Af ástandinu í heiðhvolfinu snemma í febrúar

Það er um það bil mánuður síðan fjallað var um ástandið í heiðhvolfinu hér á hungurdiskum. Rétt er að líta á stöðuna nú, viku af febrúar.

Nú verður að játa að ritstjórinn hefur ekki verið nógu duglegur við að fletta daglegum háloftakortum sem háskólinn í Berlín gaf út á árum áður. Þetta hefur þær afleiðingar að hann á erfitt með að meta hversu óvenjuleg staðan á 30 hPa-korti dagsins er í langtímasamhengi. En hún er alla vega ekki sú algengasta í janúar og febrúar.

w-blogg080214a

Hér má sjá mestallt norðurhvel - skautið er rétt ofan við miðja mynd. Við erum í 30 hPa-fletinum sem er nú í 22 til 24 km hæð (merkingar eru í dekametrum). Litafletir sýna hitann, fjólublái liturinn markar -82 stig, en sá brúnasti markar um -50 til -46 stiga frost. Kortið batnar mjög við stækkun.

Hringrásin er mjög aflöng og lægðarmiðjur tvær (gleraugnalægðir). Auk þess eru tvö myndarleg háþrýstisvæði á kortinu. Þessi staða er búin að vera svipuð í nærri því mánuð. Eiginlega svipaðan tíma og mesta hringrásarröskunin á norðurhveli hefur staðið. Það er mjög líklegt að tengsl séu á milli - en ekki gott að segja í hverju þau nákvæmlega felast.

Einhvern veginn hefur maður búist við því að hringrásin skiptist alveg í tvennt og eyðileggist síðan svipað og gerðist snemma í janúar í fyrra - en sú skipting hefur látið á sér standa. Svona kauðaleg getur leti ritstjórans verið - að koma sér ekki í það að fletta þessum tíuþúsund kortum. En langtímatölur segja að ólíklegt sé að algjört hringrásarniðurbrot með skyndihlýnun eigi sér stað tvö ár í röð - sú reynsla liggur alla vega fyrir.

En þótt þetta gleraugnaástand heiðhvolfsins sé skrýtið er það samt allt öðru vísi (og mun eðlilegra) heldur en var á sama tíma í fyrra - við skulum rifja það upp á korti til að geta rétt tilfinningalega slagsíðu ástandsmatsins af.

w-blogg080214b 

Staðan í fyrra gæti nærri því verið á annarri plánetu - svo ólíkt er hún stöðunni nú. Lægðin er þarna aðeins að ná sér eftir algjört niðurbrot janúarmánaðar - en hún náði sér aldrei alveg það sem eftir lifði vetrar.

En hvað svo? Nú bregður svo við að spár segja að hæðin yfir Austur-Síberíu eigi að slakna - en jafnframt á lægðaraugað til vinstri að vaxa töluvert á kostnað þess til hægri (sem er öflugra í dag). Hvort þetta eru einhver merki um að sú óvenjulega staða sem við erum í niðri í veðrahvolfinu sé að breytast vitum við ekki. En eðlilegt ástand í febrúar felst annað hvort í lægðagangi yfir Ísland - eða kaldri norðanátt en ekki eilífri Bretlandseyjalægð og hlýindum í norðurhöfum eins og nú.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

góð grein í bændablaðinu. 1. gétur verið að jörðinn sé að aðlaga sig að þessu veðurfari og stilli sig af með eldgosum.það er hjátrú hér um slóðir ef það kemur alveg logn þá kemur eldgos breitist ekki loftþrýstíngur þegar eldgos kemur. það hljúta vera nikil átök þegar þau brjóta sér keið uppá yfirborðið

2. ef mikið hefur verið af austanáttum í janúar ef ég skildi þig rétt í öðru bloggi eru tvö ár sambærileg eiga þau meira sameiginlegt ef dreigið er mark af þessum tvem árum voru hegðuðu þau sér eins þar sem eftir var ársins. meigum við búast við að þettað ár verði svipuð og þau.

3. halli jarðar gjétur það valdið því að að ísin á norðurhvelinu færist til gétur það hafa valdið þessum kuldum í mongólíju á undanförnum árum. gétur verið að hin svokallaða ísöld sem var í evrópu í fyrndinni hafi í raun verið borðurpóllin þá hefur norðuríshafið verið hugsanlega íslaust þá um stundir

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 8.2.2014 kl. 08:34

2 Smámynd: Trausti Jónsson

1. Loftþrýstingur breytist ekki við eldgos ein og sér (nema að hljóðbylgjur mælast). Talið er að líkur á eldgosum aukist ef jökulfargi léttir af jarðskorpunni - mjög stór eldgos geta valdið skammtímabreytingum á veðurfari - en ekki öfugt. 2. Þótt tveir janúarmánuðir finnist í fortíðinni svipaðir og nú (1943 og 1948) urðu þau ár mjög ólík hvort öðru að veðri og það strax í febrúar. 3. Breytingar á möndulhalla jarðar eða beinnar færslu norðurskautsins koma ekki við sögu veðurfarsbreytinga frá ári til árs (en hallabreytingar hafa áhrif á þúsundum ára). Norðurpóllinn er búinn að vera nokkurn veginn þar sem hann er í tugmílljónir ára og færsla hans skýrir ekki þær ísaldir sem gengið hafa yfir síðustu 3 milljónir ára eða svo.

Trausti Jónsson, 9.2.2014 kl. 02:15

3 identicon

takk vel svarað. en mín reinsla er sú að yfirleit er eithvert sanleikskorn í hjátrú menn eru bara búnir að gleima því hvernig hún varð til. athiglisvert með þessar hljóðbylgjur

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 9.2.2014 kl. 08:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 497
  • Sl. viku: 2243
  • Frá upphafi: 2348470

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1964
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband