Smávegis um snjóhulu á landinu í góubyrjun

Þar sem snjóhula á landinu hefur verið nefnd í athugasemdum hungurdiska er rétt að fara lauslega yfir stöðuna. Óhætt er að segja að óvenjulítill snjór sé víðast hvar í byggðum landsins - meira að segja í sumum snjóasveitum. Í viðhenginu er listi af vef Veðurstofunnar frá því í dag (sunnudaginn 23. febrúar) þar sem þetta blasir við.

Eina undantekningu er þó skylt að nefna en það eru tölurnar úr Svartárkoti í Bárðardal. Þar er snjór með mesta móti - jafnmikill og mest hefur mælst áður í þessum mánuði. Grímsstaðir á Fjöllum og Mýri í Bárðardal eru hins vegar langt frá sínu hæsta í febrúar. 

Snjór er óvenjumikill í fjöllum á Austfjörðum en snjólítið hefur verið þar í byggðum - óvenjusnjólítið. Snjóhula hefur verið athuguð á Dalatanga frá því haustið 1938. Myndin að neðan sýnir snjóhulu þar í febrúar á öllu þessu tímabili.

w-blogg240214 

Meðalsnjóhula á Dalatanga í febrúar er 71% (rauða strikalínan). Hulan í febrúar síðustu 4 árin hefur verið um eða innan við helmingur meðaltals og hafa aldrei komið jafnmargir snjórýrir febrúarmánuðir í röð á öllu tímabilinu. Minnst varð snjóhulan í febrúar 1972 - 5%.

En það er ekki komið vor, síðasti vetrarmánuðurinn (mars) er allur eftir og sömuleiðis snjóar oft talsvert norðan til á Vestfjörðum og á Norðausturlandi fram eftir apríl. Einkunn vetrarins er því langt í frá ráðin - meira að segja á Suðvesturlandi.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Endurteknar þakkir til þín Trausti fyrir veðurbloggið.

Vil vinsamlegast benda hér á fréttir fjölmiðla um "smávegis snjóhulu á landinu í góubyrjun":

"Enn ófært víða um land

Það er enn ófært á Mývatns- og Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði og Háreksstaðaleið. Ófært er um Oddsskarð og á Fjarðarheiði. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Vatnsskarði eystra." (http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/02/23/enn_ofaert_vida_um_land/)

"Norðfirðingar fastir í firðinum

Í nótt skóf fyrir Norðfjarðargöngin með þeim afleiðingum að þau urðu ófær. Snjóþunginn var svo mikill að gangamunninn lokaðist næstum því alveg." (http://www.visir.is/nordfirdingar-fastir-i-firdinum/article/2014140229612)

"Fjarðarheiðin loksins opnuð á ný

Seyðfirðingar voru búnir að vera lokaðir inni vegna ófærðar á Fjarðarheiði frá því á miðvikudag, þegar leiðin opnaðist loks í morgun. Vöruskortur var orðinn í kaupfélaginu." (http://www.visir.is/fjardarheidin-loksins-opnud-a-ny/article/2014140229403)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 24.2.2014 kl. 16:42

2 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Nú þarna liggur hundurinn grafinn Hilmar. Ég hef verið að velta mér hvar snjórinn hefur farið þar sem hann hefur varla sést enn í allan vetur hérna í Vestmannaeyjum.

Pálmi Freyr Óskarsson, 24.2.2014 kl. 20:14

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Snjódýptarmælirinn við skálann á Setri sunnan Hofsjökuls hefur verið óvirkur síðustu tvo vetur sem mér finnst ekki alveg nógu gott því hann gefur góðar vísbendingar um snjóalög til fjalla á stórum hluta landsins. Ætla jeppakarlarnir ekkert koma þessu í lag?

http://brunnur.vedur.is/athuganir/sjalfvirkar/setur/

Emil Hannes Valgeirsson, 24.2.2014 kl. 23:28

4 identicon

Það er spurning hvort snjódýptarmælar Veðurstofunnar á hálendinu séu óvirkir vegna óvenju mikillar snjóhulu?

"Lokaðir í firðinum í 50 daga

Þrátt fyrir að ferlirit Veðurstofunnar sýni að óvenjulítill snjór sé í mörgum byggðum landsins hafa íbúar á Austurlandi búið við annan veruleika. Snjóþunginn er það mikill að víða hafa vegir lokast og fólk ekki komist leiðar sinnar." (http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/02/25/lokadir_i_firdinum_i_50_daga/)

Svo geta talsmenn Trausta auðvitað afneitað þeim veruleika sem íbúar á Austurlandi búa við :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 25.2.2014 kl. 09:32

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Óvenjumikil snjóhula er ekki að hrjá mælinn á Setri, það veit ég fyrir víst enda nokkur ár síðan ég fór að fylgjast með honum (http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1174096/)

Emil Hannes Valgeirsson, 25.2.2014 kl. 11:27

6 identicon

"Mikill snjór er í fjöllum, einkum á Austfjörðum en einnig á Norðurlandi. Nokkur snjóflóð hafa fallið þar undanfarna daga. Einnig hafa vélsleðamenn sett af stað flóð á hálendinu."

(Skrifað af vakthafandi sérfræðingi 24. feb. 16:27)

Snjóflóðaspá fyrir valin svæði:

Norðanverðir Vestfirðir = Nokkur hætta

Utanverður Tröllaskagi = Töluverð hætta

Austfirðir = Töluverð hætta

> http://www.vedur.is/ofanflod/snjoflodaspa/

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 25.2.2014 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 210
  • Sl. sólarhring: 316
  • Sl. viku: 2035
  • Frá upphafi: 2350771

Annað

  • Innlit í dag: 193
  • Innlit sl. viku: 1821
  • Gestir í dag: 188
  • IP-tölur í dag: 188

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband