Enn ein kraftlægðin

Nú er enn ein kraftlægðin að dýpka suðaustur af landinu. Frá hádegi á laugardegi til hádegis á sunnudag á hún að dýpka úr 998 hPa niður í 966 eða um 32 hPa á sólarhring. Þótt níuhundruðsextíuogeitthvaðlægðir sjáist oft í september er það samt í dýpra lagi.

Þrýstibrattinn fyrir vestan lægðina er líka með þeim öflugri sem sjást á þessum árstíma. Við sjáum hann vel á spákorti úr harmonie-líkaninu sem gildir kl. 21 á sunnudagskvöldi (15. september).

w-blogg150913a

Jafnþrýstilínurnar eru dregnar á 2 hPa bili og er um 32 hPa þrýstimunur á milli Austfjarða og Vestfjarða. Kortið verður mun skýrara sé það stækkað. Lituðu svæðin sýna úrkomuna og kvarðinn segir frá úrkomu á klukkustund. Mörk á milli blárra og grænna lita er sett við 5 mm/klst. Það er hellirigning, þar sem úrkoman er mest á hún að verða meir en 10 mm/klst. Frostlaust er við sjávarmál en hér verður ekki giskað á í hvaða hæð fer að snjóa.

Við sjáum líka ótrúlega þéttar jafnþrýstilínur yfir Vatnajökli og þar blæs vindur þvert á línurnar. Þetta sýnir fallvind á jöklinum sunnanverðum. Við látum aðra um að giska á hvort hann nær niður á  þjóðveg eða í byggðir en Veðurstofan nefnir meir en 40 m/s í hviðum.

En aftur að þrýstibrattanum. Hann er eins og áður sagði um 32 hPa yfir landið, það eru rúm 6 hPa á hverja 100 kílómetra. Sé það slumpreiknað yfir í þrýstivind fást út um 60 hnútar (30 m/s). Gömul þumalfingursregla segir að með því að reikna þrýstimun yfir eina breiddargráðu fáist þrýstivindur í hnútum með því að margfalda útkomuna með tíu. Í slumpi okkar dugar að segja að breiddargráðan sé 100 km (breið).

Næsta þumalfingursregla segir að mestu vindhviður séu varla mikið meiri en þrýstivindurinn, í þessu tilviki 60 hnútar eða 30 m/s. Við sjáum að þrýstilínurnar eru þéttari austanlands heldur en yfir Vesturlandi. Ef við sleppum ósköpunum í fallvindinum sýnist sem um 9 hPa munur sé yfir 100 kílómetrabilið frá mynni Eyjafjarðar austur á Melrakkasléttu. Samkvæmt þumalfingri gefur það um 45 m/s sem þrýstivind (90 hnúta).

En hvað með vindinn við jörð? Yfir sjó er gjarnan miðað við að meðalvindur sé um 50% af þrýstivindi eða heldur meir - hér þá um 23 m/s. Skoðum við kortið og lítum á vindspána sést af örvunum að vindi úti af Norðurlandi er spáð á bilinu 20 til 23 m/s - ekkert fjarri þumalfingursreglunum. Þar sem vindur blæs framhjá skögum eða yfir hæðir á ströndinni gæti hann verið meiri.

Yfir landi er vindur yfirleitt minni en 40% af þrýstivindi - oftast mun minni. En í raun er mjög erfitt að segja til um það hvert hlutfallið er hverju sinni á hverjum stað. Það er á mörkunum að líkönin ráði við það. Reyndar er það almennur sjúkdómur að líkön spá stríðum vindi yfir landi ekki vel - svokallað hrýfi segir til um núning á milli lands og lofts. Hrýfi í líkönum er oftast miðað við skóg, þéttbýli eða vel gróið land, en ekki berangur eins og algengur er hérlendis. Landslag hefur líka gríðarleg áhrif sem oft eru vanmetin af líkönum. Nú gætu lesendur borið saman þann vindhraða sem líkanið spáir kl. 21 á sunnudagskvöld og raunvindhraðann þar sem þeir eru staddir.

En mölum aðeins meir um vindinn og lítum á 500 hPa kort sem einnig gildir kl. 21 á sunnudagskvöldið 15. september. Þetta er tyrfnari texti og ekki víst að allir vilji lesa lengra.

w-blogg150913b

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindur sýndur með hefðbundnum vindörvum en hiti í lit. Grænu svæðin og þau bláu eru kaldari en þau brúnu og rauðu. Kvarði og vindörvar skýrast mjög sé kortið stækkað.

Vindur úti fyrir austanverðu Norðurlandi er svipaður að styrk og er við jörð á kortinu að ofan og þar af leiðandi nokkru minni heldur en þrýstivindurinn í neðstu lögum. Hitafar undir fletinum á kortinu ræður því hvort eða hvernig vindar verða neðar. Við sjáum að á suðvesturhluta kortsins er gríðarlegur vindur, 35 til 45 m/s. Hans gætir ekki við jörð vegna þess að hitasviðið jafnar hann út, aukinni hæð fylgir aukinn hiti.

Þetta sama á sér stað austan Íslands en þar hækkar flöturinn til vesturs og hitinn gerir það líka. Hitabrattinn dregur úr vindi þannig að hann er lítill orðinn við jörð. Frá strönd Austfjarða og vestur fyrir land fellur hiti hins vegar á sama svæði og hæðin vex. Það þýðir að vindur vex niður á við.

Að lokum skulum við taka eftir því að á efra kortinu stóð þrýstivindurinn úti af Norðausturlandi beint úr norðri (úr norðnorðvestri við sjó vegna núnings) en í 500 hPa stendur hann af norðnorðaustri eða jafnvel norðaustri. Snýst sólarsinnis með hæð - það þýðir að hlýrra loft er í framsókn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 22
  • Sl. sólarhring: 65
  • Sl. viku: 420
  • Frá upphafi: 2343333

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 378
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband