Þykktin aftur upp fyrir 5500 metra? Óvenjulegur hlýindakafli?

Nú virðist það gerast öðru sinni á fáeinum dögum að þykktin (milli 500 og 1000 hPa-flatanna) fari yfir 5500 metra. Þykktin mælir meðalhita neðri hluta veðrahvolfs og ekki er algengt á þessum árstíma að hún verði svona mikil. Algengar tölur í nóvember eru á bilinu 5150 til 5400 metrar. Á aðfaranótt þriðjudagsins í síðustu viku (8. nóvember) fór hún í um 5600 metra sem er nánast einstakt. Ekki verður hún alveg jafn mikil í þetta sinn. Lítum á þykktarspákort úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir það kl. 18 á mánudag (14. nóvember).

w-blogg141111a

Jafnþykktarlínur eru svartar, heildregnar, en lituðu svæðin sýna hita í 850 hPa (um 1300 metra hæð yfir sjávarmáli). Hæsti hitinn sem sést yfir Íslandi í þessari hæð er +10 stig. Varla þarf að taka fram hversu óvenjulegt það er á þessum árstíma. EF þetta loft næðist óblandað niður að jörð yrði það 23°C heitt þegar þangað væri komið. Hitinn yfir Suðvesturlandi er ekki alveg jafn hár. En veðurnörd fylgjast spennt með raunárangri dagsins.

En eru hlýindin í fyrri hluta þessa mánaðar óvenjuleg? Svarið er já (en þó með nokkrum semingi sagt). Það eru allmargir nóvembermánuðir sem hafa byrjað ámóta vel og þessi - en hafa síðan sprungið á hlaupinu og hrapað. Við skulum samt líta á þrjá helstu keppinautana. Myndin er ekki alveg létt - en lesendur hungurdiska hafa þó vanist þyngra viðbiti.

w-blogg141111b

Hér sést hiti kl. 9 að morgni í Stykkishólmi í þremur mjög hlýjum nóvembermánuðum auk fyrstu 13 daga núlíðandi mánaðar. Meðalhiti er reyndar líka merktur á myndina, punktalína sem liggur um myndina þvera á milli 0 og 2°C. Feitdregna svarta línan er nóvember í ár (2011). Við sjáum að fyrstu tvo daga mánaðarins var hiti undir meðallagi - það kann að reynast dýrt á endasprettinum.

Bláa línan sýnir hinn ofurhlýja nóvember 1945. Flesta dagana sem liðnir eru af mánuðinum er hann um 2°C ofan við nóvember 2011 - ekki efnilegt það. En við sjáum að hann átti afleitan endasprett þar sem hiti var varla í meðallagi.

Svipað má segja um nóvember 1956 (rauð lína) en sá mánuður var ívið kaldari en 1945 á Suður- og Vesturlandi en hlýjastur allra nóvembermánaða fyrir norðan. Rauða línan er ívið órólegri heldur en sú rauða en heldur samt góðum dampi fyrstu þrjár vikurnar. Þá fatast honum einnig flugið. Mikil illviðri gengu síðustu viku mánaðarins 1956.

Græna línan liggur lengst af undir bláu og rauðu línunum. Hún sýnir nóvember 1987. Þá var endaspretturinn miklu betri heldur en 1945 og 1956.

Eins og áður sagði eru allmargir nóvembermánuðir til viðbótar hlýir framan af þótt ekki séu þeir tíundaðir hér. Næsta vika sker úr um það hvort núlíðandi mánuður nær sér í raun og veru upp úr því moði og keppi í raun og veru um sæti á verðlaunapalli.

Viðbót 14.11. kl. 17:40

Ritstjórinn hefur nú haldið áfram reikningum og m.a. komist að eftirfarandi: Meðalhiti það sem af er mánuðinum í Reykjavík er 6,3 stig. Meðalhiti sömu daga 1945 er 8,0 stig, 7,2 stig 1956, 6.6 stig 1964. Mánuðurinn er sumsé í 4. sæti miðað við tímabilið frá 1945. Á Akureyri er það sem af er mánuðinum í 10. sæti á sama tíma. Þar hefur meðalhitinn það sem af er verið 4,5 stig, en var mest 6,7 stig á sama tíma 1956. Daglegar tölur úr Stykkishómi allt frá 1846 segja fyrri helming þessa mánaðar í 14. sæti (af 165) - en litlu munar á sætum 10 til 14.

Dagurinn í dag (mánudagur 14.) mun verða mjög metagæfur á einstökum veðurstöðvum. Metin eru þó mismerkileg. Þegar þetta er skrifað (kl. 17:30) liggur hámarkshiti dagsins á mönnuðum stöðvum ekki fyrir en vonandi að nimbus muni gera grein fyrir þeim á bloggi sínu strax í kvöld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ef þetta klúðrast gæti mánuðrinn samt fengið fegurðarverðlaun fyrir a.m.k. tvo óvenjulega þykkildisdaga!

Sigurður Þór Guðjónsson, 14.11.2011 kl. 00:33

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Eru til "þunnildisdagar" líka?

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.11.2011 kl. 03:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 200
  • Sl. sólarhring: 339
  • Sl. viku: 2025
  • Frá upphafi: 2350761

Annað

  • Innlit í dag: 183
  • Innlit sl. viku: 1811
  • Gestir í dag: 179
  • IP-tölur í dag: 179

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband