Af afbrigðilegum janúarmánuðum 2 (austan- og vestanáttir)

Fyrir nokkrum dögum var hér fjallað um þrautseigustu norðan- og sunnanáttarmánuðina sem vitað er um hér á landi. Lítum nú á austan- og vestanáttirnar. Eins og áður er flokkað á fimm vegu - með mismunandi gögnum. Þetta efni er varla áhugavert fyrir aðra en mestu veðurnörd. Alla vega man ég ekki eftir neinum sem hefur viljað fá að vita um hvernig ástandið hefur verið í vindáttarýminu þegar þeir fæddust, þótt það ætti að vera jafnlíklegt til áhrifa og blessaðar stjörnuspárnar. - Ja, kannski ætti maður að fara að gera út á þetta í ellinni - eða hvað?

1. Mismunur á loftþrýstingi sunnanlands og norðan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1878. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri norðanlands heldur en syðra séu austlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi austanáttin  verið. Þrýstingur er langoftast hærri norðanlands heldur en sunnan. Af þeim 134 janúarmánuðum sem hér eru teknir til rannsóknar var þrýstingur hærri sunnanlands aðeins 19 sinnum.

En janúar 1943 er mestur austanáttarjanúarmánaða. Vestanlands var mjög þurrt þrátt fyrir að loftþrýstingur hafi verið lágur. Úrkomusamt var eystra.  Síðari heimsstyrjöldin stóð sem hæst árið 1943 og margir muna sjálfsagt enn eftir þessum mánuði. Þetta ár varð að mörgu leyti erfitt hvað tíðarfar varðaði. Janúar 1948 er í öðru sæti og 1969 í því þriðja.

Tveir janúarmánuðir eru jafnir í efsta vestanáttarsætinu, 1935 og 1992. Mjög hlýtt var í þessum mánuðum báðum og státar janúar 1992 af hæsta meðalhámarkshita á veðurstöð, 8,27°C á Seyðisfirði. Þetta þykir manni ótrúlega há tala en almennt má þakka fyrir ef hámarkið nær slíkum hæðum einn til tvo daga í janúar.

2. Styrkur átta eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949.

Hér eru austanáttarmánuðirnir miklu 1943 og 1948 ekki með, en 1969 er í fyrsta sæti ásamt janúar 1994. Vestanáttin var mest 1983 í sérlega eftirminnilegum illviðra- og umhleypingamánuði með endalausum samgöngutruflunum, snjó og hálku. Næstir koma janúar 1957 og 1949 sem báðir eru einnig frægir fyrir snjó og illviðri. Janúar 1992 er í fimmta sæti.

3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðaustan-, austan-, og suðaustanátta lögð saman. Þá fæst heildartala austlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874 en hugmynd um ríkjandi áttir höfum við alveg aftur til 1823. Vestanáttin er metin á sama hátt, summa tíðni áttanna suðvesturs, vesturs og norðvesturs.

Hverjir eru mestu austanáttarmánuðirnir? Jú, 1948 og 1943 sem báðir hafa áður komið við sögu. Þá kemur janúar 1883. Í þeim mánuði var góð tíð og snjó leysti af láglendi. Vestanáttin var aftur á mót mest 1933 og síðan 1935, síðarnefndi mánuðurinn kemur hér aftur í toppsæti.

4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð.

Enn eru 1948 og 1943 í efstu austanáttarsætunum, en mest var vestanáttin 1935 og síðan er 1992 í öðru sæti. Þetta eru óvenjuskýrar línur.

5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Janúar 1948 heldur sínu í austanáttinni, en janúar 1974 er í öðru sæti - ekki nefndur áður. Mest var vestanáttin í háloftunum í janúar 1923 og litlu minni 1935.

Enn er minnt á að vestanátt ríkir í háloftunum yfir Íslandi en austanátt við jörð. Þetta þýðir að yfir landinu er mikill þykktarbratti - það er að segja að mikill munur er á hita neðri hluta veðrahvolfs sunnan og norðan við land. Allgott samband er á milli háloftavestanáttarinnar og þykktarbrattans þannig að því meiri sem vestanáttin er því meiri er þykktarbrattinn. Sé vestanáttin væg - eða þá að austanátt er ríkjandi í háloftum er hann vægari.

Af þeim 140 árum sem endurgreiningin nær til hefur austanátt verið ríkjandi í háloftunum aðeins átta janúarmánuði. Þykktarbrattinn hefur aldrei verið öfugur, það er að segja að alltaf er hlýrra í janúar sunnan við land heldur en fyrir norðan. Varla eru það mikil tíðindi, munurinn var minnstur í janúar 1972, en mestur 1923.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 105
  • Sl. sólarhring: 111
  • Sl. viku: 1854
  • Frá upphafi: 2348732

Annað

  • Innlit í dag: 95
  • Innlit sl. viku: 1625
  • Gestir í dag: 86
  • IP-tölur í dag: 86

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband