Sunnudagur 14. desember kl. 03 - á nokkrum gerðum veðurkorta

Við lítum nú á hvernig sunnudagsillviðrið kemur fram á nokkrum gerðum veðurkorta. Auðvitað hafa ekki allir hugsanlegir lesendur ánægju af því - en byrjum á tveimur vel skiljanlegum veðurkortum sem flestir ættu að kannast við - svo kemur í ljós hve lengi áhuginn endist.

En á morgun (laugardaginn 13. desember) dýpkar lægð mjög skyndilega rétt vestan við land og yfir því. Vindur er fremur hægur nærri lægðarmiðjunni (þó ekki alveg allstaðar) og fær landið ekki að finna fyrir honum fyrr en miðjan er að komast austur fyrir. Síðan kemur norðanáhlaup eins og veggur úr norðri um miðnæturbil að kvöldi laugardagsins og gengur síðan hratt til suðurs og austurs yfir landið. Vonandi verður búið að hreinsa frá seint á sunnudagskvöld um landið vestanvert - en austanlands um eða eftir miðjan mánudag.

Við lítum nú á stöðuna kl. 3 á aðfaranótt sunnudagsins - eins og harmonie-líkan Veðurstofunnar reiknar hana. Fyrsta kortið er hefðbundið og sýnir sjávarmálsþrýsting, vind og úrkomu. Kvarðar kortanna verða auðlesanlegri séu myndirnar stækkaðar.

w-blogg131214a

Jafnþrýstilínur eru heildregnar - lægðarmiðjurnar eru tvær, önnur við norðausturhornið, 958 hPa - en hin rétt suðaustan við land, 959 hPa í miðju. Vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum en úrkoma með litum. Kvarðinn sýnir úrkomuákefð á klukkustund. Á bláu svæðunum á Tröllaskaga er hún 5 til 10 mm á klukkustund. Það er býsna mikið, Reykvíkingum þykir mikið rigna sé ákefðin meiri en 2 mm á klst. Víða um land eru menn vanir hærri tölum. Hætt er við að ákefðin haldist fram yfir hádegi og svo ámóta langan tíma austanlands þegar að því kemur. 

w-blogg131214b

Hér er svo vindur í 10 metra hæð. Á bleiku svæðunum er vindhraðinn meiri en 24m/s (10-vindstig). Mörkin milli bláu og grænbláu svæðanna eru sett við 16m/s. Veðrið hefur hér ekki náð til Akureyrar og ekki til Reykjavíkur, en farið er að hvessa á þjóðleiðum vestanlands.

w-blogg131214c

Nú fara hlutir að gerast torráðnari. Þetta kort sýnir lóðréttan vind (í m/s) í 850 hPa - í 1000 til um 1100 metra hæð yfir sjávarmáli (lægðin er djúp). Bláir og grænir litir sýna uppstreymi - en gulir og rauðir sýna niðurstreymi. Láréttur vindur í fletinum er sýndur með hefðbundnum vindörvum. Sjá má upp- og niðurstreymi sem er 5 m/s eða meira yfir öllum fjöllum á illviðrissvæðinu. Þegar þetta ástand breiðist austur um verður flug orðið vafasamt - (hungurdiskar spá þó engu um slíkt).

Svipaðar upplýsingar eru á næsta korti.

w-blogg131214ca

Hér sjáum við það sem kallað hefur verið ókyrrðarábendi (hreyfikvikuorka) í neðstu 500 metrunum fyrir ofan jörð. Höfum ekki áhyggjur af einingunum - en ábendi þetta segir til um hvar (fjalla-)bylgjur (eða aðrar) eru að brotna - ekki gott að fljúga í gegnum það. Á þeim svæðum þar sem gildi eru há - blandast hreyfiorka - miklir vindstrengir í fjallahæð geta valdið hviðum neðar. Það má upplýsa að hæstu tölurnar teljast ekki mjög háar - miklu hærri gildum er spáð yfir sunnanverðum Vatnajökli þegar vindstrengurinn nær þangað. 

w-blogg131214d

Hér má sjá tilraun til skafrenningsspár - getur verið mjög gagnleg. Á rauðu svæðunum er spáð miklum skafrenningi - gera má ráð fyrir því að akstur á vegum sé þar erfiður vegna blindu. - 

w-blogg131214e

Hér er svo spá um iðu í 850 hPa. Iðan er þykir nokkuð dularfullt hugtak og ekki er mikil reynsla fyrir hendi í túlkun á korti sem þessu. Iðan reiknast mest í jaðri vindstrengja (þar sem vindhraðabratti er mikill) og þar sem krappar beygjur eru í þrýstisviðinu. Hér sést jaðar illviðrisins mjög vel, frá Faxaflóa til norðausturs - vindaskil. Iðuhnútarnir undan Suðausturlandi sýna loft í krappri beygju. 

Síðasta kortið er þversnið eins og þrautseigir lesendur hungurdiska hafa stundum séð áður.

w-blogg131214f

Litla kortið í efra hægra horni sýnir legu sniðsins - frá Vestfjörðum til vinstri austur um skaga norðurlands. Sniðið nær frá jörð og upp í 250 hPa (um 10 km hæð). Jafnmættishitalínur eru heildregnar (höfum ekki áhyggjur af þeim) - en litirnir sýna vindhraða. Hér kemur mjög vel í ljós að vindstrengurinn er mjög grunnur - aðalillviðrið geisar neðan við 3 km hæð (700 hPa) og er stríðast í kringum 850 hPa. Þetta er mjög algengt í norðan- og norðaustanillviðrum - en ýmis tilbrigði finnast. 

Hér er ástæða til að hrósa þeim sem lesið hafa allan pistilinn. - En munið að fylgjast með spám Veðurstofunnar - þar er fylgst með veðri allan sólarhringinn og jafnvel eru margir á vakt þegar mest gengur á - ritstjóri hungurdiska er hins vegar ekki á neinni vakt, lítur oft undan eða liggur bara makindalega í fleti sínu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 202
  • Sl. sólarhring: 339
  • Sl. viku: 2027
  • Frá upphafi: 2350763

Annað

  • Innlit í dag: 185
  • Innlit sl. viku: 1813
  • Gestir í dag: 181
  • IP-tölur í dag: 181

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband