Minniháttar (?) skipulagshliðrun?

Lægðir halda áfram að berja Bretlandseyjar. Við höfum sloppið nokkuð vel - nema hvað óvenjuúrkomusamt hefur verið um landið austanvert. Allan þennan tíma hefur mikið háloftalægðardrag legið til austurs fyrir sunnan land og lengi vel var drjúgur hæðarhryggur við Norður-Noreg og Svalbarða. Þessi kerfi héldu við suðaustanátt yfir öllu kaldastríðshafinu þannig að kalt loft sem við eðlilegar aðstæður finnur sér framrás meðfram Austur-Grænlandi hefur orðið að fara annað.

Nú virðist ætla að verða minniháttar skipulagsbreyting á svæðinu. Minniháttar segjum við vegna þess að þetta hefur frekar á sér yfirbragð þess sem er að hagræða sér í sætinu heldur en þess sem er við það að standa upp. - En samt. Lítum á spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á föstudag (14. febrúar).

w-blogg130214a 

Sjá má jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar) og lagðar til á 6 dam bili. Litafletir sýna þykktina en hún sýnir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli grænu og bláu litanna er við 5280 metra. Að undanförnu höfum við ýmist verið í dekksta græna litnum eða þeim ljósasta bláa.

Skilin á milli fyrsta og annars bláa lits liggja um Ísland og ekki er sérlega langt í þriðja bláa litinn. Í honum er þykktin á milli 5100 og 5160 metrar. Þar er heiðarlegur vetrarkæla - hiti undir meðallagi árstímans. Næðingurinn er þá kaldur, lygni og birti upp getur frost orðið býsna hart inn til landsins. En alvöruvetur - þar sem frost er um nær allt land þótt vindur sé byrjar við 5100 metra - á fjórða bláa lit. Þá er kalt við strönd og í sveitum. Þessi fjórði blái litur er að sögn reiknimiðstöðva ekkert á leið til okkar.

Kortið sýnir samt norðanátt í 500 hPa á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen - mjög veik hæð er yfir Scoresbysundi og lægð undan vesturströnd Noregs. Þetta er á föstudag og aum norðanáttin á að standa í rúma tvo daga áður en vindur snýst aftur til suðurs og suðausturs. Það ræðst svo í næstu viku hvort hann kemur sér enn og aftur fyrir í janúarsætinu. Ný veik fyrirstaða gæti nefnilega myndast aftur - og allt hrokkið í nákvæmlega sama far.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8
  • Slide7

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.5.): 179
  • Sl. sólarhring: 205
  • Sl. viku: 1649
  • Frá upphafi: 2466020

Annað

  • Innlit í dag: 169
  • Innlit sl. viku: 1504
  • Gestir í dag: 157
  • IP-tölur í dag: 153

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband