Gervihnattarmynd

Nú kemur pistill í flokknum bullað um gervihnattamyndir (49. þáttur) - en hann telst frekar hóflegur að þessu sinni. Tilefnið er innrauð mynd sem fengin er af vef Veðurstofunnar og var numin á miðnætti föstudagskvöldið 10. janúar.

w-blogg110114a 

Ísland og Grænland eru efst á myndinni. Yfir Íslandi er hægfara skýjabakki, hlý suðaustanátt er í bakkanum - en kalt loft stingst inn undir. Kalda loftið er komið frá Kanada. Töluvert snjóar í hægum vindi á Suður- og Vesturlandi - trúlega eitthvað fyrir norðan líka. Úrkomusvæðið hreyfist til norðausturs - en allmikið af köldu lofti er fyrir sunnan og suðaustan land. Eðli þess sést best á skúra- og éljaklökkunum (bókstafurinn K).

Óvenjuvond akstursskilyrði voru í snjókomunni - sérstaklega óvenjuleg vegna þess hversu veðrið var í sjálfu sér gott. Þétt hundslappadrífa settist á allar vegstikur og huldi veglínur - það var nánast eins og afturblik um 40 ár að aka á óupplýstum vegum í nágrenni við höfuðborgina - og sjálfsagt víðar. Ritstjórinn man (eða misminnir) að vegstikuöld hafi hafist í Borgarfirði 1966 - sáust reyndar áður í stöku beygju (ásamt hinni hallandi zetu - sem var næstum því eina umferðarmerkið fyrir umferðarlagabreytinguna 1958 - þá sem færði okkur merkin, stefnuljósin og nýmóðins vinstribeygju (sem þá var reyndar hægribeygja í vinstrihandarakstri). Beygjubreytingin var mörgum snúin - hennar sá lengi stað í aksturslagi - ekki síst í höfuðborginni. Veglínur birtust hins vegar ekki fyrr en svonefnt fast slitlag (sem ekki er alltaf fast) kom á þjóðvegi. Á þessari stiku- og línuleysisöld var oft harla bágt í vondu skyggni hundslappadrífunnar - en nær enginn ók þá hraðar við þessar aðstæður en 30 km/klst - nema auðvitað Bjössi á mjólkurbílnum - og kannski Sjana síldarkokkur líka.

En aftur að myndinni. Suður í hafi er mjög myndarleg lægð og dýpkar hún hratt. Fyrir tíma evrópureiknimiðstöðvarinnar og ofurtölva hennar var erfitt að horfa á mynd sem þessa án þess að fá spáskjálfta - en núna róar reiknimiðstöðin okkur aðeins. Lægðin kemur til með að valda austanstormi síðdegis á sunnudag (segir stöðin) - en við bendum á spár Veðurstofunnar eða annarra til þess bærra aðila í því sambandi.

En lægðin er með það sem við köllum hlýtt færiband (rautt) - það stefnir að vísu beint í norður sem er dálítið erfitt - berist ekki hjálp úr vestri og norðvestri - en myndarlegt er það samt. Við sjáum líka það sem stundum er kallað kalt færiband (blámerkt) - en ritstjórinn hefur tilhneigingu til þess að nota orðið undanskot um þetta (hann er aleinn um það sem og margt annað). Hér virðast undanskotin vera tvö.

Bláu örvarnar benda til suðurs - og það er í raun og veru norðanátt undir skýjum vestan lægðarinnar - en aðalatriðið er að það sé norðanátt frá sjónarhóli lægðarinnar sjálfrar. Hún getur jafnvel vaxið þótt sunnanátt sé í undanskotinu (í skýjahæð) - en norðanátt verður það að vera eftir að við höfum dregið stefnu og hraða lægðarmiðjunnar frá öllum vindi umhverfis hana. Allt skýjakerfið hreyfist þá til norðurs - en vestasti hlutinn dregst meira og meira aftur úr. Við það sýnist snúningur komast á kerfið - sveipur verður til.

Vesturbrún háskýjakerfis hlýja færibandsins (hvít) er mjög skörp. Þar nærri má kannski sjá hina illræmdu þurru rifu sem einkennir lægðir í hröðum vexti.

Reiknimiðstöðin segir lægðina rétt slefa að dýpka um þá 24 hPa á sólarhring sem dugar í ameríska miðann (bomb) - en þetta er engin ofurlægð. Við skulum samt ekki fyrirframvanmeta hvassviðrið sem hún færir okkur á sunnudagskvöld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Er það ekki rétt munað að veglínur hafi áður fyrr verið gular?  Gular línur sjást betur í snjó og hefur mér alltaf fundist undarlegt hvers vegna þær eru hafðar í hálfgerðum felulitum í dag, þ.e. snjóhvítar.

Ágúst H Bjarnason, 11.1.2014 kl. 08:07

2 identicon

...sem var næstum því eina umferðarmerkið fyrir "umferðarlagabreytinguna 1968"(H-dagurinn 26. maí 1968), Trausti ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 11.1.2014 kl. 09:31

3 Smámynd: Hólmgeir Guðmundsson

Eitthavð fram yfir 1990 voru notaðar gular veglínur milli akreina þar sem umferð fór í gagnstæðar áttir, en hvítar annars, líkt og gert er í Vesturheimi. Mig grunar að þessu hafi verið hætt vegna evrópskra reglna sem þurfti að innleiða vegna EES samningsins en heldur fannst mér eftirsjá að gulu línunum. Og norðmenn nota ennþá gular línur þar sem það á við.

Hólmgeir Guðmundsson, 11.1.2014 kl. 12:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 221
  • Sl. sólarhring: 279
  • Sl. viku: 2046
  • Frá upphafi: 2350782

Annað

  • Innlit í dag: 203
  • Innlit sl. viku: 1831
  • Gestir í dag: 197
  • IP-tölur í dag: 196

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband