Losnar um stöðuna

Hlýindi hafa nú staðið að undanförnu og meðalhiti síðustu tveggja vikna nærri hæstu hæðum (þó ekki alveg á tindinum). En nú losnar um stöðuna þegar stór kuldapollur (af ætt Stóra-Bola) æðir til austurs frá Baffinslandi til Noregs á nokkrum dögum.

Hvernig sem á því stendur hefur Baffinslandi og Ellesmereyju haldist illa á Stóra-Bola í vetur. Hann hefur undanfarna viku eða svo virst hafa það nokkuð makindalegt yfir Labrador en nú grípur hann enn eirðarleysi og langar austur um haf - þar sem hann auðvitað veslast upp. Líklega kemur nýr í hans stað fyrir vestan - en það tekur nokkra daga. En við lítum á spá um hæð 500 hPa-flatarins og þykktarinnar síðdegis á morgun (miðvikudaginn 15. febrúar).

w-blogg150212

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru að vanda svartar og heildregnar, en jafnþykktarlínur rauðar, strikaðar. Þar sem jafnhæðarlínurnar liggja þétt er mjög hvasst og þar sem þykktarlínurnar eru þéttar er mikill hitabratti - þykktin segir nefnilega til um það hversu hlýtt loftið er að meðaltali í neðri hluta veðrahvolfsins. Báðar línutegundirnar liggja nokkuð þétt yfir Íslandi, þykktarlínurnar eru þó gisnari og liggja skáhalt á háloftavindinn sem þar með ber kaldara loft til landsins - kalt aðstreymi ríkir. Það þýðir svo aftur að vindátt er vestlægari við jörð en í 5 km hæð.

Um hádegi í dag (þriðjudag 14. febrúar) var kuldapollurinn skammt austur af norðanverðum Labradorskaga (þar sem stendur „nú“) en fer til morguns (miðvikudag) í hring í kringum sjálfan sig. Eftir það æðir hann austur eins og bláu örvarnar sýna, tölurnar marka sólarhringa frá deginum í dag. Síðdegis á fimmtudag er honum spáð vestantil á Grænlandshafi - nýstokknum yfir Grænland - sólarhring síðar (síðdegis á föstudag) á hann að vera fyrir suðaustan Ísland (talan 3) og á laugardag við Noreg (talan 4). Svo er hann úr sögunni.

Við miðju pollsins á kortinu geta skarpsýnir séð votta fyrir 4920 metra jafnþykktarlínunni. Grænland stíflar reyndar framrás hennar - sem og 4980 metra línunnar að mestu en það er samt býsna kalt loft sem kemst yfir á Grænlandshaf. Við fáum að finna fyrir jaðri þess í útsynningséljum strax á miðvikudagskvöld. En svo mikil ferð er á kuldapollinum og stóru lægðardragi sem honum fylgir að suðvestanáttin sem sjá má á kortinu breytist fljótt í sunnanátt og snýst síðan í norðanátt.

Þetta þýðir að kuldi úr norðri getur gusast suður um Ísland. Vonandi stendur hann ekki lengi. Þetta er alla vega orðinn allt of langur þráður til að mark sé á takandi. Hlustið frekar á alvöru veðurspár í útvarpi eða sjónvarpi - eða lesið þær á vef Veðurstofunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Komdu sæll,  ég hef verið að velta því fyrir mér orðinu Útsynningur og útsuður, hvaðan er þetta orð komið?

Með bedtu kveðju

Jón Benediktsson

Jón Benediktsson (IP-tala skráð) 15.2.2012 kl. 20:16

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Mér er sagt að þetta sé ættað frá Noregi - alla vega mjög gamalt. Færeyingar nota líka útsynning um suðvestanátt.

Trausti Jónsson, 16.2.2012 kl. 01:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 56
  • Sl. sólarhring: 111
  • Sl. viku: 2503
  • Frá upphafi: 2434613

Annað

  • Innlit í dag: 50
  • Innlit sl. viku: 2224
  • Gestir í dag: 50
  • IP-tölur í dag: 44

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband