Smávegis um árstíðasveifluna

Við förum aðeins út fyrir þægindarammann (rétt einu sinni) og lítum á árstíðasveiflu hæðar 500 hPa-flatarins og þykktarinnar yfir landinu. Hér verða fyrir meðaltöl allra mánaða frá janúar 1995 að telja og til nýliðins desember. Fyrst er það þykktin.

w-blogg170114a 

Lárétti ásinn sýnir árin - merkt er með tveggja ára bili. Lóðrétti ásinn er þykktin í dekametrum (1 dekametri = 10 metrar). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Af eðlilegum ástæðum er hún miklu meiri að sumarlagi heldur en á vetrum. Hér er auðvelt að telja hvort sem er toppa eða dældir - allt er með reglulegum hætti. Andardráttur sumars og vetrar leynir sér ekki.

En í myndinni eru líka mörg smáatriði. Neðstu dældir (gjár) ritsins eru kaldir mánuðir. Allra lengst til vinstri eru þrír mánuðir í röð undir 5200 metrum. Þetta eru janúar til mars 1995, mars sjónarmun kaldari en hinir. Í samkeppni um neðsta sætið eru líka febrúar 2002 og desember 2011 - góðkunningjar meðalhitanörda.

Efst teygir sig ágúst 2006 - einn af mjög hlýjum ágústmánuðum nýrrar aldar, en þó ekki sá hlýjasti hér í niðurheimum lofthjúpsins. En mun verra samband er á milli mánaðarmeðalþykktar og mánaðarmeðalhita að sumarlagi heldur en er á vetrum. Sambandið er reyndar lakast í ágúst (en nokkuð gott samt). Það er einmitt frá miðjum júní, í júlí og ágúst sem sjávarloftið er ágengast við landið og líklegast til að kæla það - án íhlutunar háloftanna.

Við skulum líka taka eftir vöntun mánaða með þykkt undir 524 dekametrum 2003 og 2004.

En þá er það 500 hPa hæðin:

w-blogg170114b

Hér er líka auðvelt að greina að sumar og vetur - en veturnir eru mun breytilegri heldur en á þykktarmyndinni, t.d. var veturinn 2012 til 2013 hálfmisheppnaður - þar er enginn mánuður áberandi lágur. Desember síðastliðinn nær góðu máli - rétt eins og hinn kaldi bróðir hans 2011. Að sumarlagi var hikstinn á tímabilinu mestur 2001. Þá var hæðin í júní og september meiri heldur en í júlí og ágúst. Dálítið misheppnað - ef ritstjórann misminnir ekki var sumarið sérlega skúrasælt á hálendinu. Sólin að reyna að bæta úr skorti á hlýjum háloftum. Síðastliðið sumar (2013) er toppurinn fremur mjósleginn heldur en stýfður - en er þarna samt.

Það er ágætt að stara aðeins á þessar myndir - en varist að láta þær valda spennu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Trausti, ég rakst á frábært forrit á netinu sem sýnir vindstyrk og stefnu hvarvetna á jarðarkúlunni -

Þú hefur kannski séð þetta áður, en þettar er mjög skemmtilegt!

Brynjólfur Þorvarðsson, 17.1.2014 kl. 10:35

2 identicon

Talandi um sveiflur í veðurfari, nú bendir flest til þess að undir lok þessa mánaðar (janúar 2014) muni veðurfar breytast og verða kaldara og úrkoman verði meiri um norðan og norðvestanvert landið. Auðvitað eru spár bara spár og við sjáum hvað setur. Allt virðist samt benda til þess að veðurfarslíkanið, sem dró upp meginþætti í veðurfarsbreytingum hér í Norður-Atlantshafi, sé rétt að því leyti að búast megi við meiri öfgum í veðurfari og kólnandi veðri hér.

E (IP-tala skráð) 17.1.2014 kl. 17:39

3 identicon

Athyglisvert. Hvaða veðurfarslíkan er það?

Annars er komin endanlegt yfirlit frá Veðurstofunni fyrir árið 2013.

Helstu niðurstöður eru þær að sumarið var lakara sunnanlands en verið hefur um alllangt skeið. Óvenjuleg hlýindi voru fyrstu tvo mánuði ársins, methlýindi á mörgum veðurstöðvum, en í öðrum mánuðum var hiti nærri meðallaginu 1961 til 1990; einna kaldast að tiltölu í apríl.

Þó svo að hlýtt hafi verið á árinu miðað við kuldatímabilið 1961-90 þá var það í flokki þeirra kaldari á nýrri öld. Kaldast var suðvestanlands, það kaldasta frá árinu 2000.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 17.1.2014 kl. 23:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (21.5.): 327
 • Sl. sólarhring: 336
 • Sl. viku: 1873
 • Frá upphafi: 2355720

Annað

 • Innlit í dag: 304
 • Innlit sl. viku: 1728
 • Gestir í dag: 286
 • IP-tölur í dag: 285

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband