Austnorðaustanþræsingur (á áramótum)

Er þræsingur ekki eitthvað sem er þrálátt og breytist lítið og hægt? Breytingar eru reyndar alltaf í gangi frá degi til dags. Veðrið í dag (sunnudag) er t.d. mun skárra heldur en jóladagana fyrstu þótt veðurkortin beri ámóta svip.

En í aðalatriðum er staðan þannig að djúp lægð situr yfir Norður-Atlantshafi vestur af Bretlandi. Hún endurnýjast í sífellu við það að nýjar lægðir ganga til austurs fyrir sunnan hana og sameinast síðan þeirri sem fyrir er. Með hverri lægð gengur gusa af til þess að gera hlýju lofti til norðurs yfir Ísland og jafnvel langt norður í höf. Þetta hlýja loft birtist á flestum veðurkortum sem samskil sem ganga til norðvesturs um Ísland og eyðast jafnframt - en skila úrkomu norðanlands og austan - og á meðan harðnar einnig á vindi.

Litlar breytingar er að sjá. Í nótt (aðfaranótt mánudags) gengur enn einn austanstrengurinn yfir landið - ekki meira um hann.

En veðurkortið sem nú gildir á gamlárskvöld sýnir sama svip. Það er sjávarmálsþrýstikort úr búri evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg301213a 

Úrkoma er lituð og svo má einnig sjá hita í 850 hPa-fletinum - jafnhitalínur hans eru strikaðar og flestar bláar. Ef við gjóum augunum lengst til vinstri á kortinu má sjá -35 stiga jafnhitalínuna yfir Labrador og sömuleiðis sést vel hvernig mikill strengur af ísköldu lofti liggur langt út á Atlantshaf tilbúinn til næstu átaka. Kröpp lægð er suðvestur af Írlandi og veldur auðvitað áframhaldandi úrhelli á Bretlandseyjum á fyrsta degi ársins nýja.

Yfir Íslandi er austnorðaustanátt, einhver úrkoma norðan- og austanlands en þurrt á Vesturlandi. Þrýstilínurnar eru nægilega þéttar til þess að við verðum að reikna með nokkrum vindi. Línurnar eru dregnar á 4 hPa bili og er þrýstibrattinn svo sem eins og 3 til 4 hPa á breiddarstig. Það þýðir að þrýstivindur er á bilinu 15 til 20 m/s. Á landi er meðalvindhraði kannski rétt í kringum helmingur af því - að vísu mjög misskipt eftir staðháttum - sums staðar meiri.

Ef við rýnum í smáatriði má finna 0 stig í 850 hPa á Faxaflóa (lítill bútur af grænni strikalínu) - kortið batnar mjög við stækkun. Þetta þýðir að talsverður hitabratti er frá þessum bletti til norðurs því -5 stiga línan sést greinilega yfir Vestfjörðum og svo sést -10 línan líka þar norðan við. En svo er mjög langt í -15 stiga jafnhitalínuna það sést aðeins rétt í hana allra efst á kortinu. Af þessu má ráða hversu hlýtt er á öllu svæðinu frá Íslandi norður til Svalbarða þessa dagana.

Hlýindin sjást einnig vel á korti hér að neðan sem sýnir þrýsting við sjávarmál og mættishita í 850 hPa fletinum á áramótum. Sé loft dregið niður í 1000 hPa úr 850 hPa hlýnar það um 1 stig á hverja 100 metra lækkun. Það er mættishitinn.

w-blogg301213c

Sé kortið stækkað má sjá töluna +13,9 stig yfir Faxaflóa. Það eru reyndar engar líkur á því að við fáum að njóta hlýindanna því erfitt er að koma hita langt yfir frostmark þar sem snjór er að bráðna á jörðu. Mikið aðstreymi þarf af hlýju lofti og auk þess skilyrði til að blanda því niður til jarðar eigi hiti að komast í meira en 3 til 4 stig - og sé léttskýjað er það nánast vonlaust.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þræsingur merkir reyndar kalt, hryssingslegt veður - eins og hefur einkennt veðurfar á Íslandi síðustu 10 mánuði.

En það er líka meiriháttar þræsingur í gangi við Suður-heimskautið þessa stundina þar sem hnatthlýnunarleiðangursmennirnir alræmdu um borð í Akademik Shokalskiy bíða örlaga sinna í "sumarblíðunni".

Nýjustu fréttir herma að ástralski ísbrjóturinn Aurora Australis hafi neyðst til að hætta björgunartilraunum vegna stórhríðar og lélegs skyggnis, en áður hafa franskir og kínverskir ísbrjótar þurft að gefast upp við björgunaraðgerðir vegna þykktar hafísins (3 - 5 metrar!).

Akademik Shokalskiy festist kyrfilega í hafís 24 desember sl. og þá sendi áhöfnin út neyðarkall frá sumarlandinu, þar sem meint "hnatthlýnun" er óskaplegt vandamál að mati gervivísindamanna ;)

> http://www.theguardian.com/world/2013/dec/30/antarctic-rescue-mission-australian-icebreaker-forced-back-by-blizzard

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 30.12.2013 kl. 09:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide8
 • Slide6
 • Slide5
 • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (22.4.): 235
 • Sl. sólarhring: 442
 • Sl. viku: 1999
 • Frá upphafi: 2349512

Annað

 • Innlit í dag: 219
 • Innlit sl. viku: 1811
 • Gestir í dag: 217
 • IP-tölur í dag: 213

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband