Af röstinni

Í veðurfréttum frá útlöndum er sífellt verið að tuða um það sem þar er kallaðthe jet stream, þotufljótið - með ákveðnum greini. Ákveðni greinirinn gerir það sem greinar gera, greinir þetta ákveðna fljót frá öðrum slíkum - þau eru fleiri. Ritstjóri hungurdiska notar alltaf íslenska orðið röstsem þýðingu erlenda hugtaksins, en aftur á móti orðið skotvindur um það sem alþjóðlega er kallað jet streak, kjarnasvæði rastarinnar - þar sem hún er öflugust.

Vindur er stríður í röstinni (rétt eins og straumur í röstum á sjó) - þar sjást jafnvel 100 m/s. Hún er öflugust í kringum veðrahvörfin - en niður úr henni liggja oft hallandi hes í átt til jarðar. Þau sjást vel á þeim 500 hPa-norðurhvelskortum sem ritstjórinn heldur hvað mest upp á.

En veðrarastirnar eru sumsé fleiri, sé vafi um hverja þeirra er átt neyðast menn til þess að greina þær frekar - og bæta orðinu polarframan við jet stream, the polar jet stream. Hér kemur þá að ákveðnum vandræðum varðandi íslenska þýðingu - en meðan ekki finnst betra orð skulum við tala um heimskautaröst, eða þá norðurslóðaröst(a-ið á enda heimskauta- fer reyndar í taugarnar á ritstjóranum - en það er svo margt sem gerir það).

Norðurslóðaröstin ráfar oftast um langt frá heimskautum og er oftast ekkert sérstaklega polar heldur ef út í það er farið. Það er ekkert mjög oft sem hún liggur yfir Ísland eða í nágrenni landsins. Þess vegna hefur hún aldrei verið neitt uppáhalds í íslenskum veðurfréttum - tæpast að veðurfréttaneytendur hafi nokkru sinni rekist á hana.

Hún kemur þess meira við sögu á suðlægari breiddarstigum og sker úr um veður. Í Bandaríkjunum skiptir mjög miklu máli hvoru megin garðs verið er á vetrum, norðan eða sunnan við. Í Evrópu skiptir hins vegar mestu máli að á jöðrum rastarinnar verða til öflugar lægðir sem berast síðan með henni inn yfir Evrópu.

Þannig hefur ástandið í Vestur-Evrópu verið nú um langa hríð og sér ekki lát á. Kortið hér að neðan sýnir vind í 300 hPa-hæð um hádegi á sunnudag (9. febrúar) í kringum mestallt norðurhvel.

w-blogg090214a 

Vanir átta sig strax á kortinu en þar sýna litlar örvar vindstefnu en litir vindstyrk. Einnig má sjá jafnþrýstilínur við sjávarmál - sé þrýstingur 980 hPa eða neðar. Við sjáum nær samfellda röst allt vestan frá Kyrrahafi austur um Bandaríkin og til Spánar. Svipuð staða hefur verið uppi lengst af frá því fyrir jól hérna Atlantshafsmegin.

Yfir Norður-Afríku og austur um Asíu er líka röst. Þetta er líka norðurslóðaröst - en þó er þetta sennilega hes niður úr hvarfbaugsröstinni (sub-tropical jet stream) sem er öflugust aðeins ofar - veðrahvörfin eru mun hærri við jaðar hitabeltisins. Á vetrum renna rastirnar tvær að miklu leyti saman yfir Austur-Asíu - þar eru skotvindar oftast öflugastir (fyrir utan myndina).

Sú hugmynd hefur skotið upp kollinum að samskipti norðurslóða- og hvarfbaugsrastanna Atlantshafsmegin í heiminum geti verið með öðrum hætti heldur en nú er. Steli hvarfbaugsröstin systur sinni færist lægðagangur enn sunnar en hér er sýnt - þá breytist sú sérstaka (en varla nauðsynlega) staða að vestanvindabeltið við jörð sé einmitt á hagstæðasta stað - eins og nú er.

Syðri staða getur lokað Golfstrauminn (Norður-Atlantshafsstrauminn) af - þannig að lítið af honum komist norður fyrir 50. breiddarstig. Hvað þá? Sömuleiðis getur verið óheppilegt að meginás vestanvindabeltisins fari norður fyrir Nýfundnaland (á því er trúlega minni hætta) því lóðrétt hringrás Norður-Atlandshafs gæti þá raskast - en hvernig? 

Látum nú af vitleysunni (eða hvað)?

Annað: Í dag (laugardaginn 8. febrúar) kom upp sú skemmtilega staða að Önundarhorn undir Eyjafjöllum skilaði bæði lægsta lágmarki landsins í byggð og hæsta hámarkinu.

Sjá viðhengið.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Í veðurfréttum frá útlöndum er sífellt verið að tuða..." :)

"Mikið hefur snjóað í Tókýó og á fleiri svæðum í Japan um helgina. Sjö eru látnir og fleiri en þúsund manns eru slasaðir vegna vetrarveðursins. 27 sentímetra jafnfallinn snjór mældist í Tókýó í gærkvöldi en ekki hefur snjóað meira í höfuðborginni í 45 ár, að sögn veðurfræðinga."

> http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/02/09/sjo_latnir_i_tokyo_vegna_vetrarvedurs/

Óttarlegt tuð þetta!

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 9.2.2014 kl. 11:31

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Takk fyrir Trausti. Betur sjá augu en auga. Þeim mun fleiri sem koma að skýringum á veður-heildarmyndinni, þeim mun víðsýnni og réttari verður sú mynd. Það er allra hagur að fá sem flestar hliðar inn í fræðslu-veðurfréttirnar.

Fjöl-mennt er máttur.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 9.2.2014 kl. 22:59

3 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Um kvöldmatarleytið gerðist sennilega sögulegur lítill vindur á Stórhöfða. Og það í febrúarmánuði. Eða er það kannski ímyndun hjá mér?

Pálmi Freyr Óskarsson, 10.2.2014 kl. 01:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 17
  • Sl. sólarhring: 66
  • Sl. viku: 508
  • Frá upphafi: 2343270

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 460
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband