Norðurhvelið: Tvær fyrirstöður - önnur lúmsk

Við lítum nú eins og oft áður á spákort sem sýnir hæð 500 hPa-flatarins yfir norðurhveli jarðar. Þar þéttast nú jafnhæðarlínur og kortið verður við það smám saman erfiðara aflestrar - en við látum sem ekkert sé.

w-blogg261011a

Fastir lesendur eru vonandi farnir að venjast kortinu, en það sýnir norðurhvel jarðar suður fyrir 30. breiddargráðu. Höfin eru blá og löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en sú mjóa sýnir hæðina 5820 metra.

Hin mjóa rauða línan (sú sem er í kringum lægðina norðvestur af Kanada) markar 5100 metra hæð 500 hPa flatarins. Hún umlykur nú snarpan kuldapoll. Þykktin við kuldapollinn er líka mjög lítil, aðeins 4900 metrar. Lesendur vita að þar sem sú þykkt ríkir er heimskautavetur skollinn á. Við þurfum þó ekki alveg á næstunni að hafa áhyggjur af þessum kulda - hann hringsólar bara í bæli sínu. Honum verður þó gefið auga.

Við sjáum að vestanvindabeltið og meginrastir þess eru í miklu fjöri í kringum 5460 metra jafnhæðarlínuna (þykka rauða línan). Þar eru ótal stuttar bylgjur og slatti af minniháttar háloftalægðum. Stuttar bylgjur hreyfast venjulega hratt til austurs með tilheyrandi lægðum. Svo hagar nú til hér á landi að umferðaræðin liggur nú talsvert fyrir sunnan land.

Fyrirstöðuhæð sem verið hefur undanfarna daga yfir Austur-Evrópu norðanverðri hefur tekið á móti bylgjunum úr vestri og virðist nú eiga að gefa eftir. Það auðveldar austurferð bylgjulægðanna fyrir sunnan okkur - en við sjáum helst norðurvænginn á lægðunum. Á kortinu sjáum við hæð skammt suðvestur af Grænlandi, hún virðist ekki mikil að vexti en samt mun hún hindra að mestu ásókn norðlægra lægðardraga í átt að Suður-Grænlandi. Lægðabylgjurnar á breiddarstigi Bandaríkjanna norðanverðra eiga þá greiða leið til austurs. Þar sem svo stutt er á milli þeirra fá þær ekki ráðrúm til að byggja upp hryggi á undan sér og engrar aðstoðar er að vænta úr norðvestri vegna fyrirstöðunnar lúmsku. Hún er svo væg að það er varla að hennar sjái stað - en þvælist samt fyrir.

Hér á landi er gert ráð fyrir að vindátt verði oftast af austri og suðaustri í háloftunum en ýmist hægviðri eða vindur af austri eða norðaustri við jörð. Ekki eru því líkur á miklum kuldum eða hlýindum.

En á þessum árstíma kólnar ört og þar með gefast mörg tilefni til hraðra breytinga á bylgjumynstrinu - hungurdiskar ráða ekkert við að greina það langt fram í tímann - og varla að stóru tölvulíkönin geti það heldur. En trúlega stenst þessi tveggja daga spá svona nokkurn veginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 971
  • Frá upphafi: 2341345

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 889
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband