Slatti af mánaðarhitametum fallin

Jú, hluti af hlýja loftinu sem farið hefur yfir landið í dag (föstudaginn 4. janúar) hefur blandast niður í kaldara loft nær jörðu þannig að hitamet hafa fallið. Nimbus hefur þegar gert grein fyrir  þeim safaríkustu á bloggsíðu sinni og er ekki ástæða til að endurtaka það hér. Merkilegast er auðvitað nýtt hitamet janúarmánaðar í Reykjavík - ef það stenst skoðun (vonandi gerir það það). [Í algjöru framhjáhlaupi skal þess getið að nýtt úrkomumet í Reykjavík frá því í síðustu viku stendur nú í sikti aftökusveitar - sem hefur þó enn ekki hleypt af].

Það sem hér fer á eftir hljómar nokkuð framandlega fyrir flesta lesendur en ætti að skiljast við rólegan lestur - nördin drekka aftur á móti nánast hvað sem er. Við lítum stuttlega á hvernig dægurhitamet Reykjavíkur og landsins alls fyrstu hundrað daga almanaksársins dreifast í tíma. Áreiðanleg hámarkshitaröð Reykjavíkur nær ekki lengra aftur en til 1920 (og smásuð í dagsetningum auk tvöfaldra hámarka truflar aðeins). En farið hefur verið yfir eldri mælingar og þar eru hámörk sem ekki er hægt að víkja sér undan.

Fyrir landið allt verður að hafa í huga að stöðvum sem mæla hámarkshita hefur fjölgað gríðarlega á síðari árum og líkur á því að skammvinn, staðbundin hitaskot af fjöllum hitti veðurstöð fyrir eru nú mun meiri en áður. Nú koma myndirnar.

w-blogg050113a

Lárétti ársins sýnir fyrstu 100 daga ársins (hlaupársdagur talinn með), en sá lóðrétti sýnir ártöl. Af súlunum má lesa hversu gamalt met viðkomandi dags er. Það skiptir engu að erfitt er að lesa smáatriði myndarinnar. Aðalatriðið er hins vegar sú staðreynd að metin koma í nokkrum hrinum (séð frá lóðrétta ásnum). Til hægðarauka hafa tvær grænar strikalínur verið settar inn á myndina. Sú efri markar nokkurn veginn upphaf núverandi hlýindaskeiðs sem búið er að hreinsa upp 35 daga - rúmlega þriðjung þeirra. Tímabilið 1926 til 1950 á enn 39 dægurmet, tvö eru enn eldri - frá 1913 e.t.v. þarf að athuga þau nánar. Tímabilið 1951 til 1965 á 17, þar af á 1964 eitt átta daga. Veturinn sá ómar enn í endurminningu eldri veðurnörda. Árið 2004 gerir jafnvel og 2006 einum betur. Kalda tímabilið 1966 til 1996 á aðeins 7 daga á lífi í Reykjavík.

En síðan eru það landsmetin á sama veg.

w-blogg050113b

Hér má sjá að aðeins örfáir dagar lifa frá því fyrir 1950 - aðeins tólf. Þar af eru fjórir frá því fyrir 1920. Hugsanlegt er að fleiri dagar rísi upp frá dauðum við nánari lestur veðurskýrslna tímabilsins. Núverandi hlýindaskeið hefur hirt rétt rúman helming daganna (52). Kuldaskeiðið stendur sig allvel - þá gerði nokkrar góðar en skammvinnar vetrarhitabylgjur um landið norðaustan- og austanvert, t.d. á janúar 1992 átta metdaga á landsvísu.

Hitabylgjan í dag (föstudaginn 4. janúar 2012) hefur þegar stolið degi á Reykjavíkurlistanum og breytt myndinni lítillega. Ritstjóranum sýnist að eldra met þessa dags hafi verið sett 1941. Landsmet 4. janúar er hins vegar frá 2006 þegar hitinn fór í 15,4 stig á Seyðisfirði. Dalatangi á dægurmet 5. janúar 15,7 stig. Það er fjörutíu ára gamalt, frá 1973 (ósköp er tíminn fljótur að líða).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ekki kemur það á óvart þó úrkomumetið í Reykjavík verði afskrifað. Og reyndar ekki heldur hitametið því sjálfvirku stöðvarnar voru fremur slappar. En það er þá helvíti hart að Veðurstofan skuli ekki geta mælt rétt met eða skráð þau rétt æ ofan í æ! Hvað áreiðanleika hámarkshita í Reykjavik fyrir 1920 varðar hlýtur það sama þá að gilda um lágmarkshita og fara þá ansi mörg kuldamet fyrir lítið, t.d. 1918. Mín tilfinning er sú, án minnstu ábyrgðar, að gömlu metin séu svo sem ekki minna áreiðanleg en dagasuðið í nútímanum og árans tvöföldu hámörkin, að ekki sé minnst á þau ár löngu eftir 1920 þegar hámörk sem komu á vssum tíma dagsins voru einfaldlega ekki mæld.     

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.1.2013 kl. 12:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg070125hb
  • w-blogg070125ha
  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.1.): 26
  • Sl. sólarhring: 580
  • Sl. viku: 3781
  • Frá upphafi: 2429203

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 3303
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband