Af afbrigðilegum janúarmánuðum 1

Heldur hefur í dag dregið úr ósamkomulagi reiknimiðstöðva um tíðarfarið. Líkönin eru nú nær einhverskonar málamiðlun og hefur evrópureiknimiðstöðin meira gefið eftir heldur en gfs-spáin ameríska. En við látum þau mál bíða þar til athyglisverð veður í nágrenni okkar eru komin nær okkur í tíma. Þess í stað lítum við á fastan lið hungurdiska um afbrigðilega mánuði og er komið að janúar. Hverjir eru mestu norðan- og sunnanáttamánuðir sem við vitum um? Til að ákveða það notum við sömu fimm flokkunarhætti og notaðir hafa verið áður.

1. Mismunur á loftþrýstingi austanlands og vestan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1873. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri vestanlands heldur en eystra séu norðlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi norðanáttin verið.

Mestur norðanáttarjanúarmánaða er mjög þekktur - janúar 1918. Þá komu nokkrar afburðakaldar vikur og hefur veturinn allur verið kallaður frostaveturinn mikli. Þá mældist lægri hiti heldur en mælst hefur fyrr eða síðar á landinu, -38 stiga frost á Grímstöðum á Fjöllum og í Möðrudal.

Jafnir í öðru til fjórða sæti eru janúarmánuðir áranna 1936, 1945 og 1969. Þeir eru ekki jafnfrægir og janúar 1918 - en eru samt merkilegir fyrir afbrigðilegt veðurlag. Janúar 1936 er t.d. þurrasti janúar sem vitað er um á landinu að minnsta kosti frá 1881.

Janúar 1950 telst mesti sunnanáttarmánuðurinn að þessu tali. Þá var hlýtt en mjög stormasamt - tíð var samt ekki talin slæm til landsins en gæftir voru slæmar. Snjór var lítill. Langt er í mánuðinn í öðru sæti, 1876. Hann fær nær sömu einkunn: Illviðratíð, einkum á Suður- og Vesturlandi. Mjög hlýtt norðaustanlands. Janúar 1933 og 1942 koma síðan þar á eftir - líka þekktir fyrir illviðri og hlýindi.

2. Styrkur norðanáttarinnar eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949. Það er janúar 1969 sem nær fyrsta sætinu (1918, 1936 og 1945 eru ekki með í keppninni). Í sunnanáttarkeppninni er 1992 í efsta sæti en 1987 í öðru og 1950 í því þriðja.

3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðvestan, norðan, og norðaustanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala norðlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874. Unnið er að lauslegri framlengingu (afturúrlengingu?) aftur til 1823. Hér fær 1936 heiðursætið, en 1969 kemur þar á eftir. (Einnig var minnst á 1826).

Sunnanáttatíðni er reiknuð með því að leggja saman tíðni áttanna suðausturs, suðurs og suðvesturs. Janúar 1933 lendir í efsta sætinu og 1987 er í öðru. Janúar 1987 fær sérlega góða dóma sem hagstæður mánuður.

4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð. Enn er 1936 mestur norðanáttarmánaða, þar á eftir koma 1930 og 1969. Sunnanáttin var mest í janúar 1987, 1950 og 1933 - allir áður nefndir.

5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Janúar 1918 nær aftur fyrsta sætinu, en er 1936 í öðru. Sunnanáttin var mest í 500 hPa-fletinum í janúar 2006 (ekki nefndur áður) en síðan 1933 og 1950.

Enn sem fyrr er ánægjulegt að sjá hversu vel þessum fimm greiningarháttum ber saman þótt ólíkir séu. Við heyrum síðar af austan- og vestanáttum, köldustu og hlýjustu mánuðunum, þeim úrkomusömustu og þurrustu, snjóléttustu og snjóþyngstu, hæstum og lægstum mánaðarmeðalloftþrýstingi, mesta og minnsta þrýsti- og hitaóróa fyrir utan föstu liðina um hlýjustu og köldustu dagana og daginn heiðasta - og fleira. Nördin geta sleikt útum en aðrir fengið létt kvíðakast.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 9
  • Sl. sólarhring: 106
  • Sl. viku: 1500
  • Frá upphafi: 2348745

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 1306
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband