Af afbrigðilegum febrúarmánuðum - 2

Þá eru það austan- og vestanáttarmánuðirnir. Til að finna þá notum við sömu fimm flokkunarhætti og notaðir hafa verið áður.

1. Mismunur á loftþrýstingi sunnanlands og norðan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1873. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri norðanlands heldur en syðra séu austlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi austanáttin verið. Það eru hins vegar ekki nema 26 mánuðir af 135 sem þrýstingur er hærri sunnan lands en norðan - austanáttin hefur yfirburðastöðu hér á landi.

Það er febrúar 1885 sem er mestur austanáttarmánaða. Eins og sumir kunnu að muna var hann líka mestur norðanáttarmánaða. Mikill fádæmamánuður - eins og nefnt var í norðanáttarpistlinum á dögunum. Febrúar 1966 er í öðru sæti. Þá var óvenju þurrt á Suður- og Vesturlandi en snjóþungt nyrðra. Síðan kemur febrúar 1923 í þriðja sætinu. Það er merkilegt að síðustu þrjátíu árin hafa miklir austanáttarfebrúarmánuðir verið fátíðir.

Vestanáttin var mest í febrúar 1932, en hann er hlýjasti febrúar allra tíma - reyndar með algjörum ólíkindum. Meðalhiti var 5 stig í Reykjavík, 4,6 stig yfir meðallaginu 1961-1990 og 5,2 stig yfir 1931-1960. Á Akureyri var meðalhitinn 6,4 stig yfir 1961-1990. Vestanáttin var næstmest aðeins tveimur árum síðar, 1934 og jafnmikil 1993.

2. Styrkur austanáttarinnar eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær því miður aðeins aftur til 1949.

Hér var austanáttin mest 1966 og næstmest 1957. Vestanáttin var mest 1993 og næstmest 1959. Síðarnefndi mánuðurinn er einnig á meðal þeirra sem eiga sterkustu sunnanáttina.

3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðaustan-, austan- og suðaustanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala austlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874. 

Það er 1923 sem á mesta austanáttafebrúar samkvæmt þessu tali og 1966 er í öðru sæti. Febrúar 1885 fellur í það níunda. Febrúar 1923 hlaut nokkuð góð eftirmæli þótt hann hafi ekki verið alveg skaðalaus, m.a. gerði mikið brim um norðan- og austanvert landið snemma i mánuðinum.

Vestanáttatíðni er reiknuð með því að leggja saman tíðni áttanna suðvesturs, vesturs og norðvesturs. Febrúar 1934 er á toppnum. Gríðarleg úrkomu- og leysingaflóð urðu víða um land og skaðar urðu víða.

4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð. Það er enn febrúar 1966 sem er efstur á austanáttarlistanum og síðan koma 1957 og 1923 sem báðir hafa verið nefndir áður. Mest var vestanáttin að þessu tali í febrúar 1934 (einnig nefndur áður) en 1965 er í öðru sæti en sá mánuður var mjög afbrigðilegur - og hlýr.

5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Enn er 1923 nefndur í fyrsta sæti og 1893 í öðru. Það er sérlega skemmtilegt að janúar 1923 var á toppnum í háloftavestanáttinni - umskiptin yfir í febrúar hafa verið gríðarmikil og snögg. Kannski var það einmitt þarna sem hlýindaskeiðið mikla byrjaði? [Þetta síðasta er óábyrgt]. Langmest var vestanáttin í febrúar 1934, þá var sunnanáttin líka drjúg (ekki þó nærri meti).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 28
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 2475
  • Frá upphafi: 2434585

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 2199
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband