Ótíð áfram - eða breyting í vændum?

Spurningunni í fyrirsögninni verður ekki svarað hér - það vita fastir lesendur hungurdiska. Hins vegar skal upplýst hvert tilefni hennar er. Undanfarna 1 til 2 daga hefur verið mikið ósamræmi í meðaldrægum spám helstu reiknimiðstöðva.

Ameríska líkanið sem daglega gengur undir nafninu gfs (global forecast system) spáir áframhaldandi ótíð svo langt sem séð verður með langri röð vondra lægða og tilheyrandi illviðrum. Evrópureiknimiðstöðin (ecmwf) gefur hins vegar möguleika á breytingu yfir í öðruvísi veðurlag eftir nokkra daga. Það lítur alla vega mun skár út - með mun hægari vindum og þar með betra veðri. Reiknimiðstöðin hefur oftar rétt fyrir sér - en ekki alltaf. Stundum fer reyndar þannig að raunveruleikanum tekst einhvern veginn að vera þannig að báðar hafi rétt fyrir sér. Málamiðlanir eru oft mögulegar í erfiðum stöðum - rétt eins og í stjórnmálunum.

En lítum á atriði sem spárnar virðast sammála um - enda er það ekki nema tvo daga framundan. Til þess notum við hefðbundið norðurhvelskort reiknimiðstöðvarinnar - og fastir lesendur eru orðnir vanir.

w-blogg140112

En fyrir nýja lesendur er rétt að fara með skýringaþuluna. Kortið sýnir megnið af norðurhveli jarðar norðan við 30. breiddargráðu, norðurskaut nærri miðju. Höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en þynnri rauðar línur eru við 5820 metra og 5100 metra hæð. Almennt má segja að því lægri sem flöturinn er því kaldara er veðrahvolfið. Lægðirnar í fletinum eru kallaðar kuldapollar og hæðirnar eru hlýir hólar - sem gegna yfirleitt nafninu fyrirstöðuhæðir.

Frá því að við litum á þetta kort síðast hefur það merkilegast gerst að nú hafa fjórar fyrirstöðuhæðir skotist norður úr heimskautaröstinni (hana má sjá þar sem línurnar eru þéttar). Þetta eru talsverð tíðindi því hingað til í vetur hefur vegur rastarinnar verið nokkuð greiður frá vestri til austurs þótt skammvinnir hryggir hafi skotist norður við og við. Þessi hegðun rastarinnar hefur t.d. valdið hlýindum bæði í Bandaríkjunum (þau hafa verið alveg sunnan rastar) og í Evrópu (þar hefur hún borið hlýtt loft og illviðri úr vestri).

En nú hefur sum sé tekið við ástand sem er öðruvísi - ekki þó vitað enn hvernig það þróast. En báðar reiknimiðstöðvarnar eru nokkurn veginn sammála um aðalatriðin á þessum kortum - en síðan skilur leiðir.

Merkasti atburður næstu daga verður myndun hæðar sem ör merkt með tölustafnum 1 bendir á. Gríðarleg fyrirstaða sunnan Alaska á að taka sig upp og hreyfast í átt að Beringssundi. Þetta veldur titringi á öllu kalda svæðinu - m.a. með því að hlýtt loft hæðarinnar stuggar við því kalda og það verður að flytja sig til.

Ör sem merkt er 2 bendir á lægðardrag sem hæðin þrýstir suður. Á svæði um norðanverð Bandaríkin öll verður næstu daga mikið átakasvæði milli hörkufrosts í norðri og hlýinda i suðri - mjög spennandi staða fyrir veðurnörd þeirra slóða - og óróavaldur fyrir þá sem eiga eitthvað undir veðri.

Ör sem merkt er 3 bendir á mikinn kuldapoll yfir sunnanverðu Rússlandi. Ameríska spáin ætlar að halda honum á svipuðum slóðum - en reiknimiðstöðin hreyfir hann vestur um Þýskaland og jafnvel kemst Bretland inn á áhrifasvæði hans - en á því eru bæði frost, snjór og öll hugsanleg leiðindi sem því fylgja fyrir vana og óvana. Fari kuldapollur þessi á flakk njótum við góðs af því hann stöðvar lægðaganginn til okkar að mestu.

Ör sem merkt er 4 bendir á annars konar fyrirstöðu - brú þar sem skilur á milli Síberíukuldans annars vegar og Kanadakuldans hins vegar.

Á kortið má einnig sjá svæði afmarkað með grænum strikalínum. Þar er sá hluti heimskautarastarinnar sem mest varðar okkur þessa dagana. Lægðir myndast þar hver á fætur annarri og taka mið í átt til Íslands. Spárnar eru líka ósammála um þessar lægðir - evrópureiknimiðstöðin er mun hagstæðari okkur - verstu lægðir næstu daga fara allar suðaustan við land og gætir lítt hér á landi - en gfs er mun grimmari og sendir þær beint yfir okkur með tilheyrandi skaki sem heldur síðan áfram.

Hvor spásýnin er rétt? Við bíðum eftir því hvor miðstöðin gefur málstað sinn upp á bátinn. Það gæti gerst strax í fyrramálið (laugardagsmorgunn) - eða kannski verður þetta allt með öðrum hætti. Þessi pistill verður alla vega mjög fljótt illa úreltur - en vonandi vanmeta lesendur ekki uppeldisgildi hans. Þetta ákveðna spákort reiknimiðstöðvarinnar er aðgengilegt almennum notendum á vef hennar ásamt sams konar kortum með spám tíu daga fram í tímann. Aðgengilegt er e.t.v ekki rétta orðið því vefur miðstöðvarinnar er frekar fjandsamlegur fyrir ókunnuga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir kortið. Leyfðu okkur fávísum að fylgjast með framvindu mála.

Með bestu kveðju

Gunnar Sæmundsson (IP-tala skráð) 14.1.2012 kl. 09:25

2 identicon

Flottar vefur hjá þér frændi og gaman að fylgjast með þessu - ég veðja á evrópsku miðstöðina,  tel hana líklegri

Guðmundur Kjartansson (IP-tala skráð) 14.1.2012 kl. 22:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 185
  • Sl. sólarhring: 402
  • Sl. viku: 2010
  • Frá upphafi: 2350746

Annað

  • Innlit í dag: 168
  • Innlit sl. viku: 1796
  • Gestir í dag: 166
  • IP-tölur í dag: 165

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband