Hitafar yfir Keflavíkurflugvelli síðustu sex áratugi - 2. áfangi

Í fyrri pistli var fjallað um hita á Keflavíkurflugvelli og í um 1400 metra hæð yfir honum frá því skömmu eftir 1950. Nú verður litið aðeins ofar í lofthjúpinn, upp í 700 hPa og 500 hPa fletina. Fyrrnefndi flöturinn er í tæplega 3 kílómetra hæð en sá síðarnefndi í rúmlega 5 kílómetrum - er þá komið upp í mitt veðrahvolf - eða rúmlega það. 

Meginatriði hitans á stöðinni og í 850 hPa var mikil hlýnun eftir 1985 - hátt í tvö stig á vetrum sé miðað við 10-ára meðaltöl. Áður hafði kólnað nokkuð - við jörð byrjaði kólnunin strax á hafísárunum svonefndu (1965 til 1971) - en sú kólnun var talsvert minni suðvestanlands heldur en í flestum öðrum landshlutum. Hafískuldans gætti ekki alveg eins mikið í 850 hPa og við jörð og 10-ára meðaltalið náði hámarki uppi á árunum 1962 til 1971, en 1956 til 1965 niðri. 

Sumarhitinn var einnig í lágmarki um 1980 - en hækkaði mun meira eftir það heldur en hann hafði lækkað áður.

En hvað gerðist í 3. og 5. kílómetra hæð? Fyrri myndin sýnir vetrarhitann. Við notum hér alþjóðaveturinn (desember til febrúar). Það er gert vegna þess að í efstu flötunum sem við lítum á í þessari pistlaröð er vetri farið að halla í mars. 

w-blogg250914a 

Gráu ferlarnir vísa til 700 hPa-flatarins og það gerir kvarðinn til vinstri einnig, strikaðar línur einstök ár, en breiðari línan sýnir 10-ára meðaltöl. Meðaltölin eru skráð á síðasta ár hvers 10-ára tímabils. Grænu ferlarnir sýna hita í 500 hPa á sama hátt - hér er það kvarðinn til hægri sem gildir.

Það sem fyrst má vekja athygli er að hafísárakuldinn sést alls ekki - kaldara er á vetrum fyrir 1960 heldur en á sjöunda áratugnum. Það er hinn frægi hlýindavetur 1964 sem rís lengst upp. Þess má geta í framhjáhlaupi að hafísárakuldinn sést líka illa eða ekki í samsætumælingum úr borkjörnum Grænlandsjökuls. Við verðum að hafa þessa vitneskju í huga þegar mælingar úr grænlandsborkjörnum langt aftur í tímann eru túlkaðar sem mæling á hitafari einstakra ára eða stuttra tímabila hér á landi. 

Frá og með 1974 kólnar verulega, 10-ára meðalhiti í 700 hPa hrapar um hátt í 2 stig og litlu minna í 500 hPa. Eftir 1985 hækkar hitinn aftur - hægt í fyrstu - en síðan mjög ákveðið upp úr aldamótum og hefur síðan þá verið mjög hár - en ekki þó hærri heldur en í fyrra hámarki. Þetta síðara hámark er þó orðið lengra en það fyrra. 

Þá er það sumarið, júní, júlí og ágúst á sama veg.

w-blogg250914b 

Þessi mynd er ólík hinni fyrri. Hér sést kuldi á hafísárunum - en síðan hlýnar hratt fram til 1985 [0,8 stig í 700 hPa og um 1,0 stig í 500 hPa]. Síðan þá hefur hlýnað um 0,5 stig í 700 hPa, en heldur minna í 500 hPa. Í 500 hPa eru sumrin 1995 og 2010 hlýjust. Þetta er býsna ólíkt því sem er niður við jörð. 

En getum við treyst þessum mælingum? Mjög líklega er ósamfellur að finna í þeim - aðeins spurning hvenær og hversu mikið. Háloftakannar hafa breyst mjög á tímabilinu sem og fleiri atriði mælinganna. Hin ólíka hegðan sumars og vetrar - og gott samband mælinga í 850 hPa og niður við jörð auka þó traust okkar. En frekari úrvinnsla gæti breytt myndunum. 

Það sem ritstjórinn er hræddastur um er að endurgreiningar stóru reiknimiðstöðvanna muni verða látnar valta yfir mælingarnar - taldar réttari. Sú er tilhneigingin. Það er auðvitað hið besta mál þegar mælingum og reikningum ber saman í stórum dráttum.

Í næsta háloftapistli verður litið á hitafar í 300 og 200 hPa-flötunum yfir Keflavíkurflugvelli á sama tímabili.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.11.): 181
  • Sl. sólarhring: 281
  • Sl. viku: 2695
  • Frá upphafi: 2411615

Annað

  • Innlit í dag: 173
  • Innlit sl. viku: 2326
  • Gestir í dag: 165
  • IP-tölur í dag: 165

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband