Þrýsti- og hæðarvikin stóru

Eins og fjallað var um á þessum blöðum fyrir nokkrum dögum var lofthringrás við norðanvert Atlantshaf sérlega óvenjuleg í janúar (og það sem af er febrúar). Við lítum nú á kort sem sýna þetta vel. Gögnin eru fengin frá evrópureiknimiðstöðinni, kortin eru úr smiðju Bolla Pálmasonar kortagerðarmeistara á Veðurstofunni.

Fyrst er það sjávarmálsþrýstingurinn og vik frá meðaltali. Miðað er við tímabilið 1981 til 2010.

w-blogg070214a 

Það er hið hefðbundna N-Atlantshafskort sem liggur undir - og ef rýnt er í kortið sjást útlínur landa vel. Kortið þolir talsverða stækkun. Heildregnar gráar línur sýna meðalsjávarmálsþrýsting janúarmánaðar, en litafletir sýna vikin. Á bláu svæðunum er þrýstingur undir meðallagi en yfir því á þeim rauðu. Stærsta neikvæða vikið er beint vestur af Skotlandi - þar er þrýstingur um 20 hPa undir meðallagi, en stærsta jákvæða vikið er milli Norður-Noregs og Svalbarða um 17 hPa yfir meðallagi.

Samtals bæta vikin 37 hPa við austanáttina á svæðinu. Eins og nefnt var í pistli fyrir nokkrum dögum er þessi aukaaustanátt yfir Íslandi ekki alveg dæmalaus - hún var svipuð eða lítillega meiri í janúarmánuðum áranna 1943 og 1948. Annars eru þessi vik svo stór og yfirþyrmandi að þau rúmast varla á kortinu, það táknar að í janúar hefur vestanvindabeltið yfir N-Atlantshafi verið verulega raskað. 

Það sést líka vel á korti sem sýnir vik í 500 hPa-fletinum í janúar.

w-blogg070214b

Vikin eru hér síst minni. Reyndar hefur aldrei svo vitað sé verið jafn mikil aukaaustanátt í heilum mánuði í háloftunum yfir Íslandi. Venjulega er ákveðin suðvestanátt ríkjandi í janúar en hér er áttin af suðaustri eða austsuðaustri.

Jákvæða vikið er í hámarki nyrst á kortinu, yfir 200 metrar - það neikvæða er um 190 metrar. Jákvæða vikið er svo stórt að það minnir helst á þau vik sem myndarlegar og þaulsetnar fyrirstöðuhæðir gefa af sér. Við ræddum nokkrum sinnum um þessa fyrirstöðu í pistlum í janúar - en hún var aldrei mjög stór eða sterk miðað við það sem mest verður. Hins vegar var hún svo rækilega þaulsetin að hún skilur eftir sig mestu austanátt við Ísland sem vitað er um - og næsthæsta janúarhita á Teigarhorni frá 1873. Þetta var aldeilis lúmskt.

En nú virðist jákvæða vikið vera að þokast austar - en það neikvæða situr eftir - alla vega í viku til viðbótar. Hver stórlægðin á fætur annarri gengur inn á Bretland úr vestri - og stöðvast þar. Þegar lægðirnar eru að stöðvast og fara að grynnast breiða þær úr sér og við fáum röð úrkomubakka yfir okkur úr suðaustri. Spurningin er hversu lengi þetta hlýja loft úr suðaustri getur haldið kaldri norðanátt í skefjum þegar hæðin er að hörfa. Við sjáum hvað setur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (21.5.): 368
 • Sl. sólarhring: 370
 • Sl. viku: 1914
 • Frá upphafi: 2355761

Annað

 • Innlit í dag: 344
 • Innlit sl. viku: 1768
 • Gestir í dag: 324
 • IP-tölur í dag: 323

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband