Sullast yfir Grænland

Þegar kalt loft kemur að Grænlandi úr vestri (mjög, mjög algengt) rekst það á fjalllendið. Það fer síðan eftir stöðugleika (og fleiru) hvernig framhaldið verður. Sé loftið stöðugt stíflast framrás loftsins og það leitar að jafnaði suður með landi og fyrir Hvarf. Undir slíkum kringumstæðum fréttir austurströnd Grænlands (og Ísland) lítið af kuldanum fyrir vestan. Sé það óstöðugt gerist það sama - nema að óðstöðugleikinn nái hærra heldur en jökullinn (ekkert sérlega algengt). Það gerist ekki nema þegar loftið er afspyrnukalt upp í margra kílómetra hæð. En þá fréttist aldeilis af kalda loftinu.

Það fer þá yfir jökulinn sem ekkert sé og fellur niður austurströndina í ofsastormi sem Grænlendingar kalla Piterak. Ekkert getur bjargað málunum nema að loftið austan við sé enn kaldara en það sem að vestan kemur. Svona staða er á Grænlandi þegar þetta er skrifað og í nótt (aðfaranótt þriðjudags). Danska veðurstofan varar við hugsanlegum Piterak í Ammasalik og þar í grennd. Mestar líkur á ofsaveðri eru þó sunnar að þessu sinni. Við skulum líta á þetta á spákorti sem gildir kl. 6 á þriðjudagsmorgni 10. janúar.

w-blogg100112a

Hér sjáum við spá evrópureiknimiðstöðvarinnar (fengin gegnum Veðurstofu Íslands). Jafnþykktarlínur eru svartar og heildregnar og sýna 500/1000 hPa-þykktina í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Litirnir sýna aftur á móti hita í 850 hPa-fletinum (á bilinu 1100 til 1400 metrar) eins og litakvarðinn neðst á myndinni greinir frá.

Inni í bláu, fjólubláu flekkjunum má sjá töluna -32 stig yfir jöklinum, en -22 undan Grænlandsströnd suður af Ammasalik. Nú er það svo að 850 hPa-flöturinn er ekki til yfir hálendi jökulsins - það stendur upp úr honum. Þykktin er strangt tekið ekki heldur til yfir jöklinum en hvort tveggja er samt merkt og einhver raunveruleiki er að baki. Það er 4920 metra jafnþykktarlínan sem gengur þar um sem -32 eru merktir.

Dálítil dæld mun vera í jökulskjöldinn um það bil þar sem kaldasta loftið er merkt á kortið. Þar á kalda loftið greiðastan aðgang og við sjáum beinlínis hvernig það fellur niður af jöklinum og til sjávar þar sem -22 talan er á kortinu og breiðir meira að segja úr sér til beggja átta, en flest út í átt til Íslands. Þar er 5040 metra jafnþykktarlínan við Vestfirði. Þegar kalda loftið streymir til Íslands hlýnar það yfir sjónum þannig að við fáum það engan veginn jafnkalt hingað. En nógu kalt samt.

Það verður fróðlegt að sjá hversu þétt og efnismikil él tekst að búa til á leiðinni frá Grænlandi til Íslands. Spár segja að vindur verði mjög hvass á þriðjudag vestur af landinu og e.t.v. líka inn á land. Þegar loftið fellur niður af Grænlandsjökli dregur það með sér veðrahvörfin og þá verður til mikill vindstrengur úr vestsuðvestri eða vestri sunnan við mesta niðurdráttinn. Sumar spár segja að 15 cm bætist ofan á snjóinn í Reykjavík í éljunum næstu 2 daga. Fari svo verður leiðindaskak í jöðrum bæjarins og á vegum á Vesturlandi - og auðvitað vitlaust veður á heiðum um mestallt land.

Enn er því ástæða fyrir vegfarendur og þá sem eitthvað eiga undir veðri að fylgjast vel með veðri og veðurspám. Þegar þetta er skrifað (rétt fyrir kl. 1 aðfaranótt þriðjudags) er ýmist ofsaveður eða fárviðri á fjöllum eystra og jafnvel í byggð. Snörp varð lægðin sú.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Flottur!

Aðalsteinn Agnarsson, 10.1.2012 kl. 15:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a
  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 31
  • Sl. sólarhring: 127
  • Sl. viku: 540
  • Frá upphafi: 2351331

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 461
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband