Veðrasveiflur síðustu áratuga

Nú leggja hungurdiskar á hafið - hafi ritstjóri úthald í ferðalagið. Hugmyndin er að fara í gegnum veðrasveiflur síðustu áratuga (og jafnvel mun lengri tíma) í heldur meiri smáatriðum en gert hefur verið í pistlunum til þessa. Þetta er auðvitað aðallega nördafóður en þar sem ekki er ætlunin að greina daglega af ferðinni er vonandi að aðrir lesendur sýni þolinmæði.

Ferðin byrjar á einfaldan hátt. Við lítum á hitafar í Reykjavík síðustu 6 áratugina rúma. Myndirnar sem fylgja þessum pistlum verða í grundvallaratriðum allar eins upp settar. Reiknuð eru 12-mánaða keðjumeðaltöl hinna ýmsu veðurþátta og þau borin saman. Þegar keðjumeðaltöl eru reiknuð til að bera saman veðurlag frá ári til árs má setja þau fram á ólíka vegu. Hér er einfaldasti möguleikinn notaður, teknir eru 12-mánuðir saman og reiknað meðaltal þeirra, síðan er tekið skref yfir á næsta mánuð og meðaltal reiknað. Þannig verða til 12 meðaltöl á hverju ári. Hið hefðbundna ársmeðaltal er þá eitt af þeim 12 (janúar til desember).

Veikleiki þessarar aðferðar fellst helst í því að vegna þess að hitavik geta orðið miklu stærri í vetrarmánuðum heldur en á sumrin hafa kaldir eða hlýir vetur meiri áhrif á 12-mánaða meðaltalið heldur en köld eða hlý sumur. Hægt er að forðast þetta með því að norma hitaröðina sem kallað er. Við látum útkomuna úr slíkri reikniæfingu bíða að minnsta kosti um sinn. En lítum á myndina.

w-blogg251011-Meðalhiti-rvk

Ársmeðalhiti í Reykjavík hefur sveiflast á milli þess að vera 2,85°C og upp í 6,61°C. Þarna munar 3,76°C. Lægsta talan hitti nákvæmlega i árið, meðaltalið frá janúar til desember 1979 er lægsta 12-mánaða meðaltal alls tímabilsins. Hlýindin hitta ekki eins vel. Árið 2003 var hlýjast, 6,06°C en hæsta 12-mánaða tímabilið er 0,55°C hærra, september 2002 til ágúst 2003. Á myndinni hefur ekki verið leiðrétt fyrir flutningi frá flugvelli upp á Veðurstofutún. (Úr því verður bætt síðar).

Á árunum fram til 1965 koma hlýindagusur á um það bil þriggja ára fresti, hver þeirra hlýrri heldur en sú næsta á undan. Síðan taka hafísárin 1965 til 1971 við. Á árinu 1972 kom tilraun til hlýinda og kuldarnir 1979 til 1983 skera sig úr, en í Reykjavík náði hitinn sér ekki aftur á strik fyrr en árið 2002 og þá svo um munaði. Hlýindin 2002 til 2003 eru alveg sér á báti þótt hiti hafi aðallega farið hækkandi síðan eftir lítilsháttar bakslag 2005. Það bakslag var þó ekki verra en svo að lágmark ferilsins það ár er hærra heldur flestöll hámörkin á kalda tímabilinu.

En aðalefni pistilsins fellst í næstu mynd.

w-blogg251011-B-Meðalhiti

Daufblái ferillinn á myndinni er sá sami og á fyrri mynd - 12-mánaða keðjumeðaltöl hita í Reykjavík. Grái ferillinn sýnir sunnanátt í 500 hPa-hæð yfir Íslandi - sömuleiðis 12-mánaða keðjumeðaltöl - lóðrétti kvarðinn til hægri sýnir mælitölu hennar. Sé rýnt í myndina má sjá að toppar í ferlunum standast víðast á. Þetta er sérstaklega áberandi fyrir 1965, en þarna er ferlunum viljandi stillt saman, hægt væri að gera það á öðrum tímabilum einnig. Því meiri sunnanátt því hærri hiti. Það er ekki óeðlilegt.

En við sjáum að á kalda tímabilinu 1965 til 2000 eru líka talsverðir sunnanáttartoppar - en þeir hafa ekki sömu hitaáhrif og á fyrsta hluta myndarinnar. Sunnanáttin nær fyrst sínum fyrri hlýindum eftir aldamót. Þá gerir hún enn betur heldur en á fyrra hlýindaskeiði.

Svo sjáum við að á árinu 2010 gerist hið furðulega, grái ferillinn dettur niður fyrir núllið. Þetta er eina árið þar sem norðanátt var í 500 hPa-fletinum við Ísland, en samt var undrahlýtt. Er norðanátt í háloftunum ekki lengur köld? Þótt afl sunnanáttarinnar hafi greinilega mikil áhrif til að hífa upp hitann er eitthvað fleira sem kemur til og líka ræður hitanum. En meir um það síðar - eða hvað?.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég fór að fylgjast daglega með veðri 11. júlí 1967, það var síðasta áhugamálið sem bættist við en núna það harðsvíraðasta (!), og veðurfarið var yfirlegt alveg hörmulegt fram undir a.m.k. 1987 og ekki almennilegt fyrr en eftir okkar aldamót. Maður sá hlýindatímabilið 1925-1965 alveg í hillingu þegar maður fór að grúska í því. Hvaða skaðvænlega ónáttúra var það tímabil eiginlega ef okkar hlýindaskeið er af sumum talið af hinu illa og veðurfar frá um 1965 og framundir 1986 víst það eins sem þeir geta sætt sig við á þess að nöldra og setja upp heimsendasvipinn en þeir kvarta mú yfir öllu góðæri til sjávar og sveita. Og þeir virðast ekki njóta eðalsumra og einmuna vetra af áhyggjum yfir því að heimurinn sé á heljarþröm. Botninn í veðurupplifun! Fyrir þá sem búa hér í köldu landi er þetta niðurdrepandi umræða og svo leiðinleg að hún er að drepa alla veðurgleði - og reyndar alla heiðarlega veðurumræðu. Ekkert kemst upp á pallborðið um veðrið nema gróðurhúsaumræðan, leiðinlegatsa umræða allra tíma,   enn verri en endalaust tuð fjórflokksins. - Já, vakanði snemma og er í morgunham! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.10.2011 kl. 08:24

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nú gerist ekkert lengur í veðrinu nema það sé skrifað á reikning gróðurhúsaáhrifanna. Hlýindi, kuldar, þurrkar, rigningartið, fellibyljir. Allt er þetta víst vegns gróðurhúsaáhrifanna og menn eiga víst að vera alveg einstaklega miður sín af áhyggjum. Nú er sem sagt ekkert veður lengur né veðurfar í öllum sínum blæbrigðum sem áður var oft erfitt að skýra- nú eru bara gróðurhúsaáhrif í öllum sínum fanatísku leiðindum og ofureinföldunar skýringum, að ég segi ekki einfeldningslegu skýringum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.10.2011 kl. 08:40

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þetta er nú mikill hamur sem þú ert í í dag Sigurður, kannski ekki bara morgunhamur... En þetta hjal þitt um gróðurhúsaáhrifin og að ekkert megi fjalla um veður án þess að nefna þau eru ekki svara vert í sjálfu sér og mun ég því ekki gera það hér...

En við vitum báðir að það hefur hlýnað, og við ættum báðir að vita að gróðurhúsaáhrifin aukast við losun gróðurhúsalofttegunda...en látum það liggja á milli hluta, enda gæti komið upp einhver leiðinda "heimsendasvipur" við það eitt að nefna svona staðreyndir...

Sigurður, væri ekki ráð að njóta pistilsins (sem er fróðlegur, hvað sem líður hjali um gróðurhúsaáhrif), í stað þess að setja upp vandlætingarsvip varðandi alla þá sem vilja nefna loftslagsvísindi á nafn...megi oss verða forðað frá þess háttar umræðu Sigurður...tja, ég get ekki séð annað en að þú hafir hafið þá umræðu á undarlegan hátt hér...

Sveinn Atli Gunnarsson, 25.10.2011 kl. 09:06

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Mér finnst gróðurhúsaumræðan oft vera mikið skemmtiefni.

Emil Hannes Valgeirsson, 25.10.2011 kl. 09:46

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Jæja Svatli, þá nenni ég ekki héðan í frá að eiga orðastað við þig sem talar niður til mín  í hverju orði og kallar skrif mín  hjal sem sem séu ekki svara verð. Eru skrif þín svara verð? Eru þau eitthvað annað og meira en  hjal? Í Það minnsta er þessi athugasemd þín hreinn merkikertaháttur. Ég nýt alveg pilstilsins og var ekki að skrifa um hann en var með mínar eigin hugleiðingar út frá honum vegna þess að á þessu tímabili sem þessi pistill nær til fór ég að fylgjast með veðri og þetta voru mínar eigin hugleiðingar út frá því og hvernig mér finnst umræða um veður og veðurfar hhafa þróast síðustu ár. Og ég stend við það. Ótrúlega margt sem gerist í veðrinu er skrifað á reikning gróðurhúsaáhrifana. Ég nefndi enga sérstaka í því efni. Sagði ekki að þessi og hinn, t.d. Svatli,  væri ekki svaraverður vegna hjals og bulls. En þú byrjar strax á þvi að gera lítið úr mér með fyrurlitningartóni. Ég hjali bara svo það sé ekki svaravert. Hver er nú með meiri  vandlætingasvip í skrifum, þú eða ég? Megi oss verða forðað frá þeirri umræðu segir þú um þau skrif sem ég  er með. En megi oss verða forðað frá þeirri merkikerta umræðu sem þú ert með!

Komdu aldrei inn á mína bloggsíðu framar! Og ég mun láta þig í friði.

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.10.2011 kl. 09:55

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Viltu ekki bara lauma því að líka Svatli um að þessi ''undarlega'' umræða mín sé bara ekki líka abmormal?  Kannski klikkuð! En ég ætla ekki að taka frekari þáttt í umræðu þar sem menn eru afgreiddir sem ekki svara verðir og eitthvað undarlegir.

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.10.2011 kl. 10:14

7 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Jæja, Sigurður mér þykir þú nú vera viðkvæmur þennan morguninn.

En þessi "tónn" þinn varðandi þessa umræðu er svo sem ekki nýr af nálinni, gerir lítið úr umræðu um gróðurhúsaáhrif og ferð svo í fýlu þegar þér er bent á það... Ég skil reyndar ekkert hver þín skoðun er á loftslagsvísindum, þó hef ég reynt að finna út úr því í nokkur ár núna - en þú virðist þó halda að þú megir pissa utan í þá umræðu, en ert viðkvæmur fyrir mótsvörum... Kannski þú ættir að halda þér fyrir utan þá umræðu, ef þú ert svona viðkvæmur fyrir að einhver kunni að svara þér...

En alla vega, ég ætla ekki að fara í fýlu út í þig - þú ert velkomin til að taka þátt í umræðu um þessi mál á minni síðu, hvort sem mér líkar skrif þín eður ei...eða þér mín... Ég lít ekki á það sem persónulega óvild að vera ósammála um hlutina, eða að benda á (eða vera bent á) ýmsar hliðar málanna, líka þegar einhver virðist missa sig í einhvern ham og gera lítið úr allri umræðu um gróðurhúsaáhrif af mannavöldum einhvern morguninn.

PS. Sigurður, líttu á eigin skrif áður en þú ferð í fýlu varðandi það að ég kallaði hjal þitt ekki svara vert... Gæti verið fróðlegt fyrir þig að rifja upp þín eigin orð varðandi umræðu um gróðurhúsaáhrif eins og t.d. "heimsendasvip", "heljarþröm", að "drepa alla veðurgleði [...] og alla heiðarlega veðurumræðu", "niðurdrepandi umræða", gróðurhúsaáhrif í "fanatísku leiðindum", "miður sín af áhyggjum" o.s.frv. En það má náttúrulega ekki minnast á þetta af hættu við að móðga einhvern...

Sveinn Atli Gunnarsson, 25.10.2011 kl. 10:33

8 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Smá viðbót - Sigurður, ég hef aldrei afgreitt þig sem ekki svara verðan (talaði bara um þetta tiltekna dæmi/hluta athugasemdar sem kom fram í þínum fyrstu athugasemdum), hvað þá að ég álíti þig undarlegan (merkileg túlkun á orðum mínum um að þú hafir á undarlegan hátt hafið þessa umræðu - sjá upprifjun mína í síðustu athugasemd)...ekki að þú sért persónulega undarlegri en gengur og gerist. En ætli við séum ekki allir smá undarlegir að hafa loftslagsmál og/eða veður sem áhugamál - veit ekki...

Ekki að ég eigi von á svörum, en ef ég hef móðgað þig eitthvað með því að benda á þessa undarlegu umræðu þína (að mínu mati), þá biðst ég forláts á því, en ég mun þó ekki lúta í lægra haldi með það að ég megi svara því sem mér þykir þess um vert - ef ég ákveð svo... Ég er ábyggilega ekki yfir gagnrýni hafin, frekar en aðrir í sjálfu sér... Það sama má segja um þinn vinkil í þessari umræðu hér í morgunsárið (sjá upprifjun í síðustu athugasemd minni).

Sveinn Atli Gunnarsson, 25.10.2011 kl. 13:12

9 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

PS. Nú ertu bara búin að taka mig af sakramentinu Sigurður - erum við ekki bloggvinir lengur..? Jæja, karlinn, þú verður að eiga það við sjálfan þig hvernig þú höndlar gagnrýni á umræðu þína...

Sveinn Atli Gunnarsson, 25.10.2011 kl. 13:17

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Svatli: Þú mátt kalla mig fara í fýlu, sem er orðatiltæki sem á að sýna hvílkur leiðindapúki viðkomandi sé, þú mátt segja að ég sé að pissa utan í eitthvað og þar fram eftir  lítilsvirðingar götunum. Líttu í eigin barm, og sjáðu hvernig þú skrifar um andstæðinga þína, rétta eða ímyndaða, og ekki endilega almenna hópa heldur líka nafngreina einstaklinga. Ég var reyndar að tala um persónulega upplifun mína um veðurskrif, ekki að ræða hlýnunarmál efnislega til að segja að kenningin sé röng, heldur að umræður um veðrið snúist orðið of mikið um hana og mér leiðist það að flest smátt og stórt í veðrinu sé skýrt út, a.m.k. oft í fjölmiðlum, sem afleiðing gróðurhúsaáhrifa og sumir spinni svo út af því.  OG MÉR LEIÐIST ÞETTA. En fræðandi upplýsingar um gang veðursins almennt og það sem er að gerast í því finnst mér skemmtilegar eins og Trausti og Einar eru með og  ýmsir útlendir veðurskrifarar. Þessi of mikla  á gróðurhúsaáhrif í veðurskrifum, ekki síst í fjölmiðlum ef eitthvað gerist í veðri, finnst mér hins vegar þreytandi. Ég var að lýsa persónulegri upplifun í athugasemd sem var að segja frá því hve nær ég fór að fylgjast með veðri og tímamörk pistilsins buðu  upp á það. Þetta var persónuleg játning, ævisögubrot eiginlega,-ekki debatt. Og ég tjái mig oft afdráttarlaust og sterkt um það sem ég upplifi, hvort sem það er músik eða skrif um veður. Þú segist ekki skilja mínar skoðanir á loftslagsvísindum, orðið yfir þína merkingu þarna myndi ég fremur kalla hlýnun jarðar en loftslagsvísindi almennt. Ég hef reyndar lítið um þær skrifað, en þú kallar það að ég hafi pissað utan í loftslagsvísindin. Og hvað með það þó þú skiljir ekki skoðanir mínar? Aldrei hef ég skilið baun í þér. En ég hef ekki mælst til að þú hættir bara að skrifa - sem er mjög sterk fyrirlitningaryfirlýsing og raunar alveg klassísk í hvers kyns samböndum- og aldrei myndi mér detta í hug, þrátt fyrir alla fýluna, að tengja skrif þín um eitt né neitt við það að kasta af sér þvagi eða með öðrum álíka orðum sem allir skilja að eiga að kasta subbulegum leiðindablæ yfir þann sem þau eru sögð um.

Þetta verður síðasta innlegg mitt um þetta hér á síðunni.

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.10.2011 kl. 14:16

11 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Andskotans aumigi þessi Sigurður sem þolir ekki á sig gagnrýni! Það er ekki á hann logið. En þú verður að eiga það við sjálfan Svatli þig og líta vel í eigin barn hvernig þú talar til þeirra sem þú átt í höggi við, hvernig þú hönldar það sem þú heldur að sé gagnrýi á þig. Ég vona líka að þú eigir eftir að höndla herran í fyllingu timans. Og verðir hólpinn!

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.10.2011 kl. 14:32

12 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

ég tjái mig oft afdráttarlaust og sterkt um það sem ég upplifi, hvort sem það er músik eða skrif um veður

Gott mál, en hvers vegna þolir þú ekki gagnrýni á þínar afdráttarlausu skoðanir - segðu mér það..? Þú verður að athuga að þín afdráttarlausu skrifa voru að mínu mati gagnrýniverð - og mér þykir ekki sem ég hafi farið yfir strikið með því að nota líkingamál, eins og að þú hafir pissað utan í umræðuna, ekki síst eftir þín "afdráttarlausu" skrif í byrjun umræðunnar. Ert þú annars einn um að mega vera afdráttarlaus í skoðunum, eru þeir sem hafa áhuga á að ræða loftslagsmál eitthvað undanskyldir því að geta sett hlutina fram á afdráttarlausan hátt? Spyr sá er ekki veit.

Ég hef ekki sagt að þú ættir að hætta að skrifa (það er einfaldlega ekki rétt hjá þér), en ég benti þér á að EF þú þyldir ekki umræðuna (hispurslausa og afdráttarlausa) þá er hægt að velja að halda sig utan við hana... En þú byrjaðir athugasemdir morgunsins með afdráttarlausum orðum um loftslagsmál og ef þú þolir ekki að þér sé svarað - þá ættirðu kannski bara að hætta þeirri umræðu (eins og þú hefur tilkynnt núna). Byrjaðu nú á að lesa fyrstu tvær athugasemdir þínar og segðu mér hvort þér finnist þær í lagi - nú þegar þú ert væntanlega komin vel á ról dagsins... Gæti verið fróðlegt fyrir þig að rifja upp þín eigin orð varðandi umræðu um gróðurhúsaáhrif eins og t.d. "heimsendasvip", "heljarþröm", að "drepa alla veðurgleði [...] og alla heiðarlega veðurumræðu", "niðurdrepandi umræða", gróðurhúsaáhrif í "fanatísku leiðindum", "miður sín af áhyggjum" o.s.frv. En það má náttúrulega ekki minnast á þetta af hættu við að móðga einhvern... Einhvern vegin hljómar "mitt piss" bara hjákátlega í samanburði... En ég tek þetta ekki nærri mér, tek mér þó það bessaleyfi að benda á þetta...

PS. Ég get ekki annað séð en að þú sért í fýlu í dag - þ.a.l. notaði ég það orð - ef þér finnst það slæm lýsing - þá get ég alveg dregið í land með það, skiptir í sjálfu sér ekki máli - Ég hef líka farið í fýlu og finnst það nú bara gott og blessað, það hefur alltaf enda með því að ég næ gleði minni á ný - vona að þú gerir það líka.

Sveinn Atli Gunnarsson, 25.10.2011 kl. 14:37

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Athugasemd #1: "drepa alla veðurgleði"

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.10.2011 kl. 15:44

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þessir gróðurhúsahysterímenn eru alveg húmorslausir

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.10.2011 kl. 15:46

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Viskvíðinn er sennilega alveg að fara með þá

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.10.2011 kl. 15:46

16 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ekki ert þú allavega fyndinn Gunnar - en það er náttúrulega fyndið hvernig þú telur þig geta uppnefnt fólk og trúir því í alvöru að þú sért málefnalegur á sama tíma...en jæja, það er svo sem ekkert nýtt í þínum upphrópunum og uppnefningum Gunnar - best að brosa bara að því ;)

Sveinn Atli Gunnarsson, 25.10.2011 kl. 15:52

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Gróðurhúsahysteríumenn" og "Vistkvíðasjúklingar" eru ekki uppnefni. Þetta eru lýsingar á manngerðum.

Vistkvíði er sjúkdómur, viðurkenndur af Alþjóða Heilbrigðisstofnuninni (WHO)

"Svatli Sífúli" er hins vegar uppnefni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.10.2011 kl. 16:02

18 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þetta eru ekkert annað en fúlar uppnefningar, eins og þú ert vanur að setja fram gagnvart til dæmis okkur Höskuldi og ekkert nýtt í því...og það má brosa að því :)  Erum við ákveðnar "manngerðir" - einhverjir sem þú telur þig hafa leyfi til að uppnefna, þar sem þú hefur ekkert málefnalegt til málana að leggja Gunnar...

Að vera geðsjúkur er líka viðurkenndur sjúkdómur, en ætli það væri ekki frekar ópassandi að kalla þig það Gunnar? Tek það fram að dæmið hér á undan er ekki til að kalla nokkurn mann nokkuð, heldur til að sýna fram á málatilbúnað Gunnars - sem að venju telur sig geta uppnefnt fólk sem ekki er á sama máli og hann...ekkert nýtt í því í sjálfu sér hjá honum...hann hefur hlotið margra ára þjálfun í því :D

Sveinn Atli Gunnarsson, 25.10.2011 kl. 16:09

19 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ef það á að heita að ég sé fúllyndur og þoli ekki gagnrýni bendi ég lesendum á að fletta blogginu mínu þrjú ár aftur í tímann. Þá geta þeir dæmt um það sjálfir. Ég hef annars séð ýmis dæmi um það að menn hafa sett upp áhyggjusvip á netinu þegar einstakt góðæri hefir ríkt eins og þeir hafi bara orðið miður sín og áhyggjusvipinn leynir sér ekki bak við orðin. Þetta kalla ég umræðu sem drepur alla veðurgleði. Meina það! Að geta ekki notið staðbundins góðæris án þess að hafa áhyggjur af heiminum. Í nokkur ár hafa tveir veðurfræðingar bloggað á Íslandi. Það eru mjög sjaldan eða jafnvel aldrei einhverjar efnislegar umræður á siðum þeirra um það sem þeir skrifa um nema þakkir (verðskuldaðar) og svoleiðis þó oft séu þeir að skrifa um ýmislegt sem vekur upp spurningar og pælingar. En ef þessir veðurfræðingar aftur á móti minnast á eitthvað sem tengist hlýnun jarðar þá tekur umræðan kipp. Það vilja menn ræða og ræða og ræða. Þegar maður fylgist með þessu misvægi í umræðugleði (er þetta ekki gott nýyrði!) nokkur ár í senn finnst manni þetta niðurdrepandi og hálf fanatískt  og voðalega leiðinlegt. Tek fram að þetta misvægi í umræðugleði á bæði við um þá sem eru ''með og móti'' ´hlýnun af mannavöldum. Loftslagsvísindi eru víðara svið en aðeins hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda og þegar maður sér hvað hlýnunaarumræðan er áberandi og einráð miðað við allt sviðið - þá freistast maður til að finnast að þetta misvægi sé ekki heiðarlegt og sanngjarnt gagnvart öllu veðursviðinu. Hins vegar eru til síður sem einbeita sér sérstaklega að hlýnuninni og við það er ekkert að athuga og bara sjálfsagt að ÞAR sé umræðan ÖLL á hlýnunarplaninu.

Eins og ég hef áður bent á var þessi tiltekna athugasemd mín hjá Trausta, sem vissulega var í afdráttalegra lagi (kannski einum of), eins konar ævisögumoli í tilefni því að ég ljóstraði upp hve nær ég fór að fylgjast með veðri. Þess má geta að ég nota ofhvörf mikið í stíl og hefur það verið nóterað af gagnrýnendum sem einknni. Flestir þeir, sem eru almenilega læsir, átta sig á að ofhvörf eru ofhvörf,  en það fyrirbæri hefur líka þann eiginleika að lesandin veit aldrei alveg hvað mikið á að taka þau alvarlega - jafnvel ekki heldur sá sem skrifar. Við það verður bara að sitja eins og svo margt annað í lífinu. Ég var ekki að efna til almennrar alvarlegrar umræðu við aðra þó auðvitað hafi mér verið ljóst að þetta yrði kannski lesið. En stundum gerir maður hálfpartinn ráð fyir að menn átti sig hvað þeir eru að hnjóta um. Átti sig á aðstæðum.

Sumir trúleysingjar á netinu mega hvergi sjá neinn vitna um trúarskoðanir sínar án þess að koma á staðinn og efna til ærsla og setja ofan í við hinn trúaða. Margir þessara manna eru eldskarpir og kláirir, rökfastir og vel að sér og maður er sammála mörgu sem þeir segja. Maður ber heilmikla  virðingu fyrir þeim. En óneitanlega ber þessi árátta þeirra að geta ekki látið neinn i friði sem setur fram skoðanir um trú sem þeim er ekki að skapi, jafnvel í hjartnæmum játningastíl (nú eða öfgafullum, eins og ég!), keim af fanatík eða ofstæki. Fanatíkerar eða ofstækismenn geta oft haft heilmikið rétt fyrir sér, en það er þetta friðlausa óumburðarlyndi gagnvert skoðunum annara, sem þeir geta aldrei látið sér í léttu rúmi liggja sem er ein birtingarmynd ofstækisins.

Mér dettur þetta í hug þegar ég sé að sumir virðast hvergi geta ekki látið skoðanir annarra í loftslagsmálum í friði ef þeir rekast á þær og í hvaða aðstæðum sem þær eru. 

Ég tek sjaldan þátt í umræðu um loftslagsmálin (hlýnun jarðar) þó ég eigi það til að pissa utan í þær! Samt hef ég lesið heilmikið um þau  og hef mínar skoðnir á þeim. (Þær eru ekki endilega eftir einni sérstakri kokkabók).  Ástæðan er einföld og persónuleg. Á netsíðum hef ég séð hvernig umræður um mikil deilumál þróast næst alltaf. Þær verða heiftúðugar og oft persónulega illvígar. Ég get bara ekki staðið í slíku. Það lengsta sem ég hef komist er að setja fram ákveðnar trúarskoðanir á minni síðu áður fyrr (aldrei á öðrum síðum og gerði aldrei athugasemdir þar heldur). Það brást aldrei að fjöldi manns kom fram til að gera lítið úr persónu minni, móralskri stöðu og heilindum. Ekki ætla ég svo að halda því  fram að ég hafi aldrei sagt neitt á netinu sem betur hefði verið ósagt. En ég vil samt forðast mikil átök. Já, kannski er ég bara aumingi.

Að loku vil ég taka fram að ég hef mætur á Svatla fyrir margt og þykist meira að segja hafa nokkuð fyrir mér í því að hann sé drengur góður.

En fjandinn hafi það að ég sé alltaf sammála honum!

Sigurður Þór Guðjónsson, 26.10.2011 kl. 13:12

20 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir þessa athugasemd Sigurður - þú útskýrir þig ágætlega og þakka ég þér hér með fyrir það. Eins og þú bendir réttilega á (óbeint alla vega) þá hef ég tekið þátt í umræðu um loftslagsmál um nokkra hríð núna og hef svo sem notað mörg tækifæri til að taka þátt í þeirri umræðu. Okkur Höska hefur þótt ómaklega vegið að loftslagsvísindum á sumum stöðum (ég vona að þú hafir tekið eftir því líka) og höfum við því oft á tíðum gert athugasemdir við það. Ég tel það ekki vera fanatík að vilja setja fram okkar sjónarmið sem við byggjum á því sem við höfum lesið varðandi loftslagsvísindin (sem eru alls ekki eftir neinni ákveðinni kokkabók) - en það geta væntanverið skiptar skoðanir á því hvað fólki finnst um okkar nálgun við málin, ekkert við því að gera.

Það getur svo sem vel verið að ég hafi verið of bráður á mér í þetta skiptið (þrátt fyrir hörð orð þín að mínu mati) og afsaka ég ef þér þykir svo vera Sigurður.

Best að hafa þetta ekki mikið lengra í bili og vona ég að við getum verið góðir mátar þrátt fyrir að við verðum kannski aldrei fullkomlega sammála um alla hluti! Ég ætlast heldur ekki til þess að allir séu sammála mér í sjálfu sér (alls ekki), en ég kann að meta að fólk svari fyrir sig á málefnalegan hátt, takk fyrir það Sigurður.

Sveinn Atli Gunnarsson, 26.10.2011 kl. 13:54

21 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Það er auðvitað fróðlegt að sjá hitaferlana fyrir Reykjavík.  Þar blasa við blessuð hlýindin sem ég upplifði þar til á miðjum menntaskólaárunum, hafísárin og kalárin sem síðar tóku við og fóru illa með gróður og kannski mannlíf, og síðan blessuð hlýindin sem síðan tóku aftur við. Var ekki álíka hlýtt  fyrir árþúsundi, svona nokkurn vegin að minnsta kosti?

Auðvitað eru það forréttindi fyrir okkur mannfólkið, dýrin og gróðurinn að upplifa svona milt veður eins og við höfum gert undanfarin ár.   Þó svo að útlenska máltækið "what goes up must come down" sé gott og gilt, þá skulum við bara vona að svo verði ekki næstu árin hvað hlýindin varðar.

Ágúst H Bjarnason, 26.10.2011 kl. 14:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 15
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 983
  • Frá upphafi: 2341357

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 901
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband