Hlýindin að undanförnu og háloftin (sólarhringsgamall pistill)

Eftirfarandi pistill átti að birtast fyrir sólarhring - en þá var prentsmiðjan lömuð og ekkert hægt að vista. En vonandi hefur ekki slegið svo í textann að hann sé orðinn óætur.

Þótt hlýindin að undanförnu séu ekki ennþá orðin söguleg (eða þannig) er ágætt að staldra aðeins við og líta á meðalástandið í háloftunum undanfarnar fjórar vikur. Þótt óvenju margar lægðir hafi farið hjá hafa þær langflestar verið óttalega aumingjalegar miðað við árstíma (ekki þó alveg allar).

En lítum fyrst á kort. Það sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins dagana 25. janúar til 21. febrúar. Kortið er úr smiðju Bandarísku veðurstofunnar - þökk sé henni.

w-blogg240212a

Það sér auðvitað ekki nokkur maður hvað afbrigðilegt er á þessu korti. Meira að segja sjá þrautþjálfuð háloftaugu ritstjórans varla nokkuð - og þó. Það er 5340 metra jafnhæðarlinan sem liggur um Ísland þvert. Þetta er rúmlega einu línubili (60 metrum) ofan við meðaltal, Ísland hefur færst um rúma breidd sína til norðurs. Hæðarhryggurinn á austanverðu Atlantshafi sem hungurdiskar hafa áður nefnt Golfstraumshrygginn (rauð strikalína) er talsvert öflugri heldur en venja er til. Auk þessa er eitthvað mikið á seyði við Miðjarðarhafið og í Evrópu. Vestanhafs er ástandið ekki jafn óvenjulegt.

Næsta mynd er mun vænlegri fyrir sjónhimnuna, en hún sýnir vikin - hversu mikið hæð 500 hPa-flatarins víkur frá meðallagi árstímans.

w-blogg240212b

Línurnar eru hér dregnar með 20 metra millibili. Það vekur strax athygli að vikin eru jákvæð á nærri því öllu kortinu (heildregnar línur) - mest vestur af Bretlandseyjum. Suðlægar áttir eru talsvert meiri heldur en að meðallagi allt frá svæðinu vestur af Asóreyjum í suðri og til Svalbarða í norðri. Við sjáum líka að hæðarbeygja er á vikalínunum kringum Ísland, frekar fjandsamlegt lægðunum mörgu. Það eru í sameiningu sunnanáttarauki og hár 500 hPa-flötur sem valda hlýindunum hér á landi.

Til hægðarauka er gott að halda þessu tvennu aðskildu og hnykkja á því - annars vegar hlýindunum sem sunnanáttaraukinn gefur og þeim sem hærri 500 hPa-flötur gefur. Sunnanáttaraukinn er eins og hitaveita en líta má á hæðarvikið sem norðurfærslu birgðastöðvarinnar. Að birgðastöðin færist til norðurs tryggir öryggi veitunnar og styrkir svæðið gegn innrásum kuldapolla.

Einu neikvæðu vikin eru yfir Miðjarðarhafi og Evrópu sunnanverðri. Þar eru vikalínur mjög þéttar og sýna mun sterkari aust- og norðaustlægan straum á þeim slóðum heldur en ríkir að meðaltali. Þetta er sannkölluð kuldaveita úr austri og þar að auki hefur birgðastöð kuldans sótt í átt að Miðjarðarhafi með aukinni lægðabeygju. Þetta þýðir að kuldinn hefur náð til Norður-Afríku jafnvel þótt þar sé austanáttarauki ekki svo mikill.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 132
  • Sl. viku: 2476
  • Frá upphafi: 2434586

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband