Hitasveiflurnar á laugardaginn (13. apríl)

Hvaða hitasveiflur? Flestir koma sennilega af fjöllum. Í lok dags á laugardaginn var (13. apríl) kom í ljós að hæsti hiti á landinu þann daginn hafði mælst á sjálfvirku stöðinni á Mánárbakka og næsthæstur í Grímsey. En hámarkshitinn á mönnuðu stöðinni á fyrrnefnda staðnum var aðeins 2,6 stig. Um þetta spurði Óskar Sigurðsson í athugasemd á hungurdiskum, fleiri voru líka frekar hissa og ritstjórinn líka.

Hér er litið aðeins betur á málið. Til þess notum við athuganir sjálfvirku stöðvanna sem gerðar eru á 10-mínútna fresti. Hiti er reyndar mældur á mínútufresti og hæsti hiti innan hverra næstliðinna 10-mínútna er talinn sem hámark þeirra. Oftast er sáralítill munur á hámarki og lágmarki innan sömu tíu mínútna. Það kemur frekar á óvart að hitinn í hefðbundna skýlinu á Mánárbakka skyldi ekki vera nær hámarki sjálfvirku stöðvarinnar - en nokkur munur er á viðbragðstíma skýlis og hólka.

Fyrst er Mánárbakki.

w-blogg160413a

Lóðrétti ásinn sýnir hitann, en sá lárétti tíma sólarhringsins. Fyrstu 7 klukkustundirnar er lítil hreyfing á hitanum, en þá fellur hann snögglega um nærri 2 stig áður en hann fer að stíga jafnt og þétt. Rétt fyrir klukkan 14 stekkur hann upp mörg stig og dettur síðan niður aftur skömmu síðar. Allur atburðurinn stendur innan við 30 mínútur. Rétt fyrir klukkan 16 hækkar hitinn snögglega aftur og síðan jafnt og þétt til klukkan 16:50 og fer þá í hámark dagsins 6,2 stig. Á næstu 10-mínútum fellur hann síðan niður í 0,9 stig.

Næsta mynd sýnir það sama - en rakastigið að auki (hægri kvarði í prósentum).

w-blogg160413b

Grái ferillinn er hámarkshitinn eins og áður, en sá rauði sýnir rakastigið. Við sjáum greinilega að rakastigið fellur umtalsvert um leið og hitatopparnir tveir ganga yfir. Þessi hegðan bendir ótvírætt til þess að þurrara og hlýrra loft að ofan sé að blandast niður í stöðvarloftið. Svona sveiflur eru ólíklegar sé einhver teljandi vindur (þó eru til dæmi um það) og líka ólíklegar í stafalogni.

Síðasta myndin sýnir hitabreytingar í Grímsey, í Ólafsfirði og við Mývatn þennan sama dag. Athuga ber að hitakvarðinn er annar vegna þess hversu mikið frostið er við Mývatn. Hitasveiflurnar sýnast því minni heldur en á Mánárbakkaritunum.

w-blogg160413c

Í Grímsey kemur aðeins einn hitatoppur, milli klukkan 13 og 14. Stærð hans er um 5 stig, heldur minni en á Mánárbakka. Grímsey er líka langt frá öllum fjöllum en nærvera þeirra stóreykur á líkindi atburða af þessu tagi.

Á Ólafsfirði eru stóru topparnir þrír - og að auki er ámóta áberandi dæld (lágmark) um kl. 20. Við Mývatn er einn toppur mestur (um 5 stiga sveifla). Hann gengur yfir um klukkan 13.

Nokkuð langt var frá því að tölvuspár næðu að spá þessum hita. Hins vegar fór kröpp smálægð til vesturs fyrir norðan land fyrr um daginn og í henni var greinilegt mættishitahámark - um 5 stig í lægðarmiðju í 850 hPa-fletinum. Þetta er ekki alveg nóg til að skýra hámörkin í Grímsey og á Mánárbakka. Trúlega hefur slóði af hlýju lofti (sem tölvurnar sáu ekki) legið yfir norðurströndinni í kjölfari lægðarinnar og honum slegið niður fyrir hitahvörf (jafnvel fleiri en ein yfir landi) sem hafa þá legið yfir svæðinu.

Skemmtilegt ekki satt? En er þetta algengt? Já, furðualgengt þegar litið er á landið í heild og stundum stórgerðara heldur en þetta dæmi sýnir. En þetta er sjaldgæft í Grímsey. Þakka Óskari fyrir að ýta á málið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Slide16
  • Slide15
  • Slide14
  • Slide13
  • Slide12

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.3.): 98
  • Sl. sólarhring: 181
  • Sl. viku: 1660
  • Frá upphafi: 2452766

Annað

  • Innlit í dag: 92
  • Innlit sl. viku: 1534
  • Gestir í dag: 91
  • IP-tölur í dag: 91

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband