Frekar svalt?

Varla er hægt að halda því fram að hlýtt hafi verið undanfarna viku - en það hefur ekki verið átakanlega kalt heldur. Hitinn í mánuðinum það sem af er er lítillega undir meðallagi síðustu tíu ára á um 70 prósent veðurstöðva - en enn yfir því á afganginum, einkum fyrir austan. 

Þegar vindur er hægur og veður bjart getur þó kólnað mikið á stöku stað. Mesta frost sem mælst hefur á landinu það sem af er mánuði er -17,5 stig sem mældust í Svartárkoti þann 25. Það er nokkuð mikið í október - en þó talsvert frá landsmetum. 

Fyrra kortið hér að neðan sýnir greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar á hæð 500 hPa-flatarins og þykktinni í dag (þriðjudag) kl. 12.

w-blogg291014a 

 Jafnhæðarlínur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Þykktin er sýnd í litum, mörkin á milli gulu og grænu flatanna eru í 5460 metrum. Það sem strax vekur athygli á kortinu er hlýja tungan yfir Skandinavíu sunnanverðri. Henni fylgir mjög sterkur vindur og þar sem hann keyrir hlýtt rakabólgið loftið upp Noregsfjöll að vestanverðu fellur gríðarmikil úrkoma. Mjög hlýtt er austanfjalls í Noregi. 

Við erum hins vegar í köldu lofti. Það er þó ekki sérlega kalt og langt er í eiginlegt heimskautaloft. Vestast á þessari úrklippu má sjá lægð við Nýfundnaland. Hún hreyfist til austurs og síðar norðausturs. Kortið hér að neðan sýnir stöðuna eins og evrópureiknimiðstöðin telur hana verða kl. 18 á fimmtudag (30. október).

w-blogg291014b

Hér sést meginhluti norðurhvels jaðar. Ísland er rétt neðan við miðja mynd. Þarna er svo komið að græni liturinn hefur aftur tekið völdin í 5 km hæð yfir landinu og enn hlýrra loft sækir að. Þessi breyting verður ekki alveg átakalaus - alla vega ekki til fjalla. Hér sést staða kalda loftsins yfir Íshafinu vel - langkaldast er við Síberíu þar sem við sjáum fjólubláan þykktarlit. Þar um kring er kominn hörkuvetur.  

Ritstjórinn hefur verið spurður um hvort blámóðan hvimleiða hafi einhver áhrif á hita. Ekki á hann skýr svör við því - því miður. Trúlegast er samt að móðan skipti oftast litlu máli - en vel má vera að hún hafi einhver staðbundin áhrif þegar og ef hún fær að liggja makindalega dögum saman í annars björtu veðri yfir sléttum hálendisins.  Í umræðum um hnattræna brennisteinsmengun er yfirleitt talað um kælandi áhrif slíkrar mengunar - hún eykur endurskin sólarljóssins (endurskinshlutfall). Slík áhrif eru þó auðvitað lítil þar sem sólskin er lítið hvort eð er eins og norðan heimskautsbaugs að vetrarlagi. En spurningin er alla vega umhugsunarverð. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 973
  • Sl. sólarhring: 1106
  • Sl. viku: 3363
  • Frá upphafi: 2426395

Annað

  • Innlit í dag: 868
  • Innlit sl. viku: 3024
  • Gestir í dag: 848
  • IP-tölur í dag: 782

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband