Austanáttin óvenjulega (mest fyrir nördin)

Nú hefur komið í ljós að nýliðinn janúar raðast meðal mestu austanáttamánaða síðustu 140 ára. Hér eru þrenns konar mælingar lagðar til grundvallar röðunar. Í fyrsta lagi er fundinn munur á meðalmánaðarloftþrýstingi í Vestmannaeyjum og á Akureyri. Þessi mælitala er til allt aftur til ársins 1877 (fyrsti janúarmánuðurinn í röðinni er 1878). Því meiri sem munurinn er - því meiri er austanáttin.

Þarna er janúar 2014 í þriðja efsta sæti (austanmegin), aðeins janúarmánuðir áranna 1943 og 1948 slá hann út.

Í öðru lagi er meðalvigurvindátt janúarmánaðar reiknuð. Þeir reikningar ná aftur til janúar 1949. Enginn slær 2014 út á öllu tímabilinu í keppnisgreininni.

Í þriðja lagi er reiknaður munur á loftþrýstingi á 60°N og 70°N - hann segir til um þrýstivind yfir Íslandssvæðinu. Við njótum hjálpar evrópureiknimiðstöðvarinnar og amerísku veðurendurgreiningarinnar. Greiningin nær aftur til 1871 - en er ekki áreiðanleg fyrstu áratugina. Hér skýst janúar 2014 upp á milli 1943 og 1948, sá síðastnefndi er á toppnum sem fyrr.

Að auki lítum við líka á bratta 500 hPa-hæðarsviðsins milli sömu breiddarstiga - en hann segir okkur til um ríkjandi vinda í miðju veðrahvolfinu. Þar var austanáttin í janúar svo mikil að ritstjórinn hrökk við þegar hann sá töluna - langt, langt ofan við næstmestu háloftaaustanáttina í janúar 1948 og síðan 1974. Aðeins einn mánuður á öllu tímabilinu var með viðlíka austanátt (en þó aðeins minni). Það var desember 1978. Veðurreynd þess mánaðar var hins vegar mjög ólík janúar nú - eins og forgömul veðurnörd muna. Desember 1978 var undanfari kuldaársins mikla, 1979.

Út frá bratta þrýstisviðs við jörð og bratta háloftasviðsins er auðvelt að reikna bratta þykktarsviðsins. Bratti þess segir til um hversu mikill hitamunur er á milli 60°N og 70°N. Í ljós kemur að hann var mun minni en að meðaltali nú í janúar - en ekkert nálægt meti.

Já, janúarmánuður var sannarlega óvenjulegur að þessu sinni og febrúar byrjar í svipuðum farvegi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Trausti, mig vantar sárlega mánaðarmeðaltalsvindhraða og mánaðarmeðaltalsloftþrýsting á Stórhöfða (og jafnvel Surtsey og Vestm.bæ líka) síðan 1.maí 2013. Einnig sakna ég meðaltal hámarks og lágmarkshita. Og svo líka meðaltal fyrir árið 2013 fyrir sömu mæla. Nýtt tölvupóstfang: palmifreyroskarsson@gmail.com

Pálmi Freyr Óskarsson, 5.2.2014 kl. 03:52

2 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Já, febrúar byrjar hlýr og loksins kemur regnið sem vonandi vinnur eitthvað á klakanum.

Eftir helgi er hins vegar spáð kólnandi veðri og frosti, sem gleði manna yfir hlýjum febrúar gæti breyst í sorg.

Eins og áður hefur komið fram er veðrið í vestan- og norðanverðri Evrópu mjög sérkennilegt. Meðan lægðirnar virðist hafa tekið sér bólfestu á Bretlandseyjum, með mestu flóðum í manna minnum, þá hefur ekki komið dropi úr lofti í norðanverðum Noregi.

http://www.yr.no/nyheter/1.11515651

Þessi veðrátta, með viðvarandi austanáttum hér á landi, hefur valdið því að fjöldi flækingsfugla er kominn til landsins eins og sagt var frá í Kastljósinu í gær (já loksins eitthvað áhugavert þar á bæ!!).

Torfi Kristján Stefánsson, 5.2.2014 kl. 13:57

3 identicon

skrýtið hvað veðrið er ávallt óvenjulegt !

Glódís Karin E. Hannesdóttir (Kaja) (IP-tala skráð) 5.2.2014 kl. 16:47

4 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Skrítin þessi sífellda hálka og klaki:

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/02/05/i_heidmork_a_halum_is/

Torfi Kristján Stefánsson, 5.2.2014 kl. 20:22

5 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Hæsti loftþrýstingur janúar 2014 á Stórhöfða sýnist mér í fljótu bragði vera 3 lægsti-hæsti loftþrýstingur í janúar á Stórhöfða síðan árið 1949.

Svo finnst mér merkilegt í austan-átt á Stórhöfða í janúarmánuði 2014, að það fór aðeins sex sinnum yfir 28 m/s. og nokkuð oft undir 5 m/s. í meðalvind í þessum lágþrýstingi. Enn sennilega átti Eyjafjallajökull mikið þátt í því.

Pálmi Freyr Óskarsson, 5.2.2014 kl. 23:11

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er forvitinn um austlægar áttir árið 1979, sem mig minnir að hafi verið óvenjulega langvinnar.

Einnig, hvort á því ári hafi suðvestan- eða vestanáttir verið sjaldgæfari en í nokkurn annan tíma.

Ómar Ragnarsson, 5.2.2014 kl. 23:50

7 Smámynd: Trausti Jónsson

Ómar, austlægar vindáttir voru yfir meðallagi 1979 - en það var samt fyrst og fremst þrálát norðanáttin sem einkenndi það ár - en það má rifja upp pistil hér á hungurdiskum frá í fyrra. Þar var fjallað um tíðni útsynnings. Pálmi - ég skal senda þér þessar tölur fljótlega. Glódís - veðrið kemur sífellt á óvart - hefur gert það á allri minni veðurminnistíð.

Trausti Jónsson, 6.2.2014 kl. 01:25

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Óvæntleikinn og fjölbreytnin er eitt af því sem gerir veðrið svo skemmtilegt.

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.2.2014 kl. 16:15

9 identicon

... svo kemur auðvitað meint "undirliggjandi hnatthlýnun" sífellt á óvart með því að láta ekki á sér kræla! :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 6.2.2014 kl. 17:06

10 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Ég bíð enn.

Ég vil benda á að vistorhofdi@simnet.is virkar ekki síðan áramót. Og því er nýja tölvupóstfangið palmifreyroskarsson@gmail.com.

Pálmi Freyr Óskarsson, 7.2.2014 kl. 21:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 330
  • Sl. sólarhring: 346
  • Sl. viku: 1904
  • Frá upphafi: 2350531

Annað

  • Innlit í dag: 249
  • Innlit sl. viku: 1698
  • Gestir í dag: 235
  • IP-tölur í dag: 235

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband