Dálítið öfugsnúið

Vestanáttin er langt undan eins og oftast í vetur. Sem stendur ber mest á norðan- og sunnanáttum á þeim svæðum sem við erum vön að sjá á veðurkortum - en svo virðist sem norðaustan- og austanátt taki við. Þegar ritstjórinn var að alast upp þótti honum það hin eðlilega marsveðrátta með úrkomuleysi, þurrkum og sinubrunum á Vesturlandi.

Marsmánuður ársins í ár skríður nú ákveðið upp eftir meðalháþrýstilistunum - að vísu enn ekki kominn nálægt toppnum en ef svo fer fram sem horfir mætti fara að gefa þrýstingnum meiri gaum. En við lendum enn og aftur í þeirri stöðu að lægðir sem nálgast landið úr hefðbundinni átt lognast út af langt fyrir sunnan land. Rými skapast þó fyrir aðrar tegundir lægða - þær sem koma afturábak úr norðaustri - eða þær sem snarast út úr austanáttinni fyrir sunnan land og fara sömuleiðis í öfuga átt - til vesturs. Það getur verið gaman að fylgjast með slíku í fylgd háupplausnarveðurlíkana. Fyrr á árum réðst illa við greiningu á þessum fyrirbrigðum.

Við skulum líta á sjávarmálsspána frá evrópureiknimiðstöðinni og gildir hún klukkan 6 á mánudagsmorgni.

w-blogg170313

Litafletir sýna úrkomu en strikalínur hita í 850 hPa. Engin alvöruvestanátt er á kortinu og við borð liggur að engin sjávarmálsvestanátt sé á Atlantshafi fyrr en langt suður á suðurhveli jarðar. Staða sem þessi er einna algengust seint í apríl og byrjun maí. En vorið er þó varla komið? Nei, ekki enn. Hæðin yfir Grænlandi er merkt sem 1042 hPa - við tökum hóflegt mark á tölum yfir hálendi jökulsins en þrýstingur er líka yfir 1040 hPa við ströndina þar norðausturaf. Það tökum við gott og gilt.

Næsta lægð sem fer hjá landinu er sú sem á kortinu er við Norður-Noreg. Hún böðlast einhvern veginn til suðvesturs - með óljósri miðju og fer yfir landið eða nærri því á þriðjudagskvöld eða aðfaranótt miðvikudags. Vel má vera að hún verði orðin að lægðardragi. Á undan henni er kaldur gjóstur frá heimskautaslóðum - þykkt spáð niður fyrir 5040 metra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200825b
  • w-blogg200835a
  • w-blogg130825a
  • w-blogg090825e
  • w-blogg090825d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.8.): 93
  • Sl. sólarhring: 119
  • Sl. viku: 892
  • Frá upphafi: 2492020

Annað

  • Innlit í dag: 74
  • Innlit sl. viku: 763
  • Gestir í dag: 60
  • IP-tölur í dag: 59

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband