Sjaldséð gerð veðurkorta (fréttir úr 700 hPa-fletinum)

Fyrir (tilviljanakennda) náð sýnir evrópureiknimiðstöðin hinum almenna vefnotanda stöku sinnum kort af því tagi sem hér er fjallað um. Hið frábæra reiknilíkan miðstöðvarinnar sendir frá sér ógrynni af afurðum sem setja má á kort. Eða e.t.v. ætti að segja - sem ekki eru birtar sem kort nema örsjaldan. Þar á meðal eru þau sem sýna rakastig og lóðstreymi í 700 hPa-fletinum. Með snöpum má finna þessar upplýsingar frá öðrum reiknimiðstöðvum, t.d. þeim bandarísku og kanadísku. Við skulum nú líta á eitt kort af þessu tagi. Það er spákort sem gildir kl. 18 mánudaginn 31. október.

. w-blogg311011a

Hér má kenna Ísland á miðju korti, Grænland til vinstri og Noreg og Danmörku lengst til hægri. Lægð er spáð fyrir sunnan land á þessum tíma. Kortið á við 700 hPa-flötinn en hann er um það bil 3 km frá jörð. Við sjáum venjulegar vindörvar, hvert langt þverstrik sýnir 5 m/s - en veifur (svartir þríhyrningar) 25 m/s. Vindátt má greina á stefnu örvanna.

Gráu fletirnir sýna rakastig og er byrjað við 70% mörkin, minna rakastig er ólitað. Rakastig í 700 hPa sýnir nokkuð vel svæði þar sem búast má við skýjabreiðum; grábliku, regnþykkni og netjuskýjum. Regnþykkninu fylgir úrkoma og þar er rakastigið væntanlega yfir 90%. Skilasinnuðum veðurfræðingum finnst sérlega hagkvæmt að setja niður skilakerfi langsum eftir sem flestum skýjalengjunum. Hér væru sett niður samskil nærri Vestfjörðum og önnur skammt austan og suðaustan við land.

Ekki er endilega léttskýjað á hvítu svæðunum, þar geta leynst bæði lágský og háský og jafnvel éljabólstrar.

Jafnþykktarlínur eru svartar og heildregnar. Hér er ekki átt við sérlegan vin hungurdiska 500/1000 hPa-þykktina, heldur eina af systrum hennar, þá sem mælir meðalhita milli 700 og 1000 hPa. Við skulum ekki gefa henni frekari gaum að öðru leyti en því að vel má sjá mikinn þykktarbratta undan Vestfjörðum - rétt eins og á 500 hPa-kortinu sem hér var fjallað um fyrir 2 dögum.

Eitt atriði til viðbótar er sýnt á kortinu, það er lóðstreymi í 700 hPa. Það er mælikvarði á lóðréttar hreyfingar lofts. Mælieininguna höfum við aldrei séð áður, Pa/s (paskal á sekúndu). Talan sýnir hversu hratt loft fer upp (eða niður) í gegnum 700 hPa flötinn. Þar sem þrýstingur minnkar upp á við standa mínustölur fyrir uppstreymi, en jákvæðar eru niðurstreymi. Gildið -1 (svo við tökum dæmi) þýðir að loft er 1 sekúndu að lyftast um eitt Pa. Nú er 1 hPa = 100 Pa (forskeytið hektó- þýðir 100 í metrakerfinu, rétt eins og kíló þýðir þúsund). Fjarlægðin á milli 700 hPa og 701 hPa er því 100 Pa. Lóðstreymið -1 Pa/s þýðir því að loftið er 100 sekúndur að stíga um 1 hPa. Nú förum við í slumpið - í 3 km hæð fellur þrýstingur um 1 hPa á 10 metrum (slumpgildi). Hvert Pa er því um 10 cm. Lóðstreymið er þvi um 10 cm á sekúndu (upp á við, munum mínusmerkið).

Nóg er að muna að 10 Pa/s er um 1 m/s. Svo há tala er hvergi á kortinu. Við sjáum af þessu að uppstreymi í skilakerfum er ekki hratt - en það dugar samt til að sturta niður úrkomu. Á þessu spákorti er niðurstreymi yfir Íslandi miðju (lóðstreymið þar reiknast +2 Pa/s eða í slumpi 0,2 m/s. Þetta nægir til að leysa upp miðskýjabreiður, en spurning hvernig fer með lágskýin eða háskýin - einhver háský hljóta að fylgja samskilunum sem nálgast og eiga að fara yfir landið. Sömuleiðis er ekki ólíklegt að lágský séu einnig á sveimi.

Leiðinlegt hvað reiknimiðstöðin er naum á að sýna glæsilegar afurðir sínar nema útvöldum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 183
  • Sl. sólarhring: 215
  • Sl. viku: 2104
  • Frá upphafi: 2412768

Annað

  • Innlit í dag: 173
  • Innlit sl. viku: 1847
  • Gestir í dag: 158
  • IP-tölur í dag: 152

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband