Þorrahiti í Reykjavík 1949 til 2012 (og fréttir af stöðunni)

Gamla íslenska tímatalið hjarir enn, sumardagurinn fyrsti er enn á sínum stað þótt ýmsir vilji leggja hann af eða flytja til. Væri ekki bara fínt að halda upp á nýjársdag annan janúar?

En látum nöldur eiga sig að sinni og lítum á hitafar á þorra í Reykjavík frá 1949 til 2012.

w-240113

Lóðrétti ásinn sýnir meðalhita á þorra, frá bóndadegi til þorraþræls, sá lárétti markar árin. Þorrinn byrjar alltaf á föstudegi og endar á laugardegi - misgengi er því á milli dagsetninga hins venjulega almanaksárs gregorstímatals og þess íslenska svo skeikað getur viku. Til lengri tíma litið fer misræmið þó ekki úr böndunum vegna þess að aukaviku er skotið inn í íslenska tímatalið á u.þ.b. sjö ára fresti og gregorsárið leggur fram hlaupársdaginn af sinni hálfu. Dagar að baki meðaltalsins á línuritinu fylgja þorranum eins og hann færist til frá ári til árs.

Á myndinni vekja athygli hinir gríðarlega hlýju þorramánuðir 1964, 1965 og 1967. Eini nýlegi þorrinn sem blandar sér í keppnina um þann hlýjasta er 2006. Meðaltal nýju aldarinnar er þó hátt miðað við undangengna kalda áratugi.

En það er erfitt að sleppa stöðu dagsins og lítum á hana í skyndi.

 w-blogg240113a

Þetta er hitamynd af vef Veðurstofunnar frá miðnætti á miðvikudagskvöldi 23. janúar. Hér er „sprengilægð“ dagsins búin að hringa sig upp skammt sunnan Grænlands. En mikill skýjabakki gengur út úr henni til austurs og síðan suðurs og suðvesturs. Við sjáum merkimiða háloftavindrastar í gríðarskarpri hvítri brún skýjabakkans - þar hlýtt færiband nýrrar lægðar.

Nýmyndunin er meira að segja búin að koma sér upp svonefndum „haus“ sem einkennir vaxandi lægðakerfi. En skyldi eitthvað verða úr þessu?

Svarið sést að nokkru leyti á myndinni að neðan sem er í flokki þeirra sem við höfum litið á undanfarna daga. Hún sýnir sumsé lóðréttan stöðugleika í veðrahvolfi (litafletir) og sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur) og gildir á miðnætti, þ.e. á sama tíma og gervihnattarmyndin.

w-blogg240113b

Við sjáum raka fleyginn vel - er e.t.v. ekki alveg orðinn að eiginlegum fleyg heldur er hann frekar eins og tunga. En hér eru engin lág veðrahvörf í nánd - lítið verður því úr þessu, - þótt lægð myndist.

Við bíðum hins vegar spennt eftir næstu stórlægðinni, e.t.v. þeirri mestu í þessari syrpu. Evrópureiknimiðstöðin segir hana munu dýpka um 62 hPa á sólarhring þegar mest verður - það hlýtur að vera nærri meti á þessum slóðum. [Misminnið rámar þó í 70]. Við eigum víst að sleppa að mestu.

En fullsnemmt er að fjalla nánar um þessa nýju lægð - því hún er ekki orðin til. Einu sjáanlegu merkin nú felast í lítilli bylgju sem er á suðausturleið yfir Minnesotaríki.

w-blogg240113c

Kortið sýnir ástandið í 500 hPa um miðnætti á miðvikudagskvöld. Litir sýna þykktina, því lægri sem hún er því kaldara er loftið. Fjólublái liturinn markar svæði þar sem þykktin er minni en 4920 metrar. Lægðardragið er merkt með ör og fylgir það jaðri kuldapollsins til móts við sinn hlýja fleyg sem á að birtast þegar dragið kemst til austurstrandar Bandaríkjanna á fimmtudagskvöld.

Athugasemd 26. janúar: Smávilla leyndist í þorralínuritinu, bætt hefur verið úr því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þessi færsla veitir bestu bókum Agötu Christi harða samkeppni.

Ragnhildur Kolka, 24.1.2013 kl. 09:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • w-blogg160424b
 • w-blogg160424a
 • w-blogg120424c
 • w-blogg120424b
 • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (17.4.): 427
 • Sl. sólarhring: 622
 • Sl. viku: 2520
 • Frá upphafi: 2348387

Annað

 • Innlit í dag: 380
 • Innlit sl. viku: 2213
 • Gestir í dag: 368
 • IP-tölur í dag: 350

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband