Smávegis um þykktarvindinn (fyrir kortanördin)

Hér má sjá kort sem sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, þykkt og þykktarvind á fimmtudagskvöld (16. október) kl. 21. Kort sem þetta hefur sést á hungurdiskum áður - en hefur ekki verið haldið neitt að lesendum - enda ekki alveg það auðmeltasta. En upp á síðkastið hefur það verið afskipt og tími til kominn að nota rólega daga til að veifa því. 

w-blogg161014b 

Jafnþrýstilínur eru heildregnar. Við sjáum mjög víðáttumikla lægð suður í hafi. Þegar „kortið gildir“ er landið á norðurjaðri lægðarinnar - hún nálgast svo meir á föstudag og laugardag. Rauðu strikalínurnar eru jafnþykktarlínur, merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Það er 5340 metra línan sem gengur yfir Vestfirði. Þetta er mjög venjuleg októberþykkt hér við land - þýðir að frostlaust er á láglendi um land allt mestallan sólarhringinn - að öðru jöfnu. 

Á kortinu eru líka hefðbundnar vindörvar - þær sýna þó ekki hefðbundinn vind að þessu sinni. Athugulir ættu fljótlega að sjá að þar sem „vindurinn“ er mestur er minnst bil á milli jafnþykktarlínanna. Við vitum að því þéttari sem þrýstilínur eru á venjulegu veðurkorti - því meiri er vindurinn líklega. Því þéttari sem jafnþykktarlínur eru því meiri er „þykktarvindurinn“.

Þykktarvindur blæs að jafnaði samsíða jafnþykktarlínum með lægri þykkt til vinstri sé baki snúið í vindinn. Þess vegna er vindstefnan úr suðvestri á Grænlandssundi. Þar er kalt loft (lægri þykkt) norðan við - en hlýrra á suðurvængnum (meiri þykkt). 

Þá eru það litirnir á kortinu. Blár litur er settur þar sem þykktin hefur fallið síðustu 3 klukkustundir, en gulur eða gulbrúnn þar sem hún hefur stigið. Blái liturinn gefur þannig kuldaskil til kynna - en gulur og gulbrúnn hitaskil. Hér eru skilin nálægt því að vera kyrrstæð - blettur af gulu er inni í bláu svæði.

Styrkur litanna sýnir hversu mikill þykktarvindurinn (þykktarbrattinn) er - en ekki hvort mikið eða lítið hefur kólnað/hlýnað síðustu klukkustundir.

En hvers vegna þetta? Vægjum almennum lesendum við því - þeir áhugasömustu geta lesið smáviðbót í viðhenginu. 

Annars bárust fréttir af því í gær (þriðjudag) að fellibylurinn Gonzalo sem þá var norður af Jómfrúreyjum væri orðinn sá öflugasti í Atlantshafi í þrjú ár. Einnar mínútu vindhraði var þá áætlaður 115 hnútar (um 60 m/s) og hviður 140 hnútar (72 m/s). Að tala um öflugasta fellibylinn og miða þá eingöngu við vindhraðahámörk er á mörkum þess viðeigandi - því Gonzalo er ekki mjög stór.

Evrópureiknimiðstöðin heldur honum á hafi úti og sendir síðan til norðausturs í stefnu á Nýfundnaland eða austanvert við það. Ekki er neinu honum tengt spáð hingað - en Bretland gæti verið í skotlínu - ef - og það er mikið ef - hann nær tengingu við heimskautaröstina á réttum tíma. 

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hádegi á föstudag.

w-blogg161014a 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • w-2008-hitabylgja-rvk-linurit
  • Slide13
  • w-2008-hitabylgja-rvk-linurit
  • tx rvk 300708 arason i08m afrit
  • Slide14

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 114
  • Sl. sólarhring: 122
  • Sl. viku: 1219
  • Frá upphafi: 2455945

Annað

  • Innlit í dag: 104
  • Innlit sl. viku: 1112
  • Gestir í dag: 101
  • IP-tölur í dag: 96

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband