Átjánda árið

Meðan við bíðum eftir tölum frá Veðurstofunni getum við litið á landsmeðalhita ársins 2013. Taka skal fram að þetta er óformlegt yfirlit og má vera að það hnikist eitthvað eftir að raunverulegar tölur birtast.

Myndin sýnir landsmeðalhita í byggð á tímabilinu 1870 til 2013 - við treystum því sæmilega frá 1880 og býsna vel frá 1930.

w-blogg291213 

Meðalhitinn í ár (2013) er 3,9 stig og er það 0,7 stigum ofan við meðaltalið 1961 til 1990. Þetta er átjánda árið í röð sem er ofan við þetta meðaltal. Ef trúa má reikningunum er það þó næstkaldast það sem af er 21. öldinni (ómarktækt hlýrra en árið 2005). Suðvestanlands verður það trúlega það kaldasta en víða fyrir norðan og austan var kaldara bæði 2005 og 2011.

Hitasveiflur hafa verið litlar það sem af er öldinni, að slepptu árinu 2003, og minni heldur en almennar væntingar standa til. Það telst með ólíkindum að ekki skuli hafa komið eitt einasta kalt ár í nærri tvo áratugi. En að því hlýtur að koma - nema að alræmd hnatthlýnun sé enn verri en talið hefur verið. Vonandi er ekki svo - við skulum því taka köldu ári með jákvæðum huga þegar það kemur - en 2013 var ekki það ár - 2013 er í hópi hlýju áranna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Línan er næstum flöt frá 1930

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.12.2013 kl. 04:09

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Í 83 ár... nánast engin hlýnun

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.12.2013 kl. 04:11

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Hnatthlýnunin er varla "alræmd" Trausti. Það er svo neikvætt orð.    Hnatthlýnunin hefur gert okkur Íslendingum gott og farið vel með landið sem hefur gróið upp.    Hnatthlýnunin fyrir árþúsundi gerði okkur líka gott er landið byggðist. 

Hnatthlýnunin er auðvitað "alræmd" í þeim skilningi að margir tala illa um hana og telja sjálfum sér og öðrum trú um að svona fyrirbrigði sé að öllu leyti okkur mannfólkinu að kenna.  Sussum svei.  Það á ekki að tala illa um svona dásamlegt fyrirbæri .

Við skulum njóta þess að lifa á góðum tímum og hugsa til þess um áramótin hvernig lífið var á Íslandi áður en blessuð hnatthlýnunin byrjaði eftir lok Litlu ísaldarinnar. Það er ekki nema um 150 ár síðan Íslendingar urðu að flýja kuldann og harðræðið og halda til Vesturheims.  

Það virðist einnig vera full ástæða til að fara að líta í kaffibolla og spá fyrir um næstu ár og áratugi.  Munum við áfram njóta þess hve náttúran hefur farið mildum höndum um okkur, eða fer þessu sældarlífi brátt að ljúka?





Ágúst H Bjarnason, 29.12.2013 kl. 10:25

4 identicon

Takk fyrir þetta Trausti. Aðeins smá athugasemd:

Þó hlýindin nú séu orðin langvinn hafa þau ekki staðið nema í 18 ár (þ.e. síðan 1995). Enn er ekki búið að ná fyrra hlýskeiði sem var frá 1931 til 1961 en þá varð hitinn hæstur.

Árið í ár er mun kaldara en þegar hlýjast hefur verið eða aðeins í 30. sæti eða svo (síðan 1871).

Þið veðurfræðingarnir miðið alltaf við kuldatíðina 1961-1990 en ekki hlýskeiðið á undan eða þá síðustu 20 ár. Gott hefði t.d. verið að fá yfirlit yfir 10 síðustu árin til að sjá hversu mjög hefur kólnað í ár miðað við það tímabil.

Þá skilst mér að síðustu 5 mánuðir ársins hafi verið undir meðallagi síðustu 10 ára. Er það met. Hefur slíkt kuldakast ekki staðið svona lengi síðan 1999 a.m.k.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 29.12.2013 kl. 10:56

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Torfi, Það er búið að ná hlýskeiðinu 1931-1960 í hita og gott betur. Það munar ekki miklu en toppur núverandi hlýskeiðs er um 0,25°C fyrir ofan topp hlýskeiðsins frá síðustu öld.

Emil Hannes Valgeirsson, 29.12.2013 kl. 11:23

6 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Emil, en ef við tökum inn í dæmið lengdina á þessum tveim mini hlýskeiðum, núverandi og því sem var um miðja síðustu öld, sem sagt ekki bara toppinn...   


Ágúst H Bjarnason, 29.12.2013 kl. 12:15

7 identicon

Það var nú varla við því að búast að einn helsti forkólfur "vísindanefndarinnar" góðu, sem var umhverfisráðuneyti til halds og trausts við að knýja á um kolefnisgjald á eldsneyti, tæki höfuðið upp úr snjóskaflinum :)

"Væntingar" manna hjá vísindanefndinni standa að sjálfsögðu til allt að 6°C hlýnunar meðalhita á Íslandi á þessari öld með tilheyrandi margra metra hækkun sjávarborðs og annarri tilsvarandi náttúruvá.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 29.12.2013 kl. 12:22

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ætli við verðum ekki að sjá hvenær þetta hlýindaskeið endar áður en við getum farið að bera saman lengdina á þeim. Fyrra hlýindaskeið stóð vissulega helmingi lengur en það sem af er þessu hlýindaskeiði - sem við skulum ekki afskrifa þótt síðustu mánuðir hafi ekki verið hlýir. Á fyrra hlýindaskeiði komu líka ár inn á milli sem voru alls ekki hlý.

Emil Hannes Valgeirsson, 29.12.2013 kl. 13:10

9 identicon

Mér skilst að árið sem er að líða sé það kaldasta síðan 1999.

Þetta er því ekki spurning um hvort glasið sé hálffullt eða hálftómt, heldur um það að hafa titil sem passar best við umfjöllunarefnið.

Því hefði betri titill á pistli Trausta verið: Kaldasta árið í 14 ár!

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 29.12.2013 kl. 14:25

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kuldatrúrarmenn halda sig við sama heygarðshornið, - engin hlýnun í 80 ár! Samt voru 13 ár á hlýindaárunum 1930 til 1960 kaldari en nokkurt ár á þessari öld.

Ómar Ragnarsson, 29.12.2013 kl. 14:51

11 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Er það ekki full mikið sagt, Torfi? Í pistlinum kemur fram að árið sé hlýrra en 2005 (þó ekki marktækur munur). Í Reykjavík þarf hinsvegar að fara aftur til 2000 til að finna kaldara ár.

Emil Hannes Valgeirsson, 29.12.2013 kl. 14:54

12 identicon

Heittrúnaðurinn forðast auðvitað staðreyndir Ómar minn. Ef við tökum Traustagleraugun niður þá blasir við að það er að kólna á Íslandi. 3,9°C meðalhiti er marktækt lægri en 5,1°C. Jafnvel álfavinir verða að viðurkenna það ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 29.12.2013 kl. 15:00

13 identicon

Jú líklega Emil. Það kaldasta á Suðvesturlandi síðan 1999 (eða 2000?) er réttara. Það gerir (13)-14 ár.

Auk þess má benda á að tveir fyrstu mánuðir ársins voru óvenju hlýir. Ef þeir eru ekki taldir með þá hafa síðustu 10 mánuðir þessa árs eflaust verið kaldari en síðustu 20 árin eða svo.

Ef janúar og febrúar 2014 verða kaldir þá verður 12 mánaðatímabils-kuldametið eflaust slegið líka.

Reyndar var einnig kalt ár 2011.

Stefnan virðist þannig vera niður á við frá hitatoppnum árið 2003.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 29.12.2013 kl. 18:16

14 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Mér finnst athugunarsemd Hilmars frá því kl.15:00 í dag ætti vera frekar hljóma svona frá mér komið: Kuldartrúarmenn forðast auðvitað staðreyndir Hilmar minn. Ef við tökum Hilmarsgleraugun niður þá blasir við að það sé að hlýna hægt og rólega.

Pálmi Freyr Óskarsson, 29.12.2013 kl. 18:52

15 identicon

Aflagði mælalesarinn alltaf góður. Við skulum bara vona að það sé að "hlýna hægt og rólega" hjá vinum hans, gervivísindamönnunum og hitaglópunum, sem eru búnir að eyða hátíðardögunum um borð í Akademik Shokalskiy fastir í 3 - 5 metra þykkum hafís við Suður-heimskautið. Þar er hásumar! :D

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 29.12.2013 kl. 20:06

16 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ótrúlega lengi hefur hitinn verið í hæstu hæðum svo alveg einstakt er með bæði hitann og tímalengdina. Svo þegar kólnar aðeins, en þó ekki nema niður að meðaltalinu á hlýindatímabilinu 1931-1960 er ekki ástæða til að túlka það sem að eitthvað kuldaskeið sé hafið eða sé að hefjast. Og öll meðaltöl eru óralangt frá einhverjum kuldametum. Setjum upp smá dæmi, þó það sé að vísu ekki alveg sambærilegt, en segir samt eithvað. Hitabylgja kemur í júlí og stendur í viku svo meðaltalið rýkur upp. Svo kólnar aftur niður i kringum langtímameðaltal. Er þá raunhæft að tala um einhvern sérstakan kuldafasa þó farið sé út úr stóru stóru fráviki upp á við niður í það sem kallast má ''eðlilegt''. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.12.2013 kl. 20:56

17 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Ertu virkilega kennari Hilmar????? Finnst það ömurlegt ef satt er að maður sem uppnefnir fólk og er með dónaskap skuli fá að vera með kennararéttindi.

Annars ætla ég enn einu sinni að benda þér á Hilmar minn að það er óvenjuheit á ýmsum stöðum í heiminum í desember, og jafnvel hitamet að falla.

Pálmi Freyr Óskarsson, 29.12.2013 kl. 22:16

18 Smámynd: Trausti Jónsson

Torfi - á landsvísu eru síðustu 10 mánuðir þessa árs þeir köldustu síðan 1998, í 15 ár- það verður forvitnilegt að sjá janúar og febrúar 2014 - en nú er 2003 dottið út úr síðustu 10-árum og 2004 fer að gera það líka. Ágúst - varla er hægt að nota vægara orð en alræmdur um hugtakið hnatthlýnun - alla vega æsa menn sig meira yfir því heldur en flestum öðrum hugtökum í náttúruvísindum - .  

Trausti Jónsson, 30.12.2013 kl. 01:41

19 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Hér má (meðal annarra athugasemda) sjá athugasemdir "the usual suspects" sem reyna venju samkvæmt að gera lítið úr hlýnuninni - jæja, það mátti svo sem ekki eiga von á öðru, eins og gengur og gerist.

Allavega gleðilegt ár - hin "alræmda" hlýnun er staðreynd, sama hvaða vitleysu afneitunarsinnar vísinda koma fram með nú sem fyrr.

PS. 2013 er meðal hlýju áranna - það kemur svo sem ekki á óvart - en það má þá kannski spá í hversu köld þessi alvöru köldu ár voru á sínum tíma.

Sveinn Atli Gunnarsson, 30.12.2013 kl. 01:41

20 identicon

Hér skriplar Trausti á skötunni í orðanotkun - en ratast þó óvart satt orð á munn!

Væntanlega telur Trausti sig vera að vitna til þess að hugtakið "hnatthlýnun" sé almennt álit(!) en það er reyndar forn og aflögð túlkun lýsingarorðsins "alræmdur".

Samkvæmt almennri notkun orðsins "alræmdur" merkir það eitthvað sem illt orð fer af, t.d. "alræmdur fyrir ósannsögli" - en það er einmitt hárrétt í þessu tilfelli :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 30.12.2013 kl. 08:54

21 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Það má kannski velta fyrir sér hvað sé eðlilegt árferði á Íslandi hvað veðurfar varðar:

Er það svipað og verið hefur frá því um 1930 og einnig áður um það leyti sem landið var að byggjast, eða er það svipað því sem var hér meðan á því sem við köllum litlu ísöldina stóð?

Hvenær endaði kuldatímabilið langa (litla ísöldin)?  Við hvaða ár getum við miðað?  Jöklar gengu lengst fram minnir mig um 1890. Er hægt að miða við það, eða 1920 skömmu eftir frostaveturinn mikla?

Hitaferillinn hér fyrir ofan nær aftur til 1870, en þá var ennþá verulega kalt og fólk flúði unnvörpum land og tók sér bólfestu annars staðar, allt frá Brasilíu til Kanada.  Við sjáum það á ferlinum að það verða ekki veruleg umskipti fyrr en eftir 1920.

Þá komum við aftur að spurningunni:

Hvað er eðlilegt veðurfar á Íslandi, sæmilega hlýtt eins og nú og fyrir árþúsundi,   - eða t.d. um miðja 19. öld eins og oft er miðað við þegar fjallað er um hnatthlýnun?

Og svo getumvið bætt við:

Hvernig viljum við hafa veðurfarið?

Ágúst H Bjarnason, 30.12.2013 kl. 09:43

22 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Til að rifja upp hvernig árferðið var stundum í lok 19. aldar.  Hafís fyrir Suðurlandi nefnist mjög fróðlegur pistill Þórs Jakobssonar.
http://www.vedur.is/hafis/frodleikur/nr/326

Þar stendur meðal annars um árið 1881: 

Mikill ísavetur og hinn mesti frostavetur. Þá lagði ísa norðan að öllu landinu á svæinu frá Látrabjargi, norður, austur og suður að Eyrarbakka. Hafísinn hafði komið upp undir Norðurland í lok nóvembermánaðar árinu áður, og varð um jólin landfstur við Vestfirði norðan til og við Strandir, rak þar inn á hvern fjörð og voru hafþök fyrir utan. Í fyrstu viku í janúarmánuði lónaði hafísinn frá fyrir norðan og rak út hroðann af Eyjafirði og öðrum fjörðum. Að kvöldi hins 9. janúar sneri við blaðinu og gerði ofsa-lega norðanhríð um alt Norðurland og Vestfjörðu, en minna varð af því syðra og eystra; illviðri með hörkufrostum hjeldust fram í miðjan febrúar. Með hríðum þessum rak hafísinn að landi og fylti firði og víkur og fraus víða saman við lagnaðarísa í eina hellu, því þá voru hin grimmustu frost. Í lok janúarmánaðar var Eyjafjörður allur lagður út undir Hrísey og mátti aka og ríða eftir honum endilöngum; ísinn var síðar mældur á Akureyrarhöfn og var nærri þriggja álna þykkur.

    Hafísinn var enn svakalegri árið 1695:

Óvanalega miklir hafísar. Ís rak um veturinn upp að Norðurlandi og lá hann fram um þing, norðanveður ráku ísinn austur fyrir og svo suður, var hann kominn fyrir Þorlákshöfn fyrir sumarmál og sunnudaginn fyrstan í sumri (14. apríl) rak hann fyrir Reyjanes og Garð og inn á fiskileitir Seltirninga og að lokum að Hvalseyjum og í Hítarós, fór hann inn á hverja vík. Hafði ís ei komið fyrir Suðurnes innan 80 ára, þótti því mörgum nýstárlegt og undrum gegna um komu hans. Þá mátti ganga á ísum af Akranesi í Hólmakaupstað (Reykjavík) og var ísinn á Faxaflóa fram um vertíðarlok rúmlega, braut hann skip undan 6 mönnum fyrir Garði, en þeir gengu allir til lands.


Litlu eftir vertíðarlok urðu frakkneskir hvalveiðimenn að ganga af skipi sínu í ísi fyrir Reykjanesi; 8 skotskum mönnum var bjargað af ísjaka í Vestmannaeyjum, höfðu franskir víkingar rænt þá, flett klæðum og látið þá svo út á ísinn allslausa. Að vestan kom ís fyrir Látrabjarg, en norðanlands mátti ríða og renna fyrir hvern fjörð um vorkrossmessu. Ísinn gekk sumstaðar upp á land og varð að setja báta lengra upp en vandi var til. Nyrðra sást eigi út yfir ísinn af hæstu fjöllum, syðra sást út fyrir hann og kaupskipin fyrir utan, sem hvergi komust að landi, og eigi varð heldur komist til þeirra, og komust menn í mikla þröng af siglingarleysinu, því flest vantaði, er á þurfti að halda, kornvöru, járn, timbur og veiðarfæri.

Er þetta það sem við köllum eðlilegt tíðarfar á Íslandi?  Er þetta það sem við viljum?

Ágúst H Bjarnason, 30.12.2013 kl. 09:50

23 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

"Alræmd hnatthlýnun" er hnattrænt atriði. Við hér getum hinsvegar að ósekju óskað eftir endalausum hlýindum, en það er annað mál. Það er varla til neitt sem heitir eðlilegt tíðarfar á Íslandi, kannski verður hver og einn bara að miða við það sem hann ólst upp við sjálfur.

Emil Hannes Valgeirsson, 30.12.2013 kl. 11:21

24 identicon

Hvað veðurfar varðar er einnig athyglisvert að lesa Ferðabók Hendersons sem var hér á ferð 1814-15 (sjá um veðráttu (bls. 217) og hörðustu veturnir (1384, 1717, 1742, 1748, 1792 (hafís mikill 1766 og 1816-7)).

Hvergi kemur þó fram hvaðan hann hefur þessar upplýsingar. Kannski byggir hann á innlendum heimildarmönnum, kannski á annálum (en hann las og skildi íslensku ágætlega)?

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 30.12.2013 kl. 15:26

25 identicon

Hvað veðurfar varðar, hnattrænt, er athyglisvert að kynna sér rannsóknir G. Lundqvist (1959), J. Lundqvist (1969), Karlen (1976), Eronen (1979), Aas og Faarlund (1988, 1999), Nesje et al. (1991), Moe og Odland (1992), Kullman (1995, 2000), Selsing (1998), Kullman og Kjallgren (2000, 2006), Helama et al. (2004), Paus (2010) og Oberg og Kullman (2011a, b).

Þessar rannsóknir sýna fram á að veðurfar var töluvert hlýrra á tímum Rómverja og á miðöldum (900 - 1300) en það er í dag. Samkvæmt Kullman hafa trjálínan staðið a.m.k. tvísvar sinnum hærra á síðustu tvöþúsund árum en í dag (snemma á 21. öld).(cf. Karlen, 2008; Akasofu, 2010; Curry and Webster, 2011; Humlum et al., 2011; Kobashi et al., 2011; Ljungqvist et al., 2012).

Rannsóknir Kullmans á trjálínugögnum, ásamt með niðurstöðum margra annarra rannsókna sýnir ljóslega að það er ekkert óvenjulegt, ónáttúrulegt eða ófyrirséð við núverandi hnatthita.

> http://www.co2science.org/printer1.3/print.php

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 30.12.2013 kl. 16:11

26 identicon

Ágúst Bjarnason skrifar um árferðið 1881 og hafís fyrir Suðurlandi. Það að hafís hafi verið fyrir Suðurlandi segir manni að mikil kólnun sjávar hafi verið suður með landinu. Það segir manni að Irmingerstraumurinn hafi verið sunnar eða veikari enn hann er í dag.

Einmitt veikari golfstraumur eða breytingar á honum hafa sennilega hrundið af stað litlu ísöldinni.http://www.cosmosmagazine.com/news/weakened-gulf-stream-caused-little-ice-age/

Hermundur Sigurdsson (IP-tala skráð) 30.12.2013 kl. 21:25

27 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ágúst - það er engin að biðja um hafísár og kulda og vosbúð þó að einhverjir vilji gera eitthvað varðandi loftslagsvánna. Það er alveg ljóst að aukin gróðurhúsaáhrif af mannavöldum hækka hitastig í heiminum og ef marka má vísindasamfélagið (97% - s.s. ekki Ole Humlum og aðra ósérhæfða sérfræðinga sem þú vísar oft til) þá er talið nánast öruggt að hlýnun jarðar haldi áfram og það er alls ekki ólíklegt að við förum langt yfir hinar 2°C sem þjóðir heims hafa sammælst um að reyna halda sig innan, ef ekkert verður að gert. Hnatthlýnun er staðreynd sem ekki verður sópað undir teppið með einhverjum óljósum sögusögnum af gömlum hafís árum og látið svo í veðri vaka að það sé eitthvað sem að einhver óski sérstaklega - þó svo einhverjir vilji gera eitthvað varðandi loftslagsvandann. Við erum rétt byrjuð að sjá toppinn af ísjakanum varðandi loftslagsvánna - vandinn leysist allavega ekki við að sumir afneiti honum.

Sveinn Atli Gunnarsson, 30.12.2013 kl. 22:46

28 identicon

Málpípa John C(r)ook afneitar ekki lyginni fyrr en í fulla hnefana :) unscepticalscience.com/loftslag.is-bullukollarnir sjá ekki klakann þótt þeir standi á honum.

Talandi um tenginguna við andfætlinga okkar. Nýjustu fréttir herma að gervivísindamennirnir sem hafa verið fastir í hafís um borð í Akademik Shokalskiy frá því á aðfangadag jóla í sólinni og hnatthlýnuninni við Suður-heimskautið verði að yfirgefa skipið! Ítrekaðar björgunaraðgerðir franskra, kínverskra og nú síðast ástralskra ísbrjóta hafa misheppnast - ísinn er of þykkur til að þeir nái að brjótast í gegn!

> http://news.yahoo.com/anxious-wait-stranded-antarctic-ship-034404267.html

Og svo þusar málpípan um afneitun :D

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 30.12.2013 kl. 23:03

29 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Smá hugarleikfimi.  Ef ég umorða spurninguna aðeins:

Ef við hugsum okkur að engin iðnbylting hefði átt sér stað og því örugglega engin hlýnun af mannavöldum:

Hvernig hefði ferillinn efst á síðunni litið út í stórum dráttum frá því um 1920?  Hefði hann verið að dóla á svipuðu róli og á 30 ára tímabilinu 1870-1900, og hitastig þar með núna um það bil 1 gráðu lægra á Íslandi en það er raunverulega í dag?   

Ágúst H Bjarnason, 30.12.2013 kl. 23:06

30 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nú er mikil vinna framundan sem enginn sá fyrir: Að fara í gegnum öll meðaltölin og vinsa úr hlýjustu mánuði hvers árs til þess að fá meðalhita þess niður, samanber ofansagt: "Fyrstu tveir mánuðir ársins voru óvenju hlýir. Ef þeir eru ekki taldir með verður árið eitt það kaldasta í 20 ár!

Bravó! Göngum í þetta ár fyrir ár og það er hugsanlega að bresta á ísöld!

Ómar Ragnarsson, 30.12.2013 kl. 23:09

31 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ágúst:

Ekki er gott að segja hvernig staðbundnir ferlar eins og eru efst á síðunni hefðu getað litið út án iðnbyltingarinnar. En það er hægt að skoða hitaferla sem gerðir eru af vísindamönnum til að átta sig á því hvað gæti hafa gerst á heimsvísu ef ekki er tekið tillit til aukina gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum, sjá t.d. mynd í eftirfarandi tengli ásamt frekari upplýsingum um Grunnatriði kenningarinnar. Það er því alveg óþarfi fyrir þig að reyna að búa til einhverja tóma ímyndun í huga þér um einhver staðbundin áhrif sem segja okkur kannski ekki alla söguna kæri Ágúst - betra að skoða bara þau gögn og rannsóknir sem til eru - þó alltaf sé gott að láta hugan reika og ímynda sér hluti, þá er stundum gott að nota tilfallandi gögn til að hjálpa til svo rökfærslan verði betri.

Fyrir utan svo að eðlisfræði gróðurhúsalofttegunda er vel þekkt og engin ástæða til að gera sér upp einhverjar ímyndaðar og staðbundnar sviðsmyndir sem hundsa þau vel þekktu áhrif sem eru að aukast vegna athafna okkar mannanna alveg frá iðnbyltingu og ekki síst síðustu áratugina þar sem losun gróðurhúsalofttegunda hefur bara aukist og aukist.

Sveinn Atli Gunnarsson, 31.12.2013 kl. 00:18

32 identicon

Gaman að þú skulir nefna þennan möguleika Ómar - og þá sérstaklega að þú skulir vera til í verkið :)

Þessi heittrúarhugmynd þín er reyndar ekki ný af nálinni. GISS/NASA hafa plægt í gegnum gamlar hitatiölur frá Íslandi til að lækka (ath. Ómar l æ k k a) hitatölur.

Svona fóru þeir með mæligögn frá Akureyri:

> http://www.klimatupplysningen.se/wp-content/uploads/2013/12/fig2-akureyri.png

Svona hanteruðu þeir mæligögn frá Reykjavík:

> http://www.klimatupplysningen.se/wp-content/uploads/2013/12/fig3-reykjavik.png

Það var auðvitað alltof hlýtt í Stykkishólmi um miðbik síðustu aldar að mati NASA/GISS:

> http://www.klimatupplysningen.se/wp-content/uploads/2013/12/fig4-stykkisholmur.png

Teigarhorn var líka fixað snarlega:

> http://www.klimatupplysningen.se/wp-content/uploads/2013/12/fig5-teigarhorn.png

NOAA hefur líka gengið kerfisbundið til þessa verks og útkoman er þessi:

> http://c3headlines.typepad.com/.a/6a010536b58035970c016767b5bee2970b-popup

Bravó Ómar! Tilgangurinn helgar verkið og það er hugsanlega að hlýna í heiminum þegar búið er að fixa mæligögnin :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 31.12.2013 kl. 00:27

33 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Einn helsti sérfræðingur í "loftslagsvánni" og sá hæst launaðasti í USA er hér til umfjöllunar í þætti Jon Stewart.

Yfirmaður hans er einnig skoðaður og viðtal við hann í þættinum. Hvort á maður að hlæja eða gráta?

Endilega kíkið á þetta, umfjöllunin byrjar eftir ca. 2 mín:

http://www.thedailyshow.com/full-episodes/wed-december-18-2013-steve-carell--will-ferrell--david-koechner--paul-rudd

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.12.2013 kl. 01:11

34 Smámynd: Trausti Jónsson

Það er mikil mæða að lesa þessa umræðu - ekkert hefur gerst í henni í 25 ár. Menn halda því enn blákalt fram að skoðanir á hnattrænum umhverfisbreytingum séu aðeins tvær - og það sem verra er að engar aðrar séu mögulegar. Eins og margoft hefur komið fram á hungurdiskum áður er þessi einföldun afskræming ein og útilokar vitlegar umræður um málið. Er ekki hægt að mótmæla fyrirhuguðum róttækum samfélagsaðgerðum út frá einhverjum vitlegri forsendum heldur en að vitna sífellt í sömu tuggurnar um meint hlýindi á miðöldum eða fölsun á gögnum? Slík einhyggja mun aðeins leiða til þess að við fáum hvort tveggja, vondar veðurfarsbreytingar og vont samfélag. Þetta stefnir allt í gamalkunnugan farveg grískra harmleikja. Því miður piltar - þið verðið að bjóða betur (- takið eftir því).

Trausti Jónsson, 31.12.2013 kl. 02:15

35 identicon

Já, við tökum eftir því Trausti - og gleðilegt og farsælt nýtt ár með þökk fyrir góða pistla. En þá verður þú líka að leggjast á árarnar. Þú ert nefnilega ekki bara áhorfandi að meinta gríska harmleiknum þínum heldur einn aðalleikarinn á íslenska sviðinu.

Það er erfitt að bjóða betur en allt að 6°C hækkun á meðalhita á Íslandi á þessari öld - sérstaklega m.t.t. að þú varst að enda við að staðfesta að "meðalhitinn í ár (2013) er 3,9 stig" sem er 1,2°C(!) lægra en hitatoppurinn á öldinni og jafnframt kaldasta árið á öldinni (þó að þú virðist eiga afskaplega erfitt með að viðurkenna það).

Það er nefnilega enginn dómari í eigin sök Trausti og vandamálið hjá þér virðist vera að þú ert báðum megin við borðið þegar kemur að hlutlausri úttekt á yfirboðum þeirra pólitísku (taktu eftir því - ekki vísindalegu) afla sem hamra á hnatthlýnun af manna völdum.

Þú virðist samt gera þér grein fyrir kjarna þessa máls þegar þú skrifar: "Er ekki hægt að mótmæla fyrirhuguðum róttækum samfélagsaðgerðum út frá einhverjum vitlegri forsendum..."(sic) Tilgátan um hnatthlýnun af manna völdum felur sannarlega í sér ákall um róttækar samfélagsaðgerðir - boð og bönn - sem aldrei fyrr. Vandamálið er bara, og taktu eftir því Trausti, þessi tilgáta er byggð á sandi - hún hefur ekki verið sönnuð.

Um þá staðreynd, Trausti, hverfist þessi meinti gríski harmleikur þinn. Ef við eigum að bjóða betur þá væri ágætis byrjun að kannast við þá staðreynd.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 31.12.2013 kl. 09:37

36 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Kannski spurning mín í #29 sé of erfið, en  advocatus diaboli  heldur áfram...

Hjálpar það ef við skiptum ástæðum þessa að stígandi er í ferlinum í 3 flokka:

1) Innri áratuga langar sveiflur í kerfinu (hafstraumar, hafís, lægðabelti,.....)

2) Ytri áratuga langar sveiflur sem hafa áhrif (breytileg sólgeislun þar með talið UV, breytilegur sólvindur/geimgeislar, breytilegur styrkur segulsviðs er berst með sólvindinum,...)

3) Losun manna á koltvísýringi.


Hve þungt vegur hver þáttur (t.d. 33%, 33%, 33%)?

[Í #29 var þáttur 3) fjarlægður en þættir 1) og 2) skildir eftir]

Ágúst H Bjarnason, 31.12.2013 kl. 10:00

37 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Spurningar mínar í #29 og #36 eru hlutlausar og eingöngu settar fram til að reyna að skilja betur hvað liggur að baki langtíma hitafarsbreytingum til hækkunar og jafnvel lækkunar. 

Þegar menn hafa velt þessum spurningum í #36 fyrir sér, þá er auðveldara að svara spurningunni í #29.





Ágúst H Bjarnason, 31.12.2013 kl. 10:07

38 identicon

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 31.12.2013 kl. 11:05

40 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ágúst H. Bjarnason:

Þegar maður skoðar "efasemda" sögu þína Ágúst, þá er ekki hægt að segja að þínar vangaveltur séu hlutlausar. Enda flokkast aðrir "efasemda" bræður inná blogg þitt og vegsama þessar skoðanir með þá skoðun í farteskinu að sennilega séu loftslagsbreytingar ekki af mannavöldum (sólin, geimgeislar eða annað náttúrlegt) eða þegar fýkur í flest skjól að ef svo sé þá sé það bara að litlu leiti af mannavöldum (dejavu hér að ofan) - og þá væntanlega ekki mikið vandamál.

En allavega, þá hefur þú stundað þessar "efasemdir" síðan allavega 1998 og enn hefur ekkert komið fram sem styður þínar skoðanir um hverfandi áhrif manna á hnattræna hlýnun. Þú hefur farið í gegnum sólarfasann, geimgeislafasann, hafísútúrsnúninga o.s.frv. Í hvert skipti sem að hafís magnið á Norðurslóðum sveiflast örlítið upp á við til skamms tíma, þá er það básúnað í þínum vettvangi með klappkórinn í bakgrunninum...ekki minnst á leitni til lengri tíma eða annað sem að ekki passar inn í "efasemdir" þínar. Ég held persónulega að þú ættir að setja þér það markmið fyrir árið 2014 að hætta "efasemdum" um loftslagsvísindi - ég myndi allavega taka slíku skrefi fagnandi. Það yrði allavega áramót heit sem væri til gagns.

Það er alveg ljóst að það eru náttúrulegar sveiflur á alla mögulega vegu sem hylja hnatthlýnunina og áhrif hennar, m.a. margir punktar sem Trausti hefur t.d. komið fram með á þessum vettvangi hér og svo líka margt sem við höfum skoðað á loftslag.is. En að þú Ágúst notir t.d. einhliða smávægilegar "jákvæðar" sveiflur í hafís aftur og aftur til að leggja "rök" fyrir máli þínu er ekki áhugavert til lengdar.

En allavega gleðilegt ár, með von um gleðileg áramótaheit frá sem flestum hörðum "efasemdamönnum" og ekki síst frá "efasemdamanni" númer 1, honum Ágústi :)

Sveinn Atli Gunnarsson, 31.12.2013 kl. 18:33

41 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Gleðilegt ár minn kæri Sveinn Atli

Ágúst H Bjarnason, 31.12.2013 kl. 19:19

42 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Við getum alveg verið að jagast um þetta fram á næsta ár!

Sigurður Þór Guðjónsson, 31.12.2013 kl. 21:43

43 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ég á von á að vísindaafneitun varðandi loftslagsmálin muni halda áfram næstu árin eða áratugina - en smám saman mun fjara undan þeim málatilbúnaði - það er mín spá Sigurður. Það virðist vera auðvelt nú um stundir og líklegt til þess að draga að sér athygli - Ágúst veit það náttúrulega...

En ég vona samt að Ágúst muni snúa sér að öðru en að sá "efasemdum" í huga fólks á nýju ári - það yrði góð breyting. Ég skora hér með á hann að snúa við blaðinu og hætta að eltast við málstað "efasemda" á næsta ári ;)

Sveinn Atli Gunnarsson, 31.12.2013 kl. 21:51

44 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Og nú er nýja árið komið og ég óska öllum jögurum fjær og nær gleðilegs árs með gríðarlegum hitabylgjum!

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.1.2014 kl. 01:15

45 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Skelfing er þetta fyrirbrigði yfirlætislegt og leiðinlegt

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.1.2014 kl. 08:00

46 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Nei Gunnar mættur, einn af klappstírum afneitunnarinnar - mæli með að hann hætti að leggja orð í belg nema hann hafi eitthvað málefnalegt að segja - áramótaheit kannski?

En hvað um það - gleðilegt ár til þín líka Gunnar ;)

Sveinn Atli Gunnarsson, 1.1.2014 kl. 09:20

47 identicon

... og sveinninn ungi mættur í trúboðið á nýju ári!

Ég hélt sem snöggvast að kappinn sæti pikkfastur í hafís við Suður-heimskautið að skima eftir jólasveininum :)

Hó, hó, hó - Happy New Year!

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 1.1.2014 kl. 14:20

48 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Dejavu:

Nei Hilmar mættur, einn af klappstírum afneitunnarinnar - mæli með að hann hætti að leggja orð í belg nema hann hafi eitthvað málefnalegt að segja - áramótaheit kannski?

En hvað um það - gleðilegt ár til þín líka Hilmar ;)

Sveinn Atli Gunnarsson, 1.1.2014 kl. 16:40

49 identicon

Þakkir fyrir hnatthlý orð félagi. Varðandi áramótaheit þá væri það hugsanlega að kenna þér svolítið í íslenskri málfræði og stafsetningu.

Orðið "klappstýra" er ritað með ý (stjóri > stýra). Orðið er kvk (kvenkyns) og þ.a.l. (þar af leiðandi) notað um kvenmenn. Þegar um karlmenn er að ræða nota menn orðið "klappstjóri".

En þú mátt auðvitað halda áfram að bulla á íslensku á nýju ári mín vegna SAG :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 1.1.2014 kl. 21:43

50 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir athugasemdina Hilmar - betra að gera eina og eina stafsetningavillu þegar skrifaðar eru snöggar athugasemdir sem ekki eru sérstaklega ritskoðaðar, heldur en að vaða í villu afneitunnar varðandi loftslagsvísindi...en allavega "klappstjórar" afneitunarinnar láta ekki að sér hæða þegar kemur að því að vaða villu og reyk varðandi loftslagsvísindin.

Sveinn Atli Gunnarsson, 1.1.2014 kl. 21:51

51 identicon

Þetta kann ég að meta félagi. Maður er aldrei of gamall að taka smá tilsögn ;)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 1.1.2014 kl. 22:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • w-blogg220724b
  • w-blogg220724a
  • w-blogg210724
  • Slide2
  • Slide1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 44
  • Sl. sólarhring: 335
  • Sl. viku: 2760
  • Frá upphafi: 2378336

Annað

  • Innlit í dag: 41
  • Innlit sl. viku: 2448
  • Gestir í dag: 41
  • IP-tölur í dag: 41

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband