Molar um 20 stiga hita í Reykjavík

Tuttugu stig eru svo sannarlega sjaldséð í Reykjavík. Hámarkshiti hefur þar verið mældur daglega frá því í maí 1920 og eru aðeins 54 dagar á 93 sumrum sem státað hafa 20 stigunum. Rétt rúmlega annað hvert ár að meðaltali. En 20 stiga sumrin eru ekki nema 28 - þriðja hvert ár. Á Akureyri eru sjö dagar á ári (að jafnaði) tuttugustigadagar og aðeins 4 sumur af 76 eru tuttugustigalaus.

Síðustu tíu ár (2003 til 2012) hafa verið gæf Reykvíkingum því átta af þeim hafa verið tuttugustigasumur, en aðeins er þriggja að vænta sé tekið mið af langtímameðaltalinu. Engin samfelld tíu ára tímabil önnur hafa verið jafngæf og hin síðari ár.

Árið 2004 voru tuttugustigadagarnir fimm og fjórir árið 2008. Á síðustu tíu árum eru tuttugustigadagarnir alls 16 og hafa aldrei verið svo margir á tíu árum. Næst þessu kemst tímabilið 1936 til 1945 með fjórtán daga. Þar af voru sjö tuttugustigadagar í Reykjavík árið 1939 og hafa aldrei orðið fleiri á einu sumri.

Árið 1939 á líka síðasta tuttugustigadaginn í lok sumars, 3. september. Sá fyrsti að vori kom 14. maí 1960.

Lengst hafa liðið 16 ár á milli tuttugustigadaga í Reykjavík, 5844 dagar frá 8. júlí 1960 til 9. júlí 1976. Menn mega gjarnan leggja þessa tölu á minnið. Eins og minnst var á í Akureyrarpistlinum munaði þó litlu að þessi röð slitnaði þegar hitinn fór í 19,9 stig 5. ágúst 1969.

Næstlengsta biðin var frá 31. júlí 1980 til 27. júlí 1990, tíu ár eða 3647 dagar. Biðin var nærri því eins löng frá upphafi hámarksmælinganna 1920 og fram til þess tíma að hámarksmælirinn sýndi 20 stig í fyrsta sinn, 6. júlí 1927.

Sæmilegar heimildir um hámarkshita eru einnig til á tímabilinu frá 1885 til 1907 en þá var reyndar enginn hámarksmælir á staðnum, en lengst af síriti sem lesa mátti af hæsta hita dagsins með talsverðri nákvæmni. Á þessu 23 ára tímabili fór hiti 12 sinnum í 20 stig, en tuttugustigaárin voru hins vegar aðeins sex - rétt eins og langtímameðaltalið 1920 til 2012 gefur til kynna.

Elta má uppi þá daga þegar hiti á athugunartíma náði 20 stigum þótt ekki væri hámarksmælir á staðnum. Leit á tímabilinu 1907 til 1919 skilar fjórum tuttugustigadögum - en trúlega hafa þeir verið fleiri.

Hitamet Reykjavíkur er nýlegt, frá 30. júlí 2008 en þá mældist hámarkshitinn á mönnuðu veðurstöðinni 25,7 stig. Næstmestur mældist hitinn 11. ágúst 2004, 24,8 stig, rétt marði að slá við meti síritans gamla frá 1891, en það var 24,7 stig.

En hámarkshitamælingar eru einnig gerðar á þremur sjálfvirkum stöðvum í Reykjavík. Tvær þeirra eru í reit Veðurstofunnar. Þær telja að mestu sömu daga og mannaða stöðin, en sjálfvirkir mælar í sívalningum virðast ívið vakrari heldur en mælar í skýli. Hægastur er sjálfvirki mælirinn í skýli sem er opnað í mesta lagi einu sinni á dag.

Á tímabilinu árið 2000 til 2012 voru 17 tuttugustigadagar á mönnuðu stöðinni, en 20 á sívalningssjálfvirku stöðinni. Á tímabilinu frá 2007 til 2012 voru 10 tuttugustigadagar á mönnuðu stöðinni, 13 á sívalningsstöðinni, en 9 á þeirri sjálfvirku í skýlinu.

En einnig er athugað á Reykjavíkurflugvelli. Svo vildi til að lítillega vantar þar í hámarksmælingar í hitabylgjunni miklu í ágúst 2004, en frá 2007 að telja eru tuttugustigadagarnir á flugvellinum fjórtán.

Um tíma voru hámarksmælingar gerðar við rafmagnsstöðina við Elliðaár og sömuleiðis á Víðistöðum í Hafnarfirði. Þær eru aðgengilegar frá 1949 til 1960 á Elliðaárstöðinni, en frá 1942 til 1960 á Víðistöðum. Eru þessar stöðvar ekki alveg sammála Reykjavíkurstöðinni um dagana.

Góður dagur með 22,7 stiga hita kom á Víðistöðum þann 1. júlí 1943, en þá var hámarkshiti í Reykjavík 19,0 stig. Dularfyllri er 10. júní 1947, Víðistaðir segir hámarkshitann hafa orðið 21,3 stig en þann dag var hámarkshiti í Reykjavík ekki nema 11,8 stig. Þetta er eitt fjölmargra atriða sem athuga ætti betur í listunum.

Á sjötta áratugnum eru Elliðaárstöð og Víðistaðir sammála um að 20. júlí 1953 hafi verið tuttugustigadagur og sömuleiðis 24. júní 1959. Í báðum þessum tilvikum náði Veðurstofan 19 stigum rúmum.

Listi um tuttugustigadaga í Reykjavík 1891 til 2012 er í viðhenginu. Athuga ber að hámarksmælir kom ekki á stöðina fyrr en í maí 1920.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Svo var Hólmur við Rauðhóla. Hann mældi 22,7 stig 8. júlí 1963 þegar Reykjavíkurflugvöllur var bara með 18,7 stig sem mældist eftir kl. 18.

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.6.2013 kl. 13:31

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka fyrir að minna á Hólm. Mógilsá, Korpa - og að ég held meira að segja Straumsvík eiga staka tuttugustigadaga sem ekki mældust á móðurstöðinni í Reykjavík. Svo auðvitað sjálfvirku stöðvarnar á svæðinu - líka Skálafell er það ekki?

Trausti Jónsson, 9.6.2013 kl. 01:53

3 identicon

Þetta sýnir eins og við var að búast að 20 stiga dagarnir í Reykjavík eru líklega talsvert fleiri en "móðurstöðin" í Reykjavík telur enda er hún uppi á hæð, opin fyrir veðri og vindum.  Hún sýnir því kannski ekki alltaf raunsanna mynd af hitanum í borginni eins og hinir ýmsu mælar sýna.  Það sama á ekki við víða úti á landi þar sem stuðst er við sjálfvirka mæla, sem stundum eru staðsettir á "vafasömum" stöðum, við malbikuð stæði eða inni í rjóðrum.  Samanburðurinn á milli þessara stöðva og mönnuðu stöðvarinnar á Bústaðaveginum gefur því oft ekki rétta mynd.  Þar að auki væri fróðlegt að sjá hversu lengi 20 stigin standa og hvernig vindafarið er.  Mín tilfinning er sú að oft sé ansi hvasst á Norðurlandi þegar hitinn nær 20 stigum og ef vindurinn er ekki til staðar sé hafgolan skammt undan þannig að 20 stigin staldra kannski stutt við.

Hefur þú spáð í þetta Trausti?

Haukur E. (IP-tala skráð) 10.6.2013 kl. 10:22

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Haukur, jú. ég hef spáð í þetta flestallt.

Trausti Jónsson, 11.6.2013 kl. 01:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • w-blogg300325a
  • w-2008-hitabylgja-rvk-linurit
  • Slide13
  • w-2008-hitabylgja-rvk-linurit
  • tx rvk 300708 arason i08m afrit

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 113
  • Sl. viku: 1608
  • Frá upphafi: 2457357

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1456
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband