Litið á heimskautaröstina - á laugardaginn

Til tilbreytingar lítum við nú á norðurhvelskort sem sýnir hæð 300 hPa-flatarins - sá er talsvert ofar en í hinn heilagi 500 hPa-flötur þar sem við erum venjulega á ferð. Grunnur kortsins er sá sami og á hinum „venjulegu“ norðurhvelskortum - en það lítur í fljótu bragði talsvert öðru vísi út. Kortið skýrist að mun við smellistækkun og er mælt með því að það sé skoðað þannig kannist menn ekki við sig. Kortið er úr líkani evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir á hádegi á laugardag, 1. desember.

w-blogg301112

Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar. Örsmáar tölur sýna hæð flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Línan sem snertir suðurhluta Kúbu sýnir 9600 metra, en lægsta jafnhæðarlínan er næst miðju kuldapollsins yfir Síberíu og markar 8280 metra.

Á kortinu eru líka litlar vindörvar, þær benda með vindáttinni og eru því fyrirferðarmeiri eftir því sem vindur er hvassari. Til að auðvelda lesturinn eru svæðin þar sem vindurinn er mestur lituð - kvarðinn er til hægri við myndina og sést hann auðvitað betur við stækkun.

Litasvæðin hafa svipað form - eru pulsu- eða bananalaga utan í hryggjum og lægðardrögum. Á myndinni sjást tvær meginvindrastir, með því að tengja pulsurnar lauslega saman kemur heimskautaröstin í ljós. Hún hringar sig um norðurhvelið - ekki alveg samfellt en með miklum sveigjum norður og suður á bóginn - beinlínis öldugangur. Hún er sterkust þar sem veðrahvörfunum hallar mest.

Við sjáum ekki mjög mikið af hinni röstinni en við kennum hana lauslega við hvarfbaugana - hvarfbaugaröstin nyrðri er hér á ferð (heitir „subtropical jet“ á ensku). Í henni er vindur mestur ofar í lofthjúpnum en hesið teygir sig hér niður í 300 hPa yfir Norður-Afríku og annað hes er yfir Indlandi og Himalayafjöllum. Hes birtist stundum líka yfir Karíbahafi eða þar austur af - og sæist reyndar á þessu korti ef við notuðum liti niður í minni vindhraða en hér er gert.

Það er e.t.v. nokkuð sérviskulegt en ritstjórinn hallast að því að nota orðið „skotvindur“ um pulsurnar í stað þess að nota það orð um alla heimskautaröstina og sumir gera. Skotvindur er samkvæmt þessari orðanotkun þýðing á því sem á ensku er kallað „jet streak“. Hungurdiskar hafa reyndar áður fjallað um rastir og skotvinda í gömlum pistli.  

En víkjum aftur að kortinu. Mikill hæðarhryggur er við Ísland og hefur hann hér tekið við af hæðarhrygg þeim sem fjallað var um í nokkrum pistlum á þessum vettvangi fyrr í vikunni. Hlýtt loft teygir sig þar til norðurs hátt í lofti. Skotvindurinn suðaustur af Grænlandi hreyfist með hryggnum í austsuðaustur til Bretlandseyja, nærri því þvert á vindstefnuna. Eins fer því fyrir þessum hrygg eins og þeim næsta á undan - hann slitnar í sundur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 2476
  • Frá upphafi: 2434586

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband