Tveir dagar - tvær lægðir

Enn stefna lægðirnar í átt til landsins og fara mikinn. Gallinn er sá að óvissa virðist enn með mesta móti í veðurspám - meira að segja er ekki samkomulag um veður eftir tvo daga - á þriðjudaginn. Rétt er fyrir þá sem eiga eitthvað undir veðri eða hafa í huga ferðalög að fylgjast vel með veðurspám frá Veðurstofunni.

En lítum örstutt á næstu tvær lægðir. Sú fyrri er orðin nokkuð þroskuð og á að fara hér hjá strax á morgun (mánudag) - um 300 kílómetra fyrir vestan land. Ætli við sleppum ekki við versta veðrið - en fátt er öruggt í þeim efnum. Ekki er heldur ljóst hvort einhver hríðargusa er í suðurjaðri lægðarinnar. Við lítum nú á gervihnattamynd sem fengin er af vefsíðu Kanadísku veðurstofunnar (Environment Canada).

w-blogg160112a

Örvar benda á Ísland og Nýfundnaland. Fyrri lægðarmiðjan er merkt sem L1 og eins og sjá má hefur hún náð allgóðum snúningi. Hér tákna gulir og rauðir litir háskreið skýjakerfi. Síðari lægðin er suðaustur af Nýfundnalandi og er reyndar varla orðin til. Þó sjást nú þegar tvö af megineinkennum snarpdýpkandi lægða - brúnin skarpa í norðvesturjaðri skýjaflókans og við sjáum einnig aðkenningu að hausmyndun ofan við staðinn þar sem L-ið hefur verið sett. Þarna er greinilega mikil vindröst í háloftunum með vindsniða til beggja átta.

Það sem spár greinir nú á um er kraftur lægðarinnar L2 - en þær eru nokkurn veginn sammála um braut hennar sem á að liggja yfir vestanvert Ísland á þriðjudagskvöld. Ósamkomulag er því um það hversu hvasst verður og hvort hún veldur vestanhríð á landinu eða ekki. Ekki vita hungurdiskar heldur um það.

En hvers vegna þetta ósamkomulag? Hér er aðeins hægt að giska - og ætli við gerum það ekki þótt jafnliklegt sé að ágiskunin sé mesta bull.

w-blogg160112b

Hér er kort frá evrópureiknimiðstöðinni sem sýnir stöðuna nú þegar pistillinn er skrifaður (um miðnætti aðfaranótt mánudagsins 16. janúar). Þetta er hefðbundin 500 hPa og þykktarspá sem fastir lesendur hungurdiska ættu að vera orðnir vanir. Jafnhæðarlínur eru svartar, heildregnar, í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Rauðar strikalínur sýna þykktina, einnig í dekametrum. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Línan við suðurströnd Íslands sýnir þykktina 5340 metra - ef loftið er blandað gefur hún um 5 stiga hita við jörð. Minna en það þar sem loft blæs yfir frostkalda jörð eða bráðnandi snjó.

Braut lægðanna er sýnd með grænum örvum (athugið að alls ekki er vist að brautirnar verði svona).

Einnig má á kortinu sjá bleikgráa fleti - þeir sýna hvar lægðaiða er mest. Þar eru ýmist borðar eða hnútar. Borðar fylgja háloftavindröstum - afleiðing þess mikla vindsniða sem fylgir röstunum. Hnútarnir koma fram nærri lægðarmiðjum. Hnúturinn við L1 sýnir okkur að þar er lægðarhringrás jafnvel þótt við sjáum ekki lokaða lægð á kortinu. Enginn hnútur er enn við L2 - bara borðar.  

Bláa örin sýnir stefnu kaldasta loftsins á svæðinu það á stefnumót við L2. Þróun hennar virðist fara eftir því hvernig þetta stefnumót heppnast. Hvernig skyldi fara með það? Reiknimiðstöðvar eru ekki sammála.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það hefur myndast andlit rétt fyrir ofan Lið vestan við Grænland, þetta hlýtur að vera mjög sérstakt veðurfyrirbæri ;-)

Lægðin dregur semsagt til sín kalt loft vestan við Grænland og böðlast upp Grænlandssund, það verður geðslegt éljaveðrið hér á miðvikudag eða hitt þó...

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 16.1.2012 kl. 10:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 363
  • Sl. viku: 1833
  • Frá upphafi: 2350569

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 1636
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband