Af illviðrinu - nokkur eftiráatriði

Í dag var mikill vetrarútsynningur á landinu, stormur með mjög dimmum éljum. Mér þótti þetta skemmtilegt veðurlag þegar ég var yngri en finnst það ekki lengur. - En það er svosem ágætt að láta minna sig á að það sé til. Margt má ræða tengt veðrinu en hér lítum við á þrjú atriði.

Fyrst er það kort - það sýnir umfang veðursins einkar vel og er fengið frá evrópsku reiknimiðstöðinni. Á því sést vindátt og vindhraði eins og reiknaðist að myndi verða kl. 18 - miðað við greiningu veðurs kl. 12 á hádegi í 100 metra hæð í reiknilíkaninu.

w-blogg110112

Við þurfum að rýna í táknmál kortsins. Við sjáum útlínur Íslands á miðri mynd, hluti Grænlands er lengst til vinstri en Skotland í neðra horni til hægri. Örvar sýna vindstefnu en litirnir 10-mínútna vindhraða í 100 metra hæð, litakvarðinn er neðst á myndinni. Rauðbrúni liturinn sýnist mér byrja við 24 m/s. Ef grannt er skoðað má einnig sjá hvítar þunnar línur. Þær afmarka svæði þar sem reiknaðar vindhviður eru af ákveðnum styrk og sú ysta sýnir 25 m/s. Tölur í litlum kössum tákna hviður, kassarnir eru hvítir við jafnhraðalínurnar hvítu, en gulir þar sem giskað er á hámörk á afmörkuðum svæðum. Hæsta talan er 37 m/s í rauða svæðinu miðju milli Íslands og Grænlands.

Við sjáum vel hvernig strengurinn virðist eiga upptök sín á tiltölulega afmörkuðu svæði á austurströnd Grænlands nærri Ammasalik en breiðir úr sér í átt til Íslands. Vindhraði yfir landinu sjálfu er mun minni en yfir sjó. Trúlega er hann óraunverulega lágur en áhrif núnings yfir landi er eilíft vandamál í líkönum. Þar er ýmist of eða van. Tilurð vindstrengsins er allflókin og varla hægt að skýra hana í stuttu máli. Rétt er að þreyta ekki lesendur með einhverju fambi þar um, en fyrir alllöngu var pistill á hungurdiskum um áhrif Grænlands á veður hér á landi. Þar er örstutt minnst á þetta - undir fyrirsögninni Kalt loft kemur yfir Grænland. En dæmið í dag er fallegt.

Annað atriði sem vert er að minnast á nú er hegðan hita og raka hér vestanlands í dag (þriðjudag). Frost var fram eftir degi en um kl. 18 hlýnaði nokkuð snögglega um 3 stig eða svo, jafnframt féll daggarmarkið um nokkur stig (mismikið eftir stöðum), hér í Reykjavík um 3 til 4 stig. Þetta þýðir að munur á hita og daggarmarki jókst um 6 til 7 stig. Rakastigið féll því úr 80 til 90 prósentum niður í 50 til 60 prósent. Atburðarás af þessu tagi (þegar hlánar ofan í mikið særok) er mjög eitruð fyrir flutningskerfi raforku - eins og sýndi sig.

Það má deila um hverjar orsakir breytinga á hita og rakastigi voru. Ýmislegt kemur til greina. Hitahækkun og loftþurrkun orsakaðist hugsanlega af því að loftið ofan af Grænlandsjökli náði loks til Íslands - en hún gæti líka hafa stafað af því að draga fór úr vindi - Grænlandsloftið hafi því verið komið áður. Særok bætir raka í þurrt loft en það gerir skafrenningur líka auk þess sem uppgufun snævar í skafrenningi lækkar hita. Þegar dró úr særokinu naut þurra loftið frá Grænlandi sín betur og þegar hlýnaði og dró úr vindi hætti að skafa. Þar með voru tvær rakalindir úr sögunni - Grænlandsloftið þá orðið „ómengað“. Ekki er víst að þessar skýringar - önnur hvor eða báðar séu þær réttu, en athyglisvert var að sjá þetta gerast.

Þriðja atriðið er aðallega ætlað nördunum og óvíst hvort aðrir hafa áhuga. í viðhengi eru nokkrar töflur sem vanda fengnar úr skrám Veðurstofunnar. Þetta er einskonar uppgjör um veðrið sem nær þó ekki nema til kl. 17. Þá var því ekki alveg slotað. Yfirlitið byrjar hins vegar kl. 1 aðfaranótt mánudags. Varla þarf að taka fram að villur kunna að leynast í gögnunum.

Hér má sjá nokkrar töflur. Sú fyrsta sýnir hámarksvindhraða á veðurstöðvum hverri um sig - bæði hviðu og 10-mínútna meðalvindhraða og hvenær hámarkinu var náð. Það er meðalvindhraðinn sem ræður tímasetningunni - ekki er alveg víst að mesta hviðan hafi orðið á sama tíma. Einnig má sjá vindátt nærri vindhámarkinu. Sérstök tafla er fyrir Vegagerðarstöðvarnar.

Þar fyrir neðan er listi um mesta vindhraða hverrar klukkustundar og á hvaða veðurstöð vindurinn var mestur. Sértafla er einnig um Vegagerðarstöðvarnar. Sams konar töflupar er fyrir mestu hviður. Að lokum er tafla sem sýnir nokkur meðaltöl (fyrir mestu nördin): Fyrst er dagsetning og tími, þarnæst kemur meðalvindhraði allra stöðva (meðal), vigurþættir vindsins (austur og norður), þeir sýna meðalvindstefnu á hverri klukkustund á öllu landinu þáttaða á austan- og norðanþætti. Vestan- og sunnanáttir eru hér negatívar. Síðan er fjöldi stöðva sem notaður er við reikninginn (fjöldi), fx táknar mesta meðalvindhraða á einstakri stöð og fg mestu hviðu. Að lokum er tala sem sýnir fjölda stöðva með meðalvindhraða meiri en 17 m/s. Þessi síðasta tafla inniheldur einnig upplýsingar um fleiri hvassviðri frá áramótum.

Athugið að töfluhausar kunna að riðlast lítilsháttar eftir því í hvaða forriti skráin er opnuð.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Maður er vanastur því (eða telur a.m.k. sig vera það) að hér hvessi, oftast af völdum lægða ýmist þegar þær eru að koma en líka þegar þær fara og skilja eftir sig helv. útsynninginn. Einnig getur blásið hressilega dögum saman svona c.a. úr norð-austri af völdum hæða. Þessi vindur nú, er þá væntanlega af annari orsök? Að veðrakerfið hafi ekki einusinni haft fyrir því að "spinna" heldur fengum við vestanvindinn (sem stafar af "misheppnuðum" loftflutningum frá miðju jarðar til póla) ómengaðann, en að vísu í gegnum smá gat við Grænland?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 11.1.2012 kl. 08:40

2 identicon

          Úsynningur alltaf er 

          afskaplega leiður.

          Meira mér að skapi er

          meðan hann er heiður.

 Nú eru bílskúrslausir bíleigendur orðnir svo uppskafnir af rúðusköfun að

þeir þurfa áfallahjálp sumir. En upphandleggsvöðvar stælast stöðugt.

Flott kort Trausti og fróðlegt að vanda. Ætli fari nú ekki að sjá fyrir endann

á þessum krónísku umhleypingum . Þorrinn fer að banka uppá með sínum

" miðsvetrardegi" og þjóðlegum mat.  Etv. gæti hákarlinn fælt illviðrin frá

okkur  :)

óli Hilmar Briem Jónsson (IP-tala skráð) 11.1.2012 kl. 12:10

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Bjarni - ofviðri eru margra ætta, það er alveg rétt. Ekki sér enn fyrir endann á umhleypingunum Óli Hilmar - þótt sumar framtíðarspár séu nú til tilbreytingar farnar að sýna kalda daga í Evrópu - en engu er lofað.

Trausti Jónsson, 12.1.2012 kl. 00:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 53
  • Sl. sólarhring: 518
  • Sl. viku: 2375
  • Frá upphafi: 2413809

Annað

  • Innlit í dag: 52
  • Innlit sl. viku: 2193
  • Gestir í dag: 51
  • IP-tölur í dag: 50

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband