Snyrtileg vindröst

Við látum yfirlýsingar um styrk og stað illviðris eiga sig - og þó. Sunnudagslægðin er kannski ekkert sérlega stór um sig eða afbrigðilega djúp - en afskaplega kröpp er hún og fer hratt yfir. En látum Veðurstofuna alveg um það.

Lægðin gefur hins vegar tilefni til að sýna mynd af mjög snyrtilegri vindröst sem alltaf fylgir veðrum af þessari gerð. Það eru rastir sem þessar sem valda hvað mestu tjóni í evrópskum fárviðrum og hafa fengið töluverða athygli fræðimanna. Við eigum okkar skerf af þessum veðrum - en þau eru samt ekki nema hluti íslenska illviðrasafnsins.

Erlendir félagar okkar í fræðunum nota oftast orðin „sting jet“ yfir fyrirbrigðið. Íslenska orðið „stingröst“ kemur til greina - en ritstjórinn er ekki búinn að smjatta á því orði nægilega lengi til að sættast við það - en hans álit skiptir engu máli - það verður eitthvað orð ofan á um síðir. 

En lítum á mynd af röstinni sem fylgir lægð dagsins. Hún sýnir þversnið úr harmonie-líkaninu eftir línu sem liggur norður 23. breiddarstig - rétt vestan við Reykjanes, norður yfir Snæfellsnes og Vestfirði. Sniðið nær frá jörð og upp í 250 hPa hæð (um 10 km). 

w-blogg301114a

Við sjáum Snæfellsnes og Vestfirði sem gráa hryggi sem stingast upp í myndina. Jafnmættishitalínur eru heildregnar og merktar í Kelvistigum (munum að mættishiti hækkar (nær) alltaf upp á við. Hefðbundnar vindörvar sýna vindhraða og vindstefnu. Austanátt er norður af Vestfjörðum en annars er áttin víðast vestlæg. 

Litir sýna vindhraða - grænu svæðin sýna hægan vind (minni en 10 m/s) en aðrir litir meira. Hámarksvindur er í um 850 hPa-hæð (hér í rúmlega 1000 metrum frá jörð) yfir Faxaflóa. Þar er vindur meiri en 40 m/s af vestsuðvestri. 

Vindur minnkar til allra átta frá hámarkinu - upp og niður, suður og norður - en röstin er á lengdina inn og út úr blaðinu. Þetta er megineinkenni snyrtilegrar „stingrastar“ - þverskurður af pulsu - hámark neðarlega í veðrahvolfi - minni vindur ofan við - og svo annað vindhámark miklu ofar (ofan við þetta snið). 

En nær svona röst til jarðar? Það er nú það. Meðan hún streymir yfir sjó - er núningur við sjávaryfirborð líklega það eina sem dregur úr henni. Hætt er við því að hún nái að mestu niður að sjó - má giska á 70 prósent af styrk í rastarmiðju (28 til 30 m/s). Skelfilegt sjólag getur fylgt - sé straumlag mislægt við vind. Yfir sléttu landi er núningur meiri - vindur verður sums staðar ekki svo mikill - minni en 50 prósent af styrk í rastarmiðju - enn minni inni í skógi en samt er ekki á það að treysta. Háar byggingar geta valdið usla með því að draga vindorku niður undir jörð. 

Þar sem röstin gengur yfir fjöll er fjandinn laus (afsakið orðbragðið). Fjöllin trufla flæðið og búa til miklar bylgjur sem geta brotnað og dregið fullan styrk rastarinnar (eða jafnvel meira) alveg niður til jarðar.

Þversniðið hér að ofan úreldist með hverri nýrri spá - það er því alls ekki nothæft sem spá um veður kl. 21 á sunnudagskvöld. Hér er einungis verið að sýna dæmi um snyrtilega vindröst sem gjarnan fylgir kröppum lægðum á norðurslóðum. Veðurspár eru gerðar af Veðurstofunni eða öðrum til þess bærum aðilum (eins og segir á nútímalegu stofnanamáli) - en ekki á hungurdiskum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1030
  • Sl. sólarhring: 1116
  • Sl. viku: 3420
  • Frá upphafi: 2426452

Annað

  • Innlit í dag: 918
  • Innlit sl. viku: 3074
  • Gestir í dag: 892
  • IP-tölur í dag: 826

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband