Kuldapollurinn við norðurskautið

Að sumarlagi eru oftast einhverjir kuldapollar að sveima yfir Norðuríshafi. Sá sem var þar í fyrra var bæði óvenjuöflugur og óvenjuþrálátur - og sumarið þar áður bjó sá sem þá var á ferðinni til óvenjudjúpa lægð snemma í ágúst sem ýtti undir sérlega mikla hafísbráðnun næstu vikur á eftir. 

Tíðindalítið hefur verið yfir Norðuríshafinu í sumar - en í gær (miðvikudaginn 23. júlí) og fyrradag skerptist þónokkuð á kuldanum (hvað sem veldur) og verður kalt á stóru svæði næstu daga - og dregur úr ísbráðnun á því svæði sem kuldans gætir. 

Þetta abbast svosem ekki beinlínis upp á okkur - því er ekki spáð í dag að kuldans gæti hér á landi - en þessar hræringar ýfa upp bylgjumynstrið alveg frá nyrstu héruðum Kanada í vestri og langt austur eftir Síberíu. Hugsanlega losar það um lægðasvæðið þráláta sem hékk yfir okkur allan fyrri hluta mánaðarins og hefur síðan þá legið við stjóra fyrir suðvestan land. 

Við lítum á háloftakort sem sýnir ástandið eins og evrópureiknimiðstöðin gerir ráð fyrir því að það verði um hádegi á laugardag (26. júlí).

w-blogg250714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar en þykkt er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Hver litur nær yfir 60 metra bil og eru mörkin á milli gulra og grænna lita við 5460 metra. Við viljum helst vera gula megin garðs. Mörkin á milli bláu og grænu litanna er 180 metrum neðar, við 5280 metra.

Á kortinu þekur blái liturinn allstórt svæði undan Norðaustur-Grænlandi og norður af Svalbarða. Minnsta þykkt sem vitað er um yfir Keflavíkurflugvelli í júlí er 5291 m. Hún mældist 24. júlí 2009. Þá varð mikið og eftirminnilegt tjón í kartöflugörðum vegna næturfrosta. Það er alveg ljóst að við viljum ekki sjá svona nokkuð - helst ekkert undir 5400 í júlí. 

En á kortinu er engin lægð við Ísland - bara lægðardrag og vindurinn í háloftunum orðin vestlægur. Vestanátt í háloftunum að sumarlagi er svosem ekkert sérstakt fagnaðarefni - lægðir sem ganga úr vestri til austurs í nágrenni við landið eru blautar - rétt eins og þær sem beina til okkar vindi úr suðri. En þessi staða er samt sem áður sú líklegasta um langa hríð til breytinga. Þær gætu hins vegar tekið nokkra daga. 

Spárunan frá hádegi í dag (kortið er úr henni) segir hæðarhrygginn yfir Skandinavíu brotna niður í framhaldi af þessu en nýr hryggur myndist austar, í sæti lægðarinnar sem hefur setið yfir Vestur-Síberíu meira eða minna mestallan mánuðinn - einu bylgjusæti austan við festuna hjá okkur.

Þetta kemur betur í ljós þegar fyrsta lægð nýju lægðabrautarinnar kemur til landsins á aðfaranótt mánudags. Rigna á úr henni um mestallt land. En svo gæti reyndar allt hrokkið í sama far og áður.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Trausti og bestu þakkir fyrir bloggið. Gæti hugsast að kuldapollurinn við norðurskautið tengist þeirri staðreynd að hafísþekja að sumarlagi í norður-íshafinu nálgast að vera sú mesta á síðustu tíu árum?

https://stevengoddard.files.wordpress.com/2014/07/screenhunter_1288-jul-25-05-22.gif

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 25.7.2014 kl. 11:02

2 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Við fyrir Austan brosum nú bara allan hringinn, líkt og sólin sem börnin teikna svo glaðlega á sjálfumglatt blað og það meir og minna í svartasta skammdeginu.

Kannski er lausnin að teikna meira og láta sól í sinnið, þó að hún sé kannski á bakvið ský.

Með baráttukveðjum að Austan.

Sindri Karl Sigurðsson, 26.7.2014 kl. 00:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband