Slitinn sundur

Enn er fylgst með hæðarhryggnum (ómerkilega). Kort dagsins sýnir enn spá einn og hálfan sólarhring fram tímann (frá birtingu pistilsins).

w-blogg281112

Kortið sýnir mikinn hluta norðurhvels jarðar. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar og heildregnar, en þykktin er sýnd með litakvarða. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Greina má útlínur Íslands nærri efsta hluta rauðu strikalínunnar. Kortið skýrist að mun við stækkun.

Háhryggurinn er merktur með rauðri strikalínu og við sjáum með samanburði við kortið í pistlinum í gær að hann hefur sveigst mjög til austurs fyrir sunnan land - en aftur á móti er hefur norðurendinn hreyfst lítið úr stað. Línan sem markar hæðina 5460 metra hefur nú slitnað í sundur og sérstök hæð myndast í norðurenda hryggjarins - slitin frá syðri hlutum hans. Norðurhlutinn gengur að mestu inn í fyrirstöðuhæðina veiku við norðurskautið.

Lægðardragið (blámerkt) vestur undan hefur keyrt á hrygginn og er í hálfgerðri þröng á milli hans og nýja hryggjarins sem lægðardragið við austurströnd Kanada (líka blámerkt) er að ýta upp á undan sér jafnframt því að það dýpkar. Ekki er ólíklegt að nýi hryggurinn slitni líka i sundur á svipaðan hátt og hinn fyrri.

Milli hryggjar og drags er allhvöss suðaustanátt. Þegar hryggurinn slitnar gefur hún eftir og við tekur óráðin vindátt og veður - eftir því hvort hefur betur - hálfdauður hæðarhryggurinn eða leifarnar af lægðardraginu. Þegar komið er í vesturhlíð nýja hryggjarins hvessir aftur af suðaustri - ef trúa má spám verður það á laugardag/sunnudag.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakkir fyrir áhugaverða umfjöllun Trausti. Fimbulkuldinn yfir Kanada og Rússlandi hefur ekki náð hingað enn sem komið er. Í nýrri frétt Mbl. segir Ari Teitsson, ráðunautur á Hrísum í Suður-Þingeyjarsýslu, þennan vetur byrja illa. „Þetta er einhver versta vetrarbyrjun sem ég hef lifað. Ef talið er með óveðrið í septemberbyrjun þá er þetta langversta vetrarbyrjun sem ég hef lifað.“

Veðráttan á Íslandi virðist vera í takt við umheiminn.  Í glænýrri frétt The Telegraph segir að allt bendi til þess að meint hnatthlýnun sé komin í hægagang. Árið 2012 er kaldara en meðaltal síðasta áratugar.

16 ár án hnatthlýnunar!

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 28.11.2012 kl. 22:16

2 identicon

Þakka sérstaklega fyrir þessi kort. Skoða þau með mikilli athyggli. Eitt langar mig að koma á framfæri, þar sem ég fylgist með veðurfréttum í snjónvarpinu alltaf þegar ég get. Þar fara veðurfæðingar yfir veður í Evrópu og síðan fara þeir vestur um haf til Norður Ameríku. Af hverju er ekki aðeins komið við hjá nágrönnum okkar á Grænlandi og t.d. komið með upplýsingar frá einum stað á austurströndinni og svo á einum á vesturströndinni. 

Gunnar Sæmundsson (IP-tala skráð) 28.11.2012 kl. 23:19

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Hilmar:

2012 lítur út fyrir að verða 9. hlýjasta árið frá upphafi mælinga (enn eitt hlýja árið) - sem betur fer er hlýnunin ekki línuleg, heldur er náttúrulegur breytileiki líka hluti af jöfnunni - til að mynda hlutir eins og El Nino og La Nina, ásamt öðrum breytum sem hafa áhrif á hitastig (eins og flestir gera sér grein fyrir). Í tenglinum þínum kemur m.a. eftirfarandi fram:

"Global warming is happening. Yet again we have a year (2012) in the hottest ten years on record.

"It has slowed down but it will speed up at some point."

Trausti - ég biðst velvirðingar á að svara innantómum vangaveltum Hilmars...

Sveinn Atli Gunnarsson, 28.11.2012 kl. 23:49

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka þér fyrir Gunnar. Ég er reyndar oft að kveina yfir því að fá ekki betri sýn yfir norðurslóðir í sjónvarpinu - eins og oft kemur fram í viðfangsefnum hungurdiska. Ég horfi reglulega á síðu sem birtir athuganir frá sjálfvirkum stöðvum í byggðum Grænlands: asiaq.gl Síðan er á grænlensku - en ef maður velur flipann sila og síðan sila maannakkut birtist listi með veðurathugunum í helstu byggðakjörnum Grænlands. Þar skiptast sjálfvirkt á hausar á grænlensku, dönsku og ensku.

Hilmar og Svatli halda áfram að vitna um trú sína - megi þrek þeirra ei bresta - en betra væri samt að menn héldu sig við helgar bækur fræðanna frekar en einhverja pseudepigraphu. 

Trausti Jónsson, 29.11.2012 kl. 01:33

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Trausti - ég veit ekki hvaða trú þú ert að ræða um í mínu tilfelli og ég bið þig vinsamlega að rugla ekki saman umræðulist Hilmars sem ekki byggir á neinu nema persónulegum skoðunum hans og hans skoðanabræðra og mínum svörum sem eiga stoð í það sem vísindin segja um núverandi loftslagsbreytingar... Mínar skoðanir endurspeglast nú bara í samdóma áliti vísindamanna varðandi áhrif aukina gróðurhúsaáhrifa af manna völdum. Það er ekki spurning um trú - heldur að lesa í gögnin og álykta í samræmi við þau. Ég tek mér það bessaleyfi að svara innantómum fullyrðingum Hilmars - jafnvel með því að vitna í annað en vísindagreinar beint í sumum tilfellum.

Ef þú telur að eitthvað af því sem ég vísa í sé ekki "helgar bækur" að þínu mati (hvað sem það nú er) - þá máttu vinsamlega láta mig vita og við getum skoðað það málefnalega - ég nenni ekki innantómum fullyrðingum um að mínar skoðanir (sem eiga sér rætur í vísindaleg gögn) sé trú. Ég frábið mér þess háttar málflutningi Trausti. Ég geri þó ráð fyrir að þú hafir ekki skoðað sérstaklega það sem ég hef fram að færa eða hvers vegna og sért því ekki alveg viss um hvernig umræðan hangir saman...allavega ekki rugla mér og Hilmari saman. Það hlýtur að mega svara "pseudepigraphu" hans án þess að vera sakaður um að stunda trúarbrögð á þessari síðu. Ef við getum ekki svarað ruglinu sem kemur fram á móti loftslagsvísindum (afneitun á vísindum) - þá er nú fokið í flest skjól Trausti. Þetta er kannski ekki rétti vettvangurinn til að vera með þessa umræðu - en það er hér sem Hilmar hefur núna valið að koma fram með bulllýsingar sínar á loftslagsvísindum.

Sveinn Atli Gunnarsson, 29.11.2012 kl. 07:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 132
  • Sl. viku: 2476
  • Frá upphafi: 2434586

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband