Illviðri í ágúst

Ágústmánuður er einn af hægviðrasömustu mánuðum ársins. Sólfarsvindar eru hægari heldur en í maí, júní og júlí og þótt illviðratíðni aukist að jafnaði undir lok mánaðarins er hún samt lítil miðað við það sem er í september og síðar. Miklir fokskaðar eru því ekki algengir í ágúst. En þeir verða samt endrum og sinnum. Hey fýkur stundum til stórtjóns og á síðari árum tengivagnar af ýmsum gerðum. Fyrir kemur að mold skefur úr garðlöndum.

Nú á tímum er lítið um vandræði við sjávarsíðuna en áður fyrr varð alloft tjón á bátum og flutningaskipum í höfnum og á legum við landið í ágúst. Sjávarflóð hafa orðið nokkur í ágúst, árflóð og skriðuföll eru býsna algeng á þessum árstíma og snjóflóð hafa fallið. Síðan eru öll norðanhretin og þau vandræði og bölsýni sem þeim fylgja, margir tugir slíkra hreta eru skráðir á síðustu 100 til 150 árum.

Mjög erfitt er að átta sig á afli og umfangi hvassviðra fyrr en veðurathuganir urðu þéttar í tíma og rúmi. Tekist hefur að kreista út stormatal aftur til 1912 en þá var farið að nota Beaufort-vindkvarðann á öllum veðurstöðvum („gömlu“ vindstigin). Batnaði þá samræmi milli veðurstöðva og athugunarmanna að mun.

Á lista sem nær aftur til 1912 (hvort hægt er að gæta fyllsta samræmis er óvíst) fær illviðri sem gerði af suðaustri og suðri aðfaranótt 27. ágúst 1933 fyrsta sæti ágústillviðra. Töluvert foktjón varð í þessu veðri:

Skemmdirnar urðu mestar um suðvesturhluta landsins. Fuku hey víða, þakplötur og þök af húsum og sums staðar tók upp útihús. Járnplötur fuku af íbúðarhúsi á Arnarbæli í Ölfusi og talsvert tjón varð í Ásahreppi og sums staðar í Rangárvallasýslu, öll tjöld brúargerðarmanna nærri Dímoni fuku út í buskann. Fjórði hluti kornuppskerunnar á Sámsstöðum eyðilagðist. Þak tók af hluta Tryggvaskála á Selfossi og þök fuku af hlöðum á bæjum í Grímsnesi. Nýleg stór hlaða og fjárhús á Spóastöðum fuku algjörlega. Tjón undir Eyjafjöllum og í Mýrdal var minniháttar. Þak tók af húsi í byggingu í Borgarnesi, skúrar fuku þar einnig. Refagirðing fauk við Svignaskarð í Borgarfirði og bátur brotnaði í Rauðanesi. Danspallur fauk við Hreðavatn. Vélbátur frá Ísafirði með fimm mönnum fórst undan Norðurlandi. Síma- og raflínur slitnuðu í Reykjavík.

Athyglisvert er að hin aðdáunarverða endurgreining sem hér hefur oft verið minnst á nær þessu veðri mjög illa en þó sést að því olli lægðarbylgja sem kom beint sunnan úr höfum. Á þessum árstíma tengjast krappar lægðir stundum leifum fellibylja en í þessu tilviki hefur ekkert slíkt fundist.

Sumarið 1933 er frægt sem eitt mesta hlýindasumar á Norðurlandi en syðra rigndi linnulítið. Þegar ég var í veiðieftirliti í Borgarfirði fyrir nærri 40 árum minntust netaveiðimenn enn þessa síðsumars með óhug. Þá voru liðin 40 ár frá sumrinu 1933. Mér fannst þetta vera óralangur tími - en nú eru aftur liðin 40 ár (mjög snögglega).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.12.): 9
  • Sl. sólarhring: 405
  • Sl. viku: 1212
  • Frá upphafi: 2421504

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 1089
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband