Hvaða stöð? Landshámark dag og nótt (nördamoli)

Á vef Veðurstofunnar má sjá lista yfir hlýjustu og köldustu staði landsins. Listinn nær annars vegar yfir þrjú hæstu hámörk og lægstu lágmörk sem mælst hafa fram að því þann daginn en hins vegar má einnig sjá lista um hæsta hámark og lægsta lágmark næstliðinnar klukkustundar.

Ég er ekki viss um að allir notendur Veðurstofuvefsins átti sig á tilveru þessarar töflu því líklegt má telja að langflestir séu með spáafbrigði forsíðunnar uppi og fletti ekki yfir á hinar forsíðurnar þrjár. Vefurinn er þannig stilltur að sú forsíða kemur fyrst upp þar sem vefnum var síðast lokað. Ég opna  síðuna með útgildalistunum alltaf fyrst og e.t.v. eru fleiri veðurnörd sem gera það.

Þegar þetta er skrifað (rétt um fyrir miðnætti á þriðjudagskvöldinu 23. ágúst eru efstu stöðvarnar þessar síðastliðna klukkustund:

Kolgrafafjarðarbrú 13,6 °C
Hafursfell 13,6 °C
Bláfeldur sjálfvirk stöð 13,3 °C

Hér eru tvær vegagerðarstöðvar hlýjastar, en Bláfeldur er í þriðja sæti. Allar stöðvarnar eru á Snæfellsnesi. Næmustu veðurnörd hafa ábyggilega tekið eftir því að það er helst á kvöldin sem stöðvar á Snæfellsnesi og Vestfjörðum eru ofarlega á lista þessum. Athugun leiðir í ljós að Bláfeldur hefur á starfstíma (frá 2004) átt hæsta hita landsins á öllum heilum klukkustundum sólarhringsins en reyndar aðeins einu sinni kl. 15 og 16 en 11 sinnum klukkan 20 og 10 sinnum klukkan 21. Reykjavík er líklegust til að eiga hæsta hita landsins klukkan 21 og 22 að kvöldi en hefur átt hæsta hitann á öllum klukkustundum nema klukkan 14.

Ég gerði til gamans skynditalningu á því hvaða stöðvar eru oftast hlýjastar yfir landið á hinum ýmsu tímum sólarhrings í ágúst - en skildi Vegagerðarstöðvarnar eftir - í bili. Mislangur starfstími þvælist aðeins fyrir í subbuverkum sem þessu - en ég skauta yfir það að þessu sinni. En gróflega eru niðurstöður þessar:

Garðskagaviti er á toppnum frá klukkan 1 að nóttu til klukkan 7 að morgni. Nú hefur Garðskagaviti stundum verið grunaður um að sýna ívið hærra en rétt er - en við látumst ekki sjá það - enda hefur ekki verið dæmt í málinu.

Klukkan 8 og 9 er það hins vegar Neskaupstaður sem er á toppnum að vísu varla marktækt ofar en Skaftafell - en látum það vera. Klukkan 10 er forystan komin til Ásbyrgis og Ásbyrgi á einnig efsta sætið kl. 12. Hallormsstaður skýtur sér inn kl. 11 og tekur síðan völdin frá klukkan 13 til 16. Þá laumast Þingvellir inn og eiga efsta sætið kl. 17 og 18, síðan Hallormstaður enn og aftur klukkan 19 og 20. Frá klukkan 21 til 24 er það Skarðsfjöruviti sem er oftast hlýjastur.

Greinilega má sjá að það eru strandstöðvar sem eru hlýjastar að nóttu en innsveitastöðvar að deginum. Hvers vegna Neskaupstaður kemur svo sterkt inn kl. 8 og 9 veit ég ekki. Viðhorf hlíðarinnar gagnvart sól og tiltölulega hlýjar nætur gætu verið aðalorsakavaldar.

Sé litið á næstu sæti fyrir neðan það fyrsta kemur í ljós að Garðskagaviti og Skarðsfjöruviti taka á víxl annað sætið yfir nóttina. Egilsstaðaflugvöllur er í öðru sæti klukkan 13 og 14 og Skaftafell stingur sér inn. Í þriðja sætinu birtist Seyðisfjörður sem hlýr staður yfir nóttina frá klukkan 24 til klukkan 7. Möðruvellir og Sámsstaðir sjást einnig á blaði auk Hafnarmela sem er kvöldstöð eins og stöðvarnar á Snæfellnesi (sem þó eru ekki í efstu sætunum). Í fjórða sætinu komast bæði Flateyri (klukkan 3) og Hornbjargsviti (klukkan 7) á blað.

Líta mætti á lágmarkshita á sama hátt eða þá hvaða stöðvar það eru sem eiga hámarkshita sólarhringsins - en við látum umfjöllun um það sitja á hakanum að þessu sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 53
  • Sl. sólarhring: 507
  • Sl. viku: 2375
  • Frá upphafi: 2413809

Annað

  • Innlit í dag: 52
  • Innlit sl. viku: 2193
  • Gestir í dag: 51
  • IP-tölur í dag: 50

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband