Heldur kólnar?

Ætli dagurinn í dag (mánudagur 11. ágúst) hafi ekki verið einna besti dagur sumarsins (það sem af er) á höfuðborgarsvæðinu. Sömuleiðis var mjög hlýtt og gott á Suðurlandsundirlendi - en þar eru fleiri dagar með í keppninni um þann besta. Það er hollusta í að horfa á þykktarkort dagsins - í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar. Svo lítum við líka á þykktarspá morgundagsins (þriðjudags 12. ágúst) og að lokum eitt rakaþversnið - kannski í uppeldislegum tilgangi.

w-blogg120814a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnþykktarlínur eru heildregnar. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Það er 5560 metra jafnþykktarlínan sem hringar sig um Suðvesturland - hugsanlega hefur þykktin náð 5570 metrum þegar best lét. Standi vindur af hálendi getur hiti við þessi skilyrði farið vel upp fyrir 20 stig - það verður þó erfiðara og erfiðara þegar sól lækkar á lofti - nema þá með aðstoð vinds - en hann er ekkert mjög skemmtilegur á sólardögum.

Hér liggur belti af hlýju lofti frá Skandinavíu í austri og vestur fyrir Grænland. Hlýjasta loftið á kortinu er skammt frá Hvarfi á Grænlandi. Þar er þykktin heldur meiri en hér - og hiti í 850 hPa-fletinum talsvert hærri en hér, 14 stig - en er um 8 stig yfir Íslandi suðvestanverðu. Flöturinn er í dag í um 1400 metra hæð yfir sjávarmáli. Þessi Grænlandshlýindi fá aukahnykk við niðurstreymi af hálendi Grænlands, ef vel er að gáð má líka sjá töluna 10 yfir Íslandi, í skjóli Vatnajökuls. Þar tekst jöklinum að pína hitann í 850 hPa upp um um það bil 2 stig miðað við það sem almennt er. 

Eins og fjallað var um í pistli hungurdiska í gær kemur nú dálítið lægðardrag úr norðvestri og fer framhjá Íslandi síðdegis á morgun (þriðjudag). Þetta er dálítið skemmtilegt drag að því leyti að þess sér lítt stað við jörð - áhrifin á þrýstifar við sjávarmál eru sáralítil - en samt verður það til þess að það kólnar nokkuð - alla vega ef trúa má þykktarspánni sem gildir kl. 18 á morgun (þriðjudag).

w-blogg120814b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér hefur þykktin fallið um 80 metra frá því í dag - grófa þumalfingursreglan segir að það séu um 4 stig og hitinn í 850 hPa hefur lækkað um um það bil 3 stig. Kannski tekst sólinni að koma í veg fyrir að svo mikið kólni niðri hjá okkur - en ef henni tekst það kemur upp hætta á síðdegisskúrum - þá helst þar sem vindur er hægur, t.d. á Suðurlandi austanverðu.

Þótt hann kólni telst loftið samt alls ekki kalt, 5480 metrar er ekkert til að hafa áhyggjur af og ekki heldur þótt þykktin falli niður í þá 5420 metra sem eru rétt norðan við land á kortinu. 

En síðan kemur annað lægðardrag - mun öflugra - frá Grænlandi á fimmtudag. Það mun sjást á sjávarmálsþrýstikortum og mun síðan færa okkur talsvert kaldara loft fyrir helgina. Vonandi samt ekki alveg jafnkalt og það sem heimsótti okkur um mánaðamótin.

Hér kemur erfiðara efni - því við lítum á rakasnið úr harmóní-líkaninu og gildir það kl. 16 á morgun (þriðjudag 12. ágúst). Ekki fyrir alla.

w-blogg120814c

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Við sjáum á smámyndinni í hægra efra horni að sniðið liggur í suður-norðurstefnu eftir 23 gráðum vestlægrar breiddar - rétt við vesturströndina. Það nær frá sjávarmáli og upp í 250 hPa-hæð, um það bil 10 kílómetra. Lóðrétti ásinn sýnir hæð sem þrýsting - því lægri sem hann er því hærra erum við. Gráu fletirnir neðst á myndinni sýna Snæfellsnes og Vestfirði. 

Litafletirnir sýna rakastig - kvarðinn og myndin batna við stækkun. Gulir og brúnir litir sýna þurrt loft, en þeir bláu rakt. Jafngildismættishitalínur eru heildregnar. Jafngildismættishiti - (enska: equivalent potential temperature) er sá sem kæmi fram á mæli ef allur dulvarmi loftsins væri losaður og loftið síðan dregið niður að sjávarmáli. Venja er að tilgreina þennan hita í Kelvinstigum - mest til þess að minna veðurfræðinga á að ekki er um venjulegan hita að ræða (varla veitir af). 

Einnig má á myndinni sjá hvítar örmjóar strikalínur - þær sýna rakamagn í lofti í grömmum í kílói. 

Fremur auðvelt er talið að lesa (skilyrtan) stöðugleika lofts af rakasniðum eins og þessu. Því gisnari sem línurnar eru því minni er stöðugleikinn (ef rakinn þéttist). 

Margt er fróðlegt á þessari mynd - en hér lítum við aðeins á eitt meginatriði. Oft sjáum við lítið til mið- og háskýja vegna þess að lágský byrgja sýn. Þegar við sjáum háskýin finnst okkur þau gjarnan vera frekar tilbreytingasnauð - einhverjar hvítar fjaðrir eða linsur. En háskýin eru heimur út af fyrir sig. Þar geta myndast alls konar bólstrar og úrkomuslæður sjást oft greinilega falla niður úr þeim - þótt úrkoman sú nái ekki til jarðar. 

Myndin sýnir útkomu úr reiknilíkani - sem ekkert endilega er rétt. En sé það rétt gæti sitthvað skemmtilegt verið á seyði í mið- eða háskýjum dagsins. Við sjáum að niður undir jörð er rakastig víðast 60 til 80 prósent. Kannski verða einhver lágský þar að flækjast. Þar fyrir ofan er mjög þurrt lag sem á vinstri hluta myndarinnar nær upp í um 700 hPa (um 3 km) - en upp í tæp 600 hPa (4 km) til hægri. 

Fyrir ofan þurra lagið er mjög rakt lag - þar eru nokkuð þykk mið- eða háský, rakinn er um 100 prósent. Það sem meira er - hitalínurnar ganga þar í miklum bylgjum. Þar er raki að þéttast og úrkoma að myndast - við gætum hugsanlega séð litla bólstra - miðskýjabólstra. Þeir heita flestir netjuskýjaborgir (altocumulus castellanus) eða netjubrúskar (altocumulus floccus). Kannski sjáum við ekkert vegna þess að skýin verða of þykk. Ekkert af þessari upphæðasnjókomu nær til jarðar (snjókoma er það). 

Þeir sem nenna - ættu að gefa mið- og háskýjaheimum gaum. Þar er margt skemmtilegt og jafnvel glæsilegt að sjá. Hvítir brúskar eru ekki bara hvítir brúskar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 337
  • Sl. sólarhring: 353
  • Sl. viku: 1911
  • Frá upphafi: 2350538

Annað

  • Innlit í dag: 255
  • Innlit sl. viku: 1704
  • Gestir í dag: 241
  • IP-tölur í dag: 241

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband