Sólskinsmetin á Akureyri og í Reykjavík

Sólskinsstundafjöldi í júlí náði ekki metum í Reykjavík eða á Akureyri. Mjög litlu munaði þó fyrir norðan. Hins vegar er algjörlega einstakt hvað sól hefur skinið á þessum stöðum síðustu þrjá mánuði samtals. Bæði metin eru afgerandi. Í Reykjavík munar 43 stundum á næsthæsta gildi (1924) og því sem nú mældist. En á Akureyri munar 120 stundum. Þetta er svo mikið að ótrúlegt verður að teljast.

Lítum hér á tvö línurit. Hið fyrra sýnir samanlagðan sólskinsstundafjölda á Akureyri í maí, júní og júlí áranna 1928 til 2012.

w-blogg020812

Lóðrétti ásinn sýnir samanlagðan sólskinsstundafjölda mánaðanna þriggja en sá lárétti markar árin. Árið 2012 hrekkur langt upp fyrir öll önnur ár. Áður en þetta gerðist þótti manni 1939 (663 stundir) vera furðuhátt og árið 2000 hafa gert það býsna gott. En hvað skal segja um 2012?

Spurning hlýtur að vakna um hvort hægt sé að trúa þessu. Mælingar á sólskinsstundafjölda eru tiltölulega öruggar - sé vel séð um mælinn - alla vega eru þær ekki undirlagðar mati einstakra veðurathugunarmanna. Skýjahulan er mun vafasamari í mati og vitað er að skýjahula hefur hrokkið til við athugunarmannaskipti á veðurstöð.

En við athugum skýjahulu á Akureyri á sama tíma sömu ár og merkjum á móti sólskinsstundafjöldanum.

w-blogg020812b

Hér sýnir lóðrétti ásinn sem fyrr sólskinsstundafjöldann en sá lárétti markar meðalskýjahulu sama tímabils á hverju ári. Við sjáum að sambandið er furðugott. Okkur léttir þegar það kemur í ljós að parið fyrir árið 2012 er algjörlega sér á báti - langt upp til vinstri á myndinni - en það er á nokkurn veginn „réttum“ stað miðað við það sem vænta má. Línan reiknar sólskinsstundafjölda við skýjahuluna 4,8 áttunduhluta sem 727 klukkustundir. Þetta nægir alveg til að sannfæra okkur um að metið er rétt.

En fleira merkilegt hefur verið á seyði eins og alloft er búið að minnast á hér á hungurdiskum að undanförnu. Júlímánuður hefur aldrei verið svona hlýr á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, en mælingar byrjuðu þar haustið 1921. Hann deilir hugsanlega fyrsta sætinu í Vestmannaeyjum með júlí 1880 - en fjalla mætti um það og samanburð mælinga á Stórhöfða og í kaupstaðnum einhvern tíma næstu daga.

Júlí var líka fjórði mánuðurinn í röð með hlýrra lofti vestan við land (30°V) heldur en austan við (10°V). En um þá merkilegu stöðu var fjallað á hungurdiskum fyrir nokkrum dögum (26. júlí).

Fleira má lesa um júlímánuð og fyrstu sjö mánuði ársins í frétt á vef Veðurstofunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8
  • Slide7

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 169
  • Sl. viku: 1475
  • Frá upphafi: 2465846

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1340
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband