Af hræringum á norðurhveli (rétt enn og aftur)

Það ætlar að verða erfitt að slíta sig frá norðurhvelsstöðunni því svo stórgerð er staðan. Hungurdiskar eru því enn við það sama.

Lítum á venjubundið norðurhvelskort 500 hPa-flatarins. Jafnhæðarlínur eru svartar og merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar), því þéttari sem þær eru því meiri er háloftavindurinn. Þykktin er hér sýnd með litaflötum, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli grænu og bláu tónanna er við 5280 metra - meðaltal janúarmánaðar hér á landi er um 5240 metrar.

Kortið gildir kl. 12 á miðvikudag, 23. janúar 2012 og er úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg220113a

Ísland er undir hvítu örinni rétt neðan við miðja mynd. Myndin skýrist mjög við stækkun (smellt). Fyrst eru það aðalatriðin. Heimskautaröstin er nú í suðlægri stöðu, gróflega þar sem svarti hringurinn er á myndinni. Þar er vestanátt ríkjandi. Á heimskautaslóðum er víða austanátt, hér gróflega merkt með hvítum hring - og ör. 

Þegar mikið er um austanáttir í háloftum á norðurslóðum er sagt að AO-fyrirbrigðið sé í neikvæðri stöðu. AO er skammstöfun fyrir alþjóðaheitið Arctic Oscillation - vandræði eru að finna hentuga íslenska þýðingu. Hrá þýðing væri norðurslóðasveiflan - þótt það gangi alveg er ritstjórinn ekki ánægður. Mjög margir erlendir veður- og loftslagsfræðingar eru ekki heldur ánægðir með að kalla þetta sveiflu (oscillation) því það veldur endalausum misskilningi - alveg eins og sveifla á íslensku. Á ensku búa menn jafnframt við þau óþægindi að 90 ára hefð er fyrir notkun sveifluhugtaksins og því sérlega erfitt að losna við það. Ritstjóranum er um og ó að hleypa sveifluskrímslinu lausu á íslensku - vegna þess að einhvers staðar liggur betra íslenskt orð í felum - bíður þess aðeins að verða vakið.

En AO-fyrirbrigðið er - sem hugtak - innan við 20 ára gamalt. Í sinni hreinustu merkingu á það við ástand í heiðhvolfinu, talið jákvætt þegar vestanátt ríkir þar, en neikvætt í áttleysu eða austlægum áttum. Fljótlega var farið að nota það líka um ástand í efri hluta veðrahvolfs - þegar röstin er sunnarlega rétt eins og nú. Ekkert er út á þá notkun að setja.

En lítum nú á hluta myndarinnar hér að ofan (batnar ekki svo mjög við stækkun).

w-blogg220113b

Ísland er hér til hliðar við miðja mynd. Þar er fyrirstöðuhæðin góða enn fyrir austan land, en lægðardrög sækja hægt og bítandi til norðausturs í átt til okkar úr suðvestri. Rauða örin suðvestur í hafi bendir á lægðabylgju sem gæti haft það af að koma úrkomusvæði hingað eftir nokkra daga. Við sjáum vel að í bylgjunni er talsvert misgengi þykktar- og hæðarflata, hlý tunga stingur sér inn til lægri þrýstiflata. Þegar þetta kort gildir er þrýstingur í lægðarmiðju við sjávarmál um 963 hPa og á að fara niður í um 950 hPa þegar lægðin verður við Suður-Grænland.

Þessi bylgja er eina misfellan á öllum suðurjaðri hringrásarinnar í kringum Stóra-Bola, allt vestur til Klettafjalla en þar bendir rauð ör á bylgju þar sem það öfuga á sér stað - kalt loft stingur sér undir til hærri þrýstiflatar. Allt misgengi af þessu tagi er líklegt til afleiðinga.

Lægðin krappa og djúpa sem var fjallað hér um um helgina varð til þegar lágur þrýstiflötur gekk til móts við háa þykkt. Við skulum enn hamra á því að lág veðrahvörf fylgja lágri stöðu þrýstiflata. Sé loftið rakt sem sækir á móti auðveldar það innstungu hlýja loftsins, einfaldlega vegna þess að í dulvarma þess er falin dulinn þykktarauki sem afhjúpast í dulvarmalosun í uppstreymi.

Kuldapollurinn Stóri-Boli verpti stóru eggi sem tók með sér hluta hans út yfir Atlantshaf. Á kortinu hér að ofan hefur hann ekki alveg jafnað sig - það sjáum við af því að lægðarmiðjan (hvítt L við strönd Labrador) er ekki í miðju kuldans (fjólubláa svæðið). Á næstu dögum heldur kuldinn áfram að streyma út yfir Atlantshaf svo ótt og títt að fjólubláa svæðið á að hverfa á rúmum sólarhring frá gildistíma þessa korts talið. Þá er hætt við því að önnur rosalægð myndist yfir Atlantshafinu næstu dagana á eftir. Of langt er þó í það til að hægt sé um að tala.

Norður undir pól er lítill fjólublár blettur - næsti Stóri-Boli. Hann færist í aukana næstu daga, hreyfist suður og tekur trúlega við af þeim fyrri. Einnig er rétt að benda á fyrirstöðuhæð ekki þar fjarri - hún er býsna öflug þótt blálituð sé. Flöturinn liggur þar í yfir 5460 metrum í miðju. Mikill kuldi undir öflugri háloftahæð táknar háan sjávarmálsþrýsting - í þessu tilviki er hann yfir 1060 hPa - ekki mjög algeng tala nema helst yfir Síberíu.

Af heiðhvolfinu er það að frétta að hlýnunaratburðinum mikla er ekki lokið, ójafnvægi er enn mikið. En það nægir að líta á það vikulega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124a
  • w-blogg141124i

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.11.): 36
  • Sl. sólarhring: 428
  • Sl. viku: 2398
  • Frá upphafi: 2410700

Annað

  • Innlit í dag: 29
  • Innlit sl. viku: 2112
  • Gestir í dag: 29
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband