Einfalt efra - flókið neðra

Þegar ekki sést út úr lægðakerfasúpunni er oft gott að líta í upphæðir og fá aðalatriði málsins á hreint. Við lítum fyrst á venjulegt grunnkort, það er að segja spá um yfirborðsþrýsting og úrkomu. Kortið gildir kl. 18 þriðjudaginn 20. mars.

w-blogg200312a

Jafnþrýstilínur eru svartar, úrkoma (6 klst magn) er grænlituð og einnig má sjá jafnhitalínur í 850 hPa-fletinum, bláar þar sem hiti er undir frostmarki, en rauðar þar sem hiti er yfir því. Varla má greina að frostmarkslínan er græn.

Við sjáum að allmikil lægð er við Suður-Grænland en suðvestur af Íslandi er mikið kraðak úrkomusvæða og ef vel er leitað má finna þar bæði lægðir og lægðardrög - og hreyfist allt til landsins. Rauð breið lína sem merkt er A liggur markar ás þar sem hlýjast er í 850 hPa. Sé litið á jafnþrýstilínurnar má sjá að suðvestur af Írlandi beina vindar hlýja loftinu til norðurs. Það er reyndar aðalspurning dagsins hversu nærri Íslandi þessi gusa muni komast og sú næsta (enn utan korts) er líka efnileg.

Spár hafa upp á síðkastið reynt að beina mjög hlýju lofti til landsins - en það hefur oftast hörfað austur af þegar nær hefur dregið í spátíma. Kaldar, stuttar bylgjur úr vestri hafa alltaf náð að sparka því til austurs skammt suður af Íslandi. Gerist það enn á ný?

En eins og oftast að undanförnu hefur mjög kaldur strókur legið suður um Davíðssund vestan Grænlands, þar má sjá mínus 25 stiga jafnhitalínuna  þar sem blái bletturinn er settur á kortið en kalda loftið sækir í suðaustur og síðan til austurs.

Ef vel er að gáð má einnig sjá frekar kalt loft (ekki þó miðað við stað og árstíma) liggja í þröng meðfram austurströnd Grænlands norðan úr Dumbshafi og suður fyrir Ammasalik. Það reynir að ryðjast suður og suðvestur - en ýmist stíflast alveg eða ryðst áfram með miklum látum.

En þetta er allt saman skýrara uppi í 300 hPa í meir en 8 kílómetra hæð.

w-blogg200312b

Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar en við sjáum lika hefðbundnar vindörvar. Auk þess eru svæði þar sem vindhraði er mestur lituð með grænum og bláum lit.

Við sjáum að lægðin við Suður-Grænland reynist vera gríðarlegur, nokkurn veginn hringlaga, kuldapollur með heimskautaröstina á bæði borð. Þetta kerfi ræður veðri hér næstu daga hvað sem minni lægðum og lægðardrögum líður. Röstin mikla vestan við pollinn mun teygja á honum til suðurs og þá aflagast sunnanáttin austan við - hvernig skyldi það fara?  

Þessi pistill ætti vel heima í pistlaröðinni froðuheimar og er ábyggilega sá 101. í þeim flokki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Gæti líka trúað að það sé allmiklu heitara í neðra en i efra.

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.3.2012 kl. 00:59

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Það er nú þetta með mættishitann efra - og svo auðvitað dulvarmann í neðra.

Trausti Jónsson, 20.3.2012 kl. 01:18

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég meinti þetta í guðræknislegum skilningi. Sem sagt bara della í mér! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.3.2012 kl. 01:49

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Nema verið sé að tala um almættishitann hið efra.

Emil Hannes Valgeirsson, 20.3.2012 kl. 13:11

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Dýrð sé í upphæðum...... glaumur og gleði í neðra 

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.3.2012 kl. 16:05

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þú ferð nú alveg örugglega í neðra Gunnar þar sem gróðurhúsahlýnunin mun grilla þig!

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.3.2012 kl. 17:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1055
  • Sl. sólarhring: 1111
  • Sl. viku: 3445
  • Frá upphafi: 2426477

Annað

  • Innlit í dag: 942
  • Innlit sl. viku: 3098
  • Gestir í dag: 914
  • IP-tölur í dag: 847

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband