a

Umrætt lægðardrag er komið til Vestur-Noregs (lægðir af þessu tagi eru í sérstöku uppáhaldi hjá ritstjóra hungurdiska - en það er önnur saga). Hér er vestanátt enn ríkjandi á landinu. Það er -5 stiga jafnhitalínan í 850 hPa sem liggur með suðurströndinni, en -10 jafnhitalínan er ekki langt fyrir norðan land. 

Þetta er ekki óvenjulegt á þessum árstíma - hér er hretið varla byrjað. En norðanáttin sækir að. Hæðin við Norðvestur-Grænland er mjög öflug, hér komin yfir 1040 hPa. Evrópureiknimiðstöðin ætlar með hana upp fyrir 1050 hPa á fimmtudag (þá utan við svæðið sem þetta kort sýnir) - orðið óvenjulegt reynist það rétt. 

Norðanáttin sem er fyrir norðan landið sýnist ekki mjög ógnandi öflug - jú, við sjáum -15 stiga jafnhitalínuna - en rétt norðan við kortið er mjög snarpur kuldapollur, sá kaldasti á norðurhveli öllu um þessar mundir. Í honum miðjum er spáð meir en -25 stiga frosti í 850 hPa á miðvikudaginn. 

Við látum bandarísku veðurstofuna sýna okkur kuldapollinn - kortið gildir á sama tíma og kortið að ofan, kl. 18 síðdegis á miðvikudag.

w-blogg200415b

Kortið sýnir norðurhjarann - Ísland er alveg neðst á myndinni, norðurskautið nærri miðri mynd. Kuldapollurinn - er við norðausturhorn Grænlands. Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins en litir þykktina. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. 

Mörkin á milli grænna og blárra lita eru við 5280 metra, sú þykkt er mjög algeng í apríl - en við kveinum aðeins undan henni þegar líður á maí. Örin sýnir áætlaða leið kuldans, fjólublái liturinn lifir ekki af ferðina til Íslands - enda eins gott. Þar er þykktin minni en 4920 metrar og fer sárasjaldan niður fyrir það hér á landi - þótt hávetur sé. 

Báðar reiknimiðstöðvar, sú bandaríska og sú evrópska segja þykktina fara niður fyrir 5000 metra hér á landi á aðfaranótt laugardags. Það eru einhver örfá gömul dæmi um slíkt á þessum tíma árs í gögnum, svo fá, að þessar miklu svartsýnisspár reiknimiðstöðvanna sýnast beinlínis ótrúverðugar. 

En við bíðum auðvitað spennt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vindurinn ýlfrar í upsunum hér

álftirnar hættar að kvaka

vorið sem ætlaði ´að verða það fer

en veturinn kemur til baka

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 20.4.2015 kl. 08:22

2 identicon

Þetta fer bara að slá út vorhretið 1963, sem þó var upphafið af 30 ára kuldaskeiði. Það skyldi þó ekki vera að spá Páls Bergþórssonar skuli vera að ganga eftir?

Hermundur Sigurðsson (IP-tala skráð) 20.4.2015 kl. 13:16

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Lipur vísa Bjarni - takk fyrir hana. Ritstjóri hungurdiska hefur litla hugmynd um hvað gerist í framtíðinni - en veit þó að við erum enn inni á miklu hlýindaskeiði - þótt stök kuldaköst líti alltaf við. Í vetur hafa þau verið fá, mesta frost vetrarins til þessa í Reykjavík er -9,6 stig. Það er sárasjaldan að mesta frost vetrarins sé minna en -10 stig í Reykjavík, gerðist þó veturna 2008 til 2009 og 2012 til 2013. Í hretinum 1963 fór frostið í Reykjavík í -12,5 stig. Mesta frost sem mælst hefur í Reykjavík eftir 20. apríl er -12,5 stig, árið 1887 - við skulum vona að við sleppum við slíkt.

Trausti Jónsson, 20.4.2015 kl. 14:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 32
  • Sl. sólarhring: 159
  • Sl. viku: 1953
  • Frá upphafi: 2412617

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 1706
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband